Fara í efni

VERKALÝÐS-FORYSTAN OG VERÐTRYGGINGIN

Sæll Ögmundur. 
Þar sem þú átt sæti í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þá langar mig til að forvitnast um afstöðu þína til verðtryggðra lána nú þegar mikil hætta er á mikilli verðbólgu næstu misserin. Þú þekkir nú þessi mál og afstöðu ungs fólks til þeirra síðan þú varst í forystu Sigtúnshópsins. Það er að mínu mati alveg óviðunandi að verkalýðsforystan sýni því engan skilning hversu illa verðtryggingin hefur og mun leika ungt og skuldum vafið fólk. 
 kveðja,
Guðmundur Hörður Guðmundsson
Reykjavík

Sæll Guðmundur Hörður og þakka þér fyrir bréfið. Ég hef í tímans rás fyrst og fremst gagnrýnt háa raunvexti án tillits til þess hvort um óverðtryggða eða verðtryggða vexti er að ræða. Ég hef með öðrum orðum einblínt á greiðslubyrðina. Staðreyndin er sú að afborganir af verðtryggðum lánum hafa verið viðráðanlegri en af óverðtryggðum, sjálf rauvaxtaprósentan lægri. Á hinn bóginn hefur lántakandinn greitt miklu hærri vaxtakostnað þegar upp er staðið og lánið greitt upp að fullu. Þannig að þetta er svolítið mótsagnkennd staða. Enn ein stðafestingin á því að það er dýrt að vera fátækur.
Ég hef barist gegn því að lán geti verið í senn verðtryggð og með breytilegum vöxtum. Breytilegir vextir eru notaðir til að geta hækkað vextina í takt við verðbólguna. Verðtryggð lán með breytilegum vöxtum eru þannig með belti og axlabönd fyrir lánveitandann og fullkomlega siðlaus.
Í stjórn lífeyrissjóðsins hef ég alltaf verið talsmaður lágra vaxta og ætíð lagst gegn vaxtahækkunum. Á stjórnarfundi LSR í dag var m.a. rætt um þína spurningu, Það er hvernig hægt er að koma til móts við lántakenedur í vanda og þá meðal annars velt upp þínum vangaveltum. Engin ákvörðun var tekin en það máttu vita að ég mun leggja mitt af mörkum til að komið verði til móts við fólk í greiðsluvanda og verða þar allar hugmyndir skoðaðr.
Með kveðju,
Ögmundur