VERÐUR KANNSKI “LAUGARDAGSKVÖLD MEÐ VILLA” Í VETUR?
Það verður ekkert “Laugardagskvöld með Gísla Marteini” í sjónvarpinu í vetur, því miður fyrir okkur eldri borgarana sem áttum þar hauk í horni og gleðinnar fasta punkt í annars dapurlegri dagskrá Ríkissjónvarpsins.Gilli sækist nefnilega eftir því, enda þjóðþekktur orðinn af góðu einu, að verða borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum. Hann hefur því eðlilega lítinn tíma til að spjalla og sprella fyrir okkur gamla fólkið um hverja helgi. Svona er nú pólitíkin, ætíð til eintómra leiðinda, og á þessu vandamáli verður að finna lausn hið bráðasta. Geri ég það hér með að tillögu minni að keppinautur Gísla um borgarstjórastólinn, Vilhjálmur Þórður Vilhjálmsson, játi sig strax sigraðan og taki upp keflið hans Gilla í sjónvarpinu. Þá fengjum við gamla fólkið “Laugardagskvöld með Villa” og yrðum ekki svikin af þeirri skemmtun – það get ég fullyrt eftir löng og skemmtileg kynni við Vilhjálm allt frá því í æsku í Hlíðunum forðum. Þetta með húmorinn og kímnina staðfestir Villi reyndar sjálfur af alkunnri hógværð í DV í dag í grein sem ber yfirskriftina “Reynsluboltar verjast fjölmiðlastjörnum”. Þar er hann spurður hvort verið geti að fólki finnist hann heldur litlaus pólitíkus. Vilhjálmur segist að sjálfsögðu vona að svo sé ekki og bætir þessu við: “Ég hef skoðanir á því sem er að gerast í borginni og hef góða lund og þokkalegan húmor. Stjórnmál eru alvörumál og þannig nálgast ég þau. Ég ætti kannski að láta skína í húmorinn oftar.” Já, líkast til er það hárrétt niðurstaða og tillaga mín hnígur einmitt að því – með laugardagsþættinum gæfist Vilhjálmi kjörið tækifæri til að losa aðeins um og grisja uppsafnaðan húmorinn eftir áratuga alvöru í pólitíkinni. Og gaman væri nú - ef þessi tillaga mín verður að veruleika – að Villa tækist að fá Gilla til að ýta með sér nýju þáttaröðinni úr vör sem aðalgestur fyrsta þáttarins á hausti komanda. Að fjórum árum liðnum gefst svo Vilhjálmi ein
Með vinarkveðju,
Ari Guðmundsson á Grafarbakka