Fara í efni

VERÐUR LALLI NÆSTI LÖGREGLUSTJÓRI Í REYKJAVÍK?

Í tengslum við sérdeilis ósvífna valdníðslu við val og ráðningu fréttastjóra á fréttastofu RÚV laust því niður í kollinn á mér að ráðning Auðuns Georgs Ólafssonar væri svona álíka ráðstöfun og að dómsmálaráðherra mundi – að undangengnu vandlegu forvali milli hinna hæfustu manna - skipa Lalla Johns í embætti lögreglustjórans í Reykjavík. En við nánari umhugsun komst ég að sjálfsögðu að þeirri niðurstöðu að þarna væri ólíku saman að jafna. Lalli, einn þekktasti og jafnframt hugljúfasti smákrimmi landsins í seinni tíð, hefur nefnilega yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á störfum lögreglunnar og þar á ofan þekkir hann undirheima borgarinnar eins og lófana á sér. Hann verður því að teljast allvel í stakk búinn til að gegna embætti lögreglustjóra, ólíkt hinum nánast reynslulausa Auðni Georg Ólafssyni í stöðu fréttastjóra en afrekaskrá hans á sviði fréttamennsku eru, að því er næst verður komist, fáeinir fréttapistlar frá Japan og Kaupmannahöfn fyrir Norðurljósagrúbbuna á öldinni sem leið.
Þrátt fyrir reginmun á hæfni þessara tveggja einstaklinga til ofangreindra starfa spái ég því að Lalli Johns muni aldrei verða lögreglustjóri. Ekki byggist sú spá á því að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra muni geta hankað Lalla á reynsluleysi heldur hinu að Lalli þekkir einungis til í hinum ólöglegu undirheimum. Aftur á móti er Lalli eins og þorskur á þurru landi og í besta falli þekktur sem lélegur brandari í settlegum undirheimaklíkum spariklæddra framsóknar- og sjálfstæðisflokkskrimma sem nú ríða húsum í samfélaginu, vinna sín fólskuverk um hábjarta daga, knýja í gegn lagabreytingar í þau fáu skipti sem þeir eru dregnir fyrir dómstólana fyrir alls kyns brotastarfsemi og þekkja ekki það fyrirbæri að þurfa að svara til saka. Í þessum svarta kima á Lalli Johns enga stuðningsmeðlimi eða einkavini, eins og til að mynda háttvirtur nýráðinn fréttastjóri Auðun Georg Ólafsson. Þar liggur hundurinn grafinn og einmitt þess vegna getur farsinn um Lalla lögreglustjóra aldrei orðið að veruleika.
Þjóðólfur