VEIKUR HLEKKUR (Grein I)
Veikasti hlekkurinn í rannsóknaskýrslunni virðist vera 8. bindið, saminn af siðfræðingum og fyrrv. stjórnmálamanni. Þar virðist mér ónákvæmni vera talsverð. Forseti Íslands hefur bent á nokkrar staðreyndavillur sem einhverjir fjölmiðlar hafa tekið upp og gert sér mat úr og í fjölmiðlakaflanum gætir ónákvæmni og misskilnings. Þar fyrir utan virðast höfundar forðast að halda á djúpið í skýringum sínum og greiningu en halda sig fremur á grunnsævi. Það er verra því hér var upplagt tækifæri að greina og gagnrýna fjölmiðla almennt og fyrir þátt sinn í spuna fjármálaaflanna.
Í skýrslunni er réttlega bent á að fjölmiðlar hér leggja ekki mikla áherslu á almannaþjónustuhlutverkið. Hér hefði höfundur mátt tilfæra að almannaþjónustuhlutverk, t.d. ljósavakamiðla í einkaeigu í nágrannalöndum okkar, er samkvæmt lögum yfirleitt hluti af skilyrðunum sem sett eru í útsendingarleyfi viðkomandi stöðva. Það er því almannavaldið sem tryggir almannaþjónustuhlutverk allra í nálægum löndum, en hér hefur það ávallt verið eftirlátið eigendum.
Í skýrslunni dregur starfsmaður Ríkisútvarpsins upp mynd að stofnuninni þar sem hann hliðrar til staðreyndum og nálgast viðfangsefnið með normaliserandi hætti. Þannig fullyrðir höfundur 8. kaflans á bls. 198 að "pólitískt skipað útvarpsráð ráði ekki lengur starfsmenn inn á" fréttastofuna. Pólitískt skipað útvarpsráð hefur aldrei haft það hlutverk lögum samkvæmt að ráða starfsmenn á fréttastofur RÚV. Stöðuveitingar komu til umræðu í útvarpsráði sem kosið var af Alþingi, en útvarpsráðið hafði umsagnarrétt um mannaráðningar, annað ekki. Fréttastjórum var í sjálfsvald sett að ráða úr hópi þeirra sem á annað borð gátu talist frambærilegir. Hið rétta er að fréttastjóri og útvarpsstjóri framseldu pólitískt skipuðu útvarpsráði vald umfram það sem lagaákvæði gerðu ráð fyrir. Þetta gerðist eftir að Sjálfstæðisflokkurinn tók RÚV yfir. Með því að velta þessum veruleika fyrir sér í svona skýrslu hefði komið talsvert kjöt á beinið í naglasúpunni sem þessi kafli er að mörgu leyti.
Eiður Guðnason, virtur fyrrverandi fréttamaður og ráðherra, segir frá því í Morgunblaðinu 15. apríl hvernig Ríkisútvarpið fer á svig við lög með áfengisauglýsingum. Hvergi er að sjá að siðfræðingarnir hafi velt fyrir sér í alvöru sambandi auglýsingasölu Ríkisútvarpsins og birtingu efnis. Ef menn hefðu viljað fara oní þá ormagryfju hefðu menn átt að tala við nokkra fyrrverandi auglýsingasölumenn hjá RÚV. Höfundarnir hefðu líka mátt upplýsa um að það eru ljósvakafjölmiðlarnir, einkastöðvar og almennings, sem setja gríðarlegt fé í áhorfskannanir og hlustunarútektir. Allir vita að auglýsingasölumennirnir nota þær útektir í störfum sínum og hafa talsvert um það að segja hvernig dagskrá er raðað niður og hvað valið er til sýningar og hvenær. Aðeins með því að bora í þessa þætti með gagnrýnum hætti er von til að ljósi sé varpað á baksvið ljósvakans, fjölmiðlanna. Við höfum ekki efni á þessum veiku hlekkjum. Greiningin þarf að vera alvöru.
Ólína