VANGA-VELTUR UM RÉTTAR-FARIÐ
Sæll Ögmundur.
Loksins! Loksins! maður sem þorir að taka á málum. 1) Hæstiréttur Íslands er í dag verzlunarréttur. Hvað á ég við? Það er 300.000 kr. þröskuldur á málum sem heimilt er að áfrýja. Þannig að í veigamiklum prinsippmálum geta menn lent í því að í landinu er eitt dómstig. Þetta er brot á öluum mannréttindasáttmálum sem skrifaðir/samþykktir hafa verið. Sem sagt ef mál fjallar ekki um peningalega hagsmuni hafa Íslendingar ekki málskotsrétt. Hvernig er það mögulegt að þetta virðist ekki angra fleiri. 2) Fróðlegt er að bera saman stöðu skuldara/gerðarþola í innheimtumálum nú og fyrir 30 árum. Til þess að ,,einfalda kerfið" hefur allur réttur gerðarþola í aðfararmálum verið troðinn í svaðið. Dæmi: a) Ekki þarf dóm til að staðfesta skuldamál sem undanfara aðgerðar. b) Sýslumönnum er heimilt að gera árangurlaust fjárnám hjá gerðarþolum ef þeir ekki mæta, þó svo að eignir eru til staðar. c) Lögmönnum er ekki heimilt að gefa út verðskrá samkvæmt samkeppnislögum. Þannig að lögmaður getur krafið greiðslu í beinni aðför t.d. í skuldabréfamáli og sett svívirðilega háa innheimtuþóknun. Gerðarþoli getur ekki tekið til varna í fjárnámsgerð á þeirri forsendu að innheimtuþóknun sé óraunhæf. Hann getur aðeins tekið til varna hvað varðar framkvæmd fjárnáms. Gerðarþoli í þessu ímyndaða dæmi þyrfti sem sagt að stefna lögmanninum í sérstöku máli til þess að fá þóknunina lækkaða. Sérðu fyrir þér einhvern minni máttar ganga á milli lögmanna til þess að fá einhvern til þess að stefna kollega vegna ósanngjarnar innheimtuþóknunar. 3) Ísland er eina landið í hinum vestræna heimi sem leyfir að dráttarvextir séu lagðir við höfuðstól einu sinni á ári. Með dráttarvexti sem hagstjórnartæki verða til mjög skrautlegar aðstæður í þessu sambandi. Í dag eru dráttarvextir 14.5 % og verðhjöðnun í landinu. Þessir vextir lagðir við höfuðstól einu sinni á ári........
Kær kveðja,
Kristjón Benediktsson
Þakka þér fyrir þessar bollaleggingar en um margt er ég þér sammála, sbr. t.d. þessa grein sem ég birti í Morgunblaðinu í febrúar árið 2002: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/haestirettur-afryjunarheimildir-og-mannrettindi.
Kv.
Ögmundur