Fara í efni

Veni, vidi, vici í Washington

Já, forsætisráðherrann okkar, Davíð Oddsson, kom, sá og sigraði í Washington á 1800 sekúndna fundi með Bandaríkjaforseta og líflegum blaðamannafundi í kjölfarið. Eins og sekúndurnar allar segja til um gafst þeim félögunum færi á að ræða margt og merkilegt. Þeir fóru ítarlega yfir ástand heimsmálanna, þar á meðal sameiginleg viðfangsefni í Írak, auk þess að leita logandi ljósi að lausn á varnarmálum okkar Íslendinga og hugsanlegum grafalvarlegum loftvarnarskorti hérlendis vegna mikilla tilfallandi verkefna annars staðar.

Á blaðamannafundinum var mikið um vinarhót og meira að segja strokur. Fannst mér nóg um hvernig Bandaríkjaforseti lét við forsætisráðherra og sú spurning hlýtur að vakna hvort akkúrat svona efni eigi yfirleitt að sýna í fréttatímum virtra stofnana á borð við Ríkissjónvarpið. Að mínum dómi eiga strokur þær sem Bush viðhafði miklu fremur heima á rásum eins og t.d. Adult Channel Breiðbandsins sem ég hef reyndar nýverið gerst áskrifandi að eftir að ríkisstjórnin skrúfaði fyrir útsendingar frá Alþingi. Og ég hef einmitt frétt að í flestum fylkjum Bandaríkjanna hafi sams konar ljósbláir kanalar verið nýttir til að sýna blaðamannafundinn enda er siðferðis-standardinn miklu eðlilegri og meiri þar í landi en hér.

En burtséð frá þessu var þetta stórkostlegur viðburður fyrir okkur Íslendinga og ánægjulegt fannst mér að skynja þá einlægu vináttu sem ríkir milli leiðtoganna. Og það yljaði mér sérstaklega um hjartaræturnar þegar Davíð í lok blaðamannafundarins snaraði latneska málshættinum, amicus verus rara avis, yfir á ensku og beindi orðum sínum til vinar síns: Finally, Mr. President, I want to dedicate to you the old Roman saying, which the Romans used long ago, before Christ, and perhaps also after: A true friend is a rare bird.”
Þjóðólfur