Fara í efni

Undarlegar reikningskúnstir

Sæll Ögmundur.

Ég hafði virkilega gaman af pistli Þrándar sem birtist hér um daginn. Gædd er grædd rúbbla nýju lífi, þar sem hann fjallar um raunverulega eignaaukningu hinna nýju eigenda gömlu ríkisbankanna. Þrándur fær upp miklu hærri upphæðir en aðrir með því sem hann kallar hinar einföldu reikningskúnstir. Ég held að hann sé nær sannleikanum en aðrir með sinni aðferðafræði. En talandi um hinar einföldu reikningskúnstir, þá segir á síðu tvö í Fréttablaðinu í gær í flennifyrirsögn, Eignarhlutur vaxið um fjórtán milljarða. Og í undirfyrirsögn segir, Hlutur S-hópsins hefur hækkað um 7,7 milljarða eða um 65%. Hlutur Samsonar í Landsbankanum hefur vaxið um 6,2 milljarða króna eða um 50%. Samtals nemur hækkunin 14 milljörðum. Neðar á síðunni er önnur frétt. Þar segir frá sölu endanlegum frágangi á sölu ríkisins á Landsbankanum undir fyrirsögninni Kaupverð lækkað um 700 milljónir. Vitnað er í Valgerði Sverrisdóttur ráðherra þar sem hún svaraði fyrirspurn Jóns Bjarnasonar á Alþingi. Ráðherrann sagði að verðið á banakanum hefði verið lækkað í samræmi við samninga sem ríkisstjórnin hefði gert! Ég veit ekki hvers konar reikningskúnstir Þrándur milli kalla þetta?
En ekki kalla ég þetta hagsmunagæslu fyrir hönd þjóðarinnar!
Kveðja,
Hafsteinn Orri

Þakka þér bréfið.
Mönnum til upplýsingar er hér vitnað í pistil Þrándar frá 18/11 en hann er að finna á þessari slóð: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/gaedd-er-graedd-rubbla-nyju-lifi=
Kveðja,Ögmundur