Verður Stjórnarráðið flutt til Borgarness eða í félagsvísindadeild?
Það er merkilegt hvað forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar gerist glöggsýn þegar hún ríður um Borgarfjarðarhérað. Þetta gerist einkum og sér í lagi á þingfundum hennar í Borgarnesi – þá er eins og hún öðlist svo mikið innsæi í vandamál þjóðfélagsins að engu er líkara en hún hafi þúsund augu – eða nákvæmlega eins mörg og löndin eru í “Nallanum” sem við róttæklingarnir syngjum af heilum hug á 1. maí.
Þrjú fórnarlömb í febrúar
Á flokksráðstefnunni í febrúar fann forsætisráðherraefnið þrjá einstaklinga sem núverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, og ríkisstjórn hans hefur leikið einstaklega grátt. Á þessum einstaklingum hefur forsprakkinn Davíð traðkað miskunnarlaust og dregið þá á bólakaf niður í svaðið. Þetta eru þeir heiðursmennirnir Jón Ólafsson í Norðurljósum, Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi og Sigurður Einarsson í Kaupþingi. Alþýða þessa lands veit jú, rétt eins og forsætisráðherraefnið, að þarna eru á ferð einmuna hugsjónamenn sem einvörðungu hafa barist fyrir bættum kjörum almennings en aldrei hugsað um eigin hag. Skemmst er t.d. að minnast þess óvenjulega góðverks þegar Sigurður vinur minn í Kaupþingi sendi hálfri þjóðinni dýrindis værðarvoðir, þrátt fyrir eigin bágu bónusa og kjör að öllu leyti, til að landsmenn gætu haldið á sér einhverjum hita í þeim vetrarstormum markaðshyggjunnar sem Davíð Oddsson hefur hellt yfir landið.
Alþýðumenn ofsóttir
Já, Sigurður sendi mér teppi til að taka úr mér hrollinn. Jón Ásgeir hefur svo hugsað um minn svanga maga, nánast gefið mér – jafnt sem öðrum landsmönnum - í matinn um margra ára skeið án þess að hafa haft nokkuð upp úr krafsinu sjálfur nema þá helst þakklæti alþýðufólks. Nú, nú, við lifum náttúrlega á ekki á brauði einu saman og er þá komið mikilvægu framlagi Jóns Ólafssonar. Hann hefur af einstökum stórhug séð um að fóðra mig og aðra landsmenn á menningarlegu efni, veitt okkur sannkallaða upplyftingu í dagsins önn fyrir sáralítinn pening og eru skattaskýrslur hans órækasta vitnið um þá fórnfýsi sem hann hefur stundað í gegnum árin. Við höfum fengið að horfa á menningarlegar kvikmyndir, vekjandi umræðuþætti með andans jöfrum, rithöfundum og heimspekingum, við höfum fengið heim í baðstofu listrænar erótískar kvikmyndir og hnefaleika svo fátt eitt sé nefnt. Og Jón hefur um áraraðir verið á því sem forðum var kallað “vinnukonuútsvar.” Hann hefur ekki verið matvinnungur en sem betur fer hefur okkar götótta velferðarkerfi þó fleytt honum yfir erfiðustu hjallana.
Glúrin greining í Borgarnesi og í HÍ
Allt þetta segir sína sögu um ofannefnda þremenninga, þessa úrvalsmenn. En framlag þeirra til samfélagsins hefur verið og er einskis metið af Davíð Oddssyni. Þvert á móti ignorerar hann fátækt þeirra og hann spúlar yfir þá ónotum og reynir að bregða fyrir þá fæti hvenær sem færi gefst. Þennan þjóðfélagsvanda hefur forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar sem betur fer afhjúpað með eftirminnilegum hætti og auðvitað í Borgarnesi. Glæsileg samfélagsgreining hennar minnir reyndar mjög á þá fræðilegu niðurstöðu prófessoranna í félagsvísindadeild sem birtist í Fréttablaðinu á dögunum þess efnis að yfirstandandi kosningabarátta sé “óvenju merkileg og hörð.” Þegar horft er til Borgarness má að sumu leyti taka undir það að ýmislegt merkilegt og þó miklu fremur skringilegt hafi komið fram í kosningabaráttunni. Í Borgarnesi gerði leiðtogi Samfylkingarinnar nefnilega meira en greina samfélagsvandann og finna nokkra aðila sem eiga undir högg að sækja. Þar jarðaði hún m.a. úreltar hugmyndir eins og vinstristefnu og þar kom hún líka upp um strákinn Tuma, hann Tony litla Blair, sem kom til Íslands í dulargervi og með falsað vegabréf og stal nýfrjálshyggju-jafnaðarstefnunni úr náttborðsskúffu leiðtogans. Já, í Borgarnesi hefur forsætisráðherraefnið lagt þung lóð á vogarskálarnar og gert kosningabaráttuna óvenju furðulega, sjálfhverfa og sjálfhælna. Ég vil benda prófessorunum sérstaklega á að rýna í Borgarnessræðuna hina fyrri, hún er óborganleg. Maður gæti allt eins haldið að Davíð Oddsson hefði samið hana, það eina sem vantar er hárbeittur húmorinn.
Um hörkuna sem prófessorarnir tala um kannast ég hins vegar ekki við og kann skýringin að vera sú að öll glímubrögðin séu bundin við félagsvísindadeildina sjálfa. Þangað hef ég ekki komið í ein 25 ár og er því alls ekki dómbær á ástandið.
Tvo fórnarlömb í apríl
Nú styttist í 1. maí og enn bætist í þann hóp sem Davíð Oddson hefur lagst á af fullum þunga. Í annarri opinberunarræðu sinni í Borgarnesi nefndi forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar tvo máttlitla einstaklinga til viðbótar, nefnilega biskupinn yfir Íslandi og forseta lýðveldisins en á báðum þessum hefur Davíð stappað á um árabil. Þessir tveir hafa eins og hinir þrír mátt þola ólíklegustu bolabrögð forsætisráðherrans. Sérstaklega rennur mér blóðið til skyldunnar þegar forseti vor er annars vegar. Í því sambandi er mér afar minnisstæður kosningafundur Alþýðubandalagsins sáluga í apríl 1983 en þá stóð forsetinn okkar núverandi í fylkingarbrjósti upp á stóru sviðinu. Um þær mundir bar hann öll merki þess manns sem þekkt hefur skortsins glímutök. Hann var vaxinn upp úr jakkafötunum, hendurnar voru krepptar, hann neri þeim saman til að stuðla að eðlilegu blóðrennsli og fá í þær hita og svo mjög var hann máttfarinn að sprungnar varirnar rétt bærðust þegar hann af veikum mætti reyndi að syngja alþjóðlegan baráttusöng verkalýðsins með fundarmönnum. Já, þetta var sárgrætilegt upp á að horfa og ókunnugir hafa vafalaust ályktað sem svo að foringinn okkar tilvonandi kynni ekki bara alls ekki textann. Á þennan mann hefur Davíð Oddsson lagst og sýnir kannski betur en annað “skítlegt” eðli hans er eins og ónefndur þingmaður lýsti innrætinu forðum tíð.
Stjórnarráðið til Borgarness
Já, fram þjáðir menn í þúsund löndum. Forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar hefur fundið fimm slíka hér á landi og er vonandi að leiðtoginn fari sem oftast til Borgarness fyrir kosningar til að fjölga í þessum hópi – til þess fletta í eitt skipti fyrir öll ofan af samfélagsmeinunum. Þá finnst mér liggja í augum uppi, að fengnum nýjum forsætisráðherra eftir kosningar, að Stjórnarráð Íslands verði flutt til Borgarness. Félagsvísindaeild gæti einnig sýnst fýsilegur kostur en persónulega veðja ég á Borgarfjörðinn. En hvernig svo sem fer í staðarvalinu veitir svo sannarlega ekki af glöggskyggni þegar finna á þá einstaklinga og hópa í samfélaginu sem virkilega eru hjálparþurfi. Og það veitir ekki af mikilli og djúpri skarpskyggni þegar frelsið, lýðræðið, jöfnuðurinn og réttlætið eru annars vegar en markaðsvæðingin og einkavæðingin hins vegar. En þetta er einmitt sú sérkennilega uppskrift sem Samfylkingin ætlar að nota við brauðbaksturinn ofan í landslýð fái hún til þess nægilegt fylgi. Við ámóta bakstur hefur hinn þjófkenndi og herskái Tony Blair verið að baxa við í Bretlandi með ömurlegum árangri fyrir allan almenning.
Þjóðólfur