VÁBOÐAR
Sæll Ögmundur!
Aldrei á dögum fjölmiðlunar hafa heimsbyggðinni borist válegri tíðindi en nýjasta skýrsla um stöðu vistkerfis á jörðinni. Skýrsla þessi fékk lítisháttar umfjöllun í fréttum útvarps og svo í Morgunblaðinu. Nokkur af stærstu iðnríkjum vesturvelda brugðust við þeim válegu tíðindum sem skýrslan bar í sér með knöppum hugleiðingum um hversu við skuli bregðast og öll á þá lund að ekki væri annað í boði en að bregðast við og það hratt. Norður í Atlantshafi býr fámenn þjóð á lítilli eyju sem talin er ein mesta gersemi jarðarinnar vegna hreinni auðlinda til láðs og lagar en önnur þjóðríki. Umrædd skýrsla um ástand lífríkis jarðarbúa bar í sér frétt sem hvergi hefur sést fyrr. Golfstraumurinn sem er grunnforsenda alls lífs á þessari eyju hafði nýlega stöðvast í einhverja daga. Líklega á sama tíma og stjórnvöld okkar voru að hugleiða nýjan samning um orkusölu til mengandi stóriðju. Hvorki ríkisstjórn né stjórnarandstaða þessarar þjóðar sér ástæðu til að boða til fundar á Alþingi og ræða þetta smámál og móta tillögur um viðbrögð. Bág er þessi ríkisstjórn en snautlegri er þó stjórnarandstaðan.
Með kveðju,
Árni Gunnarsson frá Reykjum