UTANRÍKISSTEFNAN OG BITLINGAPÓLITIKIN Á KEFLAVÍKURFLUGVELLI
Nú er frú Ingibjörg að sýna sitt rétta andlit. Gott hjá þér Ögmundur að benda á að hún er strax komin inn á "Amerísku" línuna í málum Miðausturlanda, talar ekki við þá fylkingu palestínumanna sem fékk meirihluta í kosningum þar og ræðir um Ísraela og Palestínumenn eins og þeir standi jafnt að vígi.
En reyndar var það nú annað sem ég ætlaði að nefna og það er nýja stjórnin sem hún skipaði í Flugstöðinni. Ekki var nú mikilli lýðræðis- eða valddreifingarhugsun fyrir að fara þar. Hún skipar þrjár Samfylkingarmanneskjur og tvo Sjálfstæðismenn svo ríkisstjórnarflokkarnir einoka stjórnina eins og þeir séu einir til eða hafi 100% fylgi. Auðvitað er lágmark að einn eða tveir stjórnarmenn komi frá stjórnarandstöðunni meðan þetta er algert ríkisfyrirtæki. Og ekki verður nú séð að Ingibjörg hafi valið einhverja sérfræðinga í fyrirtækjarekstri eða flugmálum. þetta er meðhöndlað eins og gamaldags flokksbitlingur til fyrrverandi eða fallinna þingmanna og bæjarfulltrúa. það er rétt sem einhver benti á hér á síðunni að Samfylkingin líkist alltaf meir og meir gamla spillta Alþýðuflokknum sem var frægur fyrir að moka bitlingum í sína menn. Það er líka athyglisvert, eins og þetta með Flugstöðina sýnir, að Samfylkingin er ekki hótinu skárri en Framsókn þegar hún kemst til valda.
Jón Kaldi