Unglingar drekka ekki meira - þeir drekka annað
Ég var að renna yfir grein á heimasíðunni þinni um bjórdrykkju unglinga (reyndar var greinin um auglýsingar á áfengi). Þú ( eða ef til vill var það Árni Guðmundsson sem þú vitnar mjög til) sagðir að auglýsingar á bjór væru farnar að skila sér í aukinni bjórdrykkju unglinga. Ég er alveg viss um að þetta er rétt. Unglingar eru farnir að drekka meiri bjór, en fróðlegt væri að vita hvort þetta hafi leitt til minni landadrykkju sem ég hef grun um að hafi gerst. Alla vega held ég að ekki hafi komið fram hjá ykkur Árna að þetta hefði skilað meiri drykkju yfirleitt! Þegar upp er staðið hlýtur það þó að skipta máli.
Þegar ég var á unglingsárum - sem er þó ekkert ýkja langt síðan - þá drukku unglingar ekki bjór að einhverju ráði. Þeir sem drukku á annað borð drukku landa. Ég held að þróunin sem hefur orðið hafi frekar verið breyting á því sem unglingar drekka og hvernig þeir drekka - það er að segja drykkjuvenjunum almennt - frekar en að um hafi verið að ræða aukna drykkju. Með þessu er ég engan veginn að leggja blessun yfir áfengisauglýsingar og vil heldur ekki gera lítið úr mætti auglýsingaáróðurs. Síður en svo. Ég er einfaldlega að vekja athygli á því að þróunin hafi ekki að öllu leyti verið eins slæm og þið Árni gefið til kynna. Alla vega held ég að fáir deili um að betra er að unglingar drekki bjór heldur en landa.
Guðrún
Ég þakka þér kærlega bréfið Guðrún. Þetta eru vissulega umhugsunarverðar ábendingar.
Með kveðju,
Ögmundur