UPPHALDSMENN RÉTTRAR TRÚAR
Þegar Vigdísi Grímsdóttur hlotnuðust verðlaun fyrir bók sína Grandavegur 7 var tilnefnd til þeirra verðlauna lagleg saga eftir Árna Bergmann. Þetta var sagan um Þorvald víðförla. Bókin kom út 1994 og voru þá góð þrjú ár liðin
frá því að íslenskur samgönguráðherra stakk sér fyrstur seinni tíma íslenskra ráðherra í Níl. Um Þorvald víðförla er sagt að hann hafi farið "um allt Grikkjaríki og kom til Miklagarðs. Tók sjálfur stólkonungurinn við honum með
mikilli virðing og veitti honum margar vingjafir ágætar því að svo var guðs miskunn honum nákvæm og flaug hans frægð fyrir alþýðu hvar sem hann kom, að hann var virður og vegsamaður svo af minnum mönnum sem meirum sem einn stólpi og upphaldsmaður réttrar trúar og svo sæmdur sem dýrðarfullur játari vors herra Jesú Kristi af sjálfum Miklagarðskeisara og öllum hans höfðingjum og eigi síður af öllum biskupum og ábótum um allt Grikkland og Sýrland."
Því er þetta rifjað upp hér að þessa dagana sitja enn á ný íslenskir menn við svignandi gnægtaborð suður í Miklagarði í helgum hring hagmunagæslumanna fínanskapítalsins í heiminum. Þetta eru fjármálaráðherra, samningamenn og sendiherrar gagnvart Icesave kröfuhöfum, hugsuður peningamálastefnunnar sem
leiddi okkur í ógöngur, og fyrrverandi formaður stjórnar fjármálaeftirlitsins íslenska, sem vaka átti yfir því að allt væri gert eftir bókinni í bönkum landsins, sem síðar féllu. Þetta er hin nýja Icesavesamninganefnd í raun. Fulltrúar fjármálaráðherra og forsætisráðherra. Svavar, Indriði og Jón.
Ekki er víst að Alister hinn elskulegi taki á móti sendinefndinni með sama brag og stólkonungur sýndi af sér þegar Þorvaldur hitti þann mann í Hagia Sofia, þótt þessir okkar fulltrúar dýrki hagsmuni fjármagnseignenda útlendra
svo sem Þorvaldur herra Jesúm Kristí, þótt allir séu þeir upphaldsmenn réttrar trúar, trúarinnar á kennisetningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Gildir þá einu í hvaða líki sá sjóður bregður sér, innheimtustofnunar alþjóðafjármagnsins, eða götustrák sem leiddist út í að handrukka, sem varð hlutskipti franska jafnaðarmannsins, Dominique Strauss-Kahn sem stýrir AGS, en hann ætti með réttu að setja af vegna framgöngunnar gagnvart Íslandi.
Ekki er víst að Miklagarðsferð fjármálaráðherra verði honum til svo mikils vegsauka að um hann verði sagt heimkominn "að hann var virður og vegsamaður svo af minnum mönnum sem meirum" svo sem sagt var um Þorvald víðförla, sem meðal annarra orða endaði ævi sína með því að ganga í klaustur og hélt uppi ákafri fyrirbæn á það sem hann trúði á þar til yfir lauk.
Trú er, eins og kemur fram í sögunni af Þorvaldi víðförla, margslungin skepna, enda verða sumir þeir sem héldu að þeir tryðu, stundum trúvillingar og efasemdarmenn, fyrr og hraðar en þeir bæði vildu og ætluðu, og stundum
fyrir þá sök eina, að vera heiðarlegir. Þannig fór fyrir Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfsstæðisflokksins, á tröppum Stjórnarráðsins í gær. Hann sagði heiðarlega, að framkoma Alþjóðagjaldaeyrissjóðsins væri slík
að ef franski kratinn héldi uppteknum hætti ættum við að senda þann sjóð heim. Bjarni þessi, sem ég þekki hvorki haus né sporð á, á þakkir skildar fyrir hreinskilnina, en óneitanlega stendur veröldin á haus, þegar formaður
Sjálfstæðisflokksins talar hreint út um þetta viðkvæma mál, en bæði forsætis- og fjármálaráðherra geta ekki tekið sér í munn þau réttu hugtök, sem nota þarf um þennan sjóð nema með munnherkjum og kvíðakasti. Ummæli
Bjarna Benediktssonar eru að sínu leyti jafngild því sem Davíð Oddsson sagði þegar Bandaríkjamenn niðurlægðu bæði hann og þjóðina í varnamálum á sinni tíð.
Þeirri fjölmennu sveit vaskra íslenskra samningamanna, sem hélt suður til Miklagarðs verður sjálfsagt ekki eins vel tekið og Þorvaldi víðförla fyrir þúsund árum, en verðum við ekki að vonast til að heimkomnir setji þeir upp
lítið leikverk, með ekki dónalegum leiktjöldum, sem ef til vill verða fengin að láni frá leikhúsi einu vestanhafs, sem er til húsa á 1900 Pennsylvania Ave NW, í Washington, DC.
Þegar hér kemur í sögunni skiptir miklu að skilja sýnist mér, að framkvæmdavaldið gerði ekki eins og löggjafarvaldið sagði í Icesavemálinu heldur tók sig til og fór að semja um eitthvað annað en lög segja til um.
Áherslan sem forsætisráðherra lagði á að ríkisstjórnin temdi sér öll þúfnakollagöngulagið er óskiljanleg, nema samningsdrögin hafi legið fyrir að mestu, að þau vikju í veigamiklum atriðum frá ríkisábyrgðarlögunum og að hún
vildi á þessum grundvelli hafa tryggingu fyrir að allir ráðherrarnir, allir 34 þingmennirnir, sem fylla stjórnarflokkana færu sameinaðir gegn samþykkt Alþingis frá í sumar. Erum við ekki farin að nálgast svolítið Леонид Ильич
Брежнев í tíma?
Ég er hreykin af frammistöðu þinni, í sumar og í samhengi við það, síðustu
daga.
Ólína