Fara í efni

VÆRI EKKI RÁÐ AÐ HLUSTA Á ÓMAR?

Í gær var haldinn mjög fróðlegur og skemmtilegur fundur á vegum ungra jafnaðarmanna í Hafnarfirði um áform sem uppi eru um stækkun álversins í Straumsvík. Þar er verið að tala um heimild til að stækka úr 180.000 tonnum í 460 þúsund tonn! Frummælendur voru þau Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi VG í Hafnarfirði, Karl Óskarsson frá Sól í Straumi, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi álversins í Straumsvík og síðast en ekki síst Ómar Ragnarsson.
Frummælendur stóðu sig allir vel þótt málflutningur þeirra Guðrúnar Ágústu, Karls og Ómars félli mér best. Framlag Ómars situr enn í mér svo áhrifaríkt var það. Hann fór með fundarmenn í flugferð yfir Brennisteinsfjöll á Reykjanesi og spurði hvort ekki væri ráð að friða þau og gera svæðið að þjóðgarði. Ómar sagði að í grennd við Helsinki, höfuðborg Finnlands, hefði verið hlegið að þeirri hugmynd, fyrst þegar hún kom fram, að gera mætti örlítinn þjóðgarð á afar fögru og sérstæðu svæði í grennd við Helsinki. Síðan hefði komið á daginn, eftir að hugmyndinni hafði verið hrint í framkvæmd, að þetta svæði ásamt Nokia-verksmiðjunum, væru eftirsóttustu ferðamannastaðir á þessum slóðum, þ.e., þjóðgarðurinn og hátæknifyrirtækið!
Þetta væri umhugsunarvert, sagði Ómar Ragnarsson. Hann sagði að sú tíð væri liðin að við gætum rætt þessi mál út frá þröngu sjónarhorni. Hér væri ekki aðeins um að ræða málefni sem snerti Hafnfirðinga eina heldur landsmenn alla. Ef heimild yrði veitt fyrir stækkun í Straumsvík yrðu menn að vera undir það búnir að fórna Brennisteinsfjöllum og fleiri náttúruperlum.
Ómar endaði eldmessu sína í bundnu máli og var það mjög áhrifaríkt.
Um kvöldið sáum við Ómar Ragnarsson síðan taka við verðlaunum sem sjónvarpsmaður ársins á verðlaunahátíð íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar. Þar er maður sem er vel að verðlaunum kominn. Til hamingju Ómar Ragnarsson! Til hamingju Íslendingar að við skulum eiga mann á borð við Ómar Ragnarsson!! Væri ekki ráð að hlusta á hvað hann hefur að segja?