Fara í efni

“UPPLÝST FÓLK" Í MISMUNANDI STÆRÐUM Á STRÆTÓ

Sæll Ögmundur.
Gott að vera komin heim. Við hittumst nokkrar vinkonur á dögunum og varð tíðrætt um auglýsingar. Auglýsingar ríkisútvarpsins, sjónvarpsins. Við veltum fyrir okkur af hverju sjónvarpið hefði tekið að sér að betrekkja strætó í Reykjavík með auglýsingum um “upplýst fólk”. Ein okkar sem býr á Akureyri sagði að þetta ráðslag stingi í augu utanbæjarmanns sem heimsækti borgina þessa dagana. Önnur velti fyrir sér hvort auglýsingafé þessu væri ekki betur varið í framleiðslu innlends menningarefnis sem útvarpsstjóranum er svo tamt um að halda á lofti í aðdraganda einkavæðingar og sumir listamenn lofa og prísa. Kannske eru þeir í auglýsingageiranum? Svo ræddum við hvernig á því stæði að stofnun sem stærir sig af metáhorfi kvöld eftir kvöld, stofnun sem nýtir sér ríkistryggða yfirburði gagnvart keppinaut á markaði sem reyndar horfir upp á hrun á hlutabréfamarkaði meðal annars vegna frumvarps menntamálaráðherra, teldi sig þurfa að fara svona með fé almennings. Hvort sjónvarpið gerði ekki betur í að framleiða nýtt jólaefni fyrir barnabörnin okkar í stað þess að grípa til hallærislausna eins og endursýna gömul jóladagatöl. Hvernig væri nú Ögmundur að skrúfa svolítið upp blússið undir mannskapnum og spyrjast fyrir um á Alþingi hvernig fjárhagsmálum stofnunarinnar er háttað þessa dagana? Hvernig kraftaverkamönnum hefur gengið reksturinn frá því þeir tóku við og bera þannig saman Markús og Magnússon. Ein okkar gerði mikið grín að því að útvarpsstjórinn væri mest áberandi á strætó í fermetrum talið. Hann væri sá eini sem væri nánast óskorinn á mynd þar sem öðrum “upplýstum” er teflt fram skertum. Framsetningin er  svolítið sérstök af því við erum alltaf að tala um ríkisútvarp notendanna, en kannske skiljanlegt að útvarpsstjóri vilji vera sýnilegur. Samt veltum við því fyrir okkur hvort það væri stofnunin eða hann sem bera ættu einkennisstafina ohf?
Kveðja,
Ólína