Fara í efni

VEIT NÚ HVAÐ HLUTAFÉLAGAVÆÐING ÞÝÐIR

Ég er einn þeirra sem staðið hefur frammi fyrir því að ákveða hvort ég taki við starfi hjá Matís ohf, hinu hlutafélagavædda fyrirtæki, sem áður samanstóð af Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknum á Keldnaholti og rannsóknarstofu Umhverfisstofnunar. Ég skal játa að ég var í hópi þeirra sem lét mig litlu varða hvort stofnanir væru færðar í búning hlutafélags eður ei. Eftir að kynnast atgangi nýrra stjórnenda með persónubundna ráðningarsamninga upp á vasann, nánast í einelti gagnvart einstökum starfsmönnum og andúð þeirra á stéttarfélögum, eru skoðanir mínar í þeim efnum gerbreyttar. Ég ásaka sjálfan mig fyrir andvaraleysið – að hafa ekki tekið undir með ykkur sem andæft hafa hlutafélagavæðingunni - en spyr jafnframt hvað hægt sé að gera til að stöðva frekara niðurrif stjórnvalda á samfélagslegri starfsemi og aðför þeirra að starfsfólki hins opinbera? Hér eftir hlusta ég á varnaðarorð þín gangvart einkavæðingunni á allt annan hátt en ég hef áður gert. Nú geri ég það að fenginni reynslu. Hér eftir kýs ég VG – eina flokkinn sem talar tæpitungulaust um þessi mál og hefur skýra afstöðu – með starfsfólkinu og með samfélaginu.
Hlutafélagavæddur ríkisstarfsmaður