VAÐLAHEIÐAR-TVÍSKINNUNGUR VG
Jón Gunnarsson komst vel frá umræðu um samgönguáætlun í Kastljósi og er ég honum sammála um að láta skoða veggjöld. Annað er bara rugl. Síðan eiga fjölmiðlar að gagnrýna Alþingi fremur en Jón Gunnarsson fyrir ófjármagnaða samgönguáætlun. Þingmenn samþykkja allt sem þeir telja falla í kramið umhugsunarlaust og gagnrýna svo ábyrgðarlaust að það skuli ekki vera gert án þess að þeir þó sjái fyrir fjármögnun.
Síðan er öskrað út af veggjöldum, þú dregur nú ekki af þér í því Ögmundur.
En verstur er tvískinnungur VG varðandi samgönguáætlun. Þar sparar VG ekki stóru orðin. Eru menn búnir að gleyma að Vaðlaheiðargöng voru tekin út úr samgönguáætlun, þvert á vilja samgöngunefndar og samgönguráðherra, ekki satt Ögmundur? Hver skyldi hafa gert það? Var það ekki Steingrímur, þáverandi fjármálaráðherra og samflokksmaður þinn Ögmundur? Þú varst nú ekki par hrifinn ef ég man rétt. Og ég man þetta sem í gær, enda vorum við Vestfirðingar svikin um Dýrafjarðargöng í leiðinni eða þeim frestað, en skyldu Steingrímur og Svandís vera búin að gleyma öllu þessu eða er bara búið að skipta um forrit? Er bara sagt það sem passar?
Þessi Vaðlaheiðar-tvískinnungur VG er ekki fallegur vitnisburður um þessa stjórnmálamenn og þennan stjórnmálaflokk eða hvað finnst þér?
Ásdís