Fara í efni

ÚTRÁSAR-VÍKINGARNIR DEKKUÐU SIG MEÐ EIGNUM OKKAR

Vonandi setjið þið verkalýðsleiðtogarnir fram kröfur um að afnema verðtrygginguna og gera fólki kleift að eignast eða leigja húsnæði án þess að þurfa að drepa sig á vinnu. Þegar Danir gagnrýndu ísl. útrásina þá fannst mér alveg augljóst að fjármagnið sem víkingarnir voru að nota erlendis, voru dekkaðar með steinsteypu íslenskra fjölskyldna, sem allar eru veðsettar upp í topp (og verðtryggingin er væntanlega metin til fjár í tölfræði hins illa). Og Danir náttúrulega skyldu þetta ekki, því í Danmörku getur fólk verið á öruggum leigumarkaði alla ævi. Í viðtali í vikunni við Kaupþings-bankastjóra-dreng, sagði hann að íslensku bankarnir væru með gott kredit-álit erlendis, því hér væri ung þjóð og vinnusöm (tölfræði frjálshyggjunnar metur framtíðarhorfur, væntingar). Ísland er eina "siðmenntaða" landið, sem hefur það á stefnuskrá sinni (undirritað af verkalýðshreyfingu og ríkisvaldi um miðja síðustu öld) að fólk ætti að kaupa sínar íbúðir og ekki ætti að byggja upp leigumarkað nema fyrir þá allra veikustu (af hverju rifja sagnfræðingar þetta ekki upp?). Getur verið að þetta sé málið: Höldum þessari fámennu þjóð í tvöfaldri vinnu til að hægt sé að halda uppi nægilegri framleiðni. Á kostnað þess að við gætum notið lífsgæða eins og áhugamála, fjölskyldusamveru og rólegheita? (örþreytt fólk nennir ekki að mæta á fundi og sýna samstöðu) Á sama tíma eykst fjarlægð frá börnunum okkar, þau ganga sjálfala, og byrja náttúrulega að vinna með skólanum á barnsaldri. Er ekki allt í lagi?
Rósa