Fara í efni

Verkalýðsbarátta í öndvegi

Sæll Ögmundur. Ég horfði nýlega á þáttinn Ísland í dag á stöð 2 og þar var meðal annars viðtal við Þóreyju Eddu sem er í framboði við VG í suðvestur kjördæmi.  Þar gerði hún lítið úr þeim störfum sem verða til í álveri á Reyðarfirði þar sem þetta verði nánast eingöngu störf fyrir verkafólk, það væri nær að búa til störf fyrir menntað fólk.  Ég hef hitt fleiri sem tóku eftir þessum orðum hjá henni.  Því vil ég spyrja.  Ert þú í flokki sem hugsar eingöngu um menntað fólk?  Ef svo er hvenar breyttust þá viðhorf þín?  Ég hef alltaf litið á þig sem talsmann verkalýðsinns og þykir það mjög miður ef þar er að verða breyting á.  
Með kveðju, Sigurbjörn Halldórsson. 

 
Heill og sæll Sigurbjörn og þakka þér fyrir bréfið. Því miður sá ég ekki þennan þátt en hitt held ég að ég geti fullyrt að Þórey Edda er ekki haldin því sem kalla má menntahroka nema síður sé. Hún kemur mér fyrir sjónir sem bæði víðsýn og geðþekk manneskja sem hefur mikið til málanna að leggja. Í málflutningi sínum hefur hún lagt áherslu á það stefnumið VG að byggja upp fjölskrúðugan þekkingariðnað í bland við aðra framleiðslu í stað þess að einskorða okkur við frumvinnslu í þágu Alcoa. Hafi ummæli hennar skilist á annan veg og þá þann sem þú nefnir þá skil ég þín viðbrögð mæta vel. Sjálfum finnst mér menntahroki bæði leiðinlegur og barnalegur en það vil ég ítreka að hann er ekki að finna hjá Þóreyju Eddu. Að mínu viti er ekki hægt að leggja að jöfnu menntun og skólagöngu. Langskólagenginn maður getur verið þröngsýnn og þannig í sjálfu sér ómenntaður. Einstaklingur með litla skólagöngu að baki getur hins vegar verið vel menntaður. Ekki svo að skilja að ég telji skólagöngu óæskilega. Það geri ég ekki. Reyndar þvert á móti. Ég er einfaldlega að leggja áherslu á afstöðu mína til menntunar; hvern skilning ég legg í þetta hugtak. Viðhorf mín nú eru hin sömu og þau hafa verið svo lengi sem ég man eftir mér og tók ég snemma ástfóstri við þessa vísu eftir Klettafjallaskáldið Stephan G. Stephanson:

Þitt er menntað afl og önd,
eigirðu fram að bjóða
hvassan skilning, haga hönd,
hjartað sanna og góða.

Mér finnst skipta máli að við búum við fjölbreytni í atvinnulífinu og ein ástæðan fyrir andstöðu VG gegn því að gera þungaiðnað að uppistöðu íslensks atvinnulífs (samkvæmt hugmyndum Framsóknarflokksins á hann að verða rúmur þriðjungur efnahagsstarfseminnar)  er að hann leiðir til einhæfni. Ég lít svo á að öll störf í þjóðfélaginu séu mikilvæg og öll krefjist þau færni og kunnáttu. Þess vegna ber að leggja ofuráherslu á stöðugt framboð menntunar fyrir öll störf. Ég er með öðrum orðum mjög hlynntur því að ýta undir menntun bæði til undirbúnings starfi og síðan í atvinnulífinu.

Þú spyrð hvort hugarfarsbreyting hafi átt sér stað hjá mér. Við höfum í gegnum tíðina rætt sitt af hverju þessu tengt Sigurbjörn og fullvissa ég þig um að engin hugarfarsbreyting hefur orðið hjá mér í þessum efnum. Ég er t.d mjög andvígur launamun vegna menntunar; hef viljað skoða skuldabyrði vegna námslána og taka tillit til hennar en að öðru leyti sé ég ekki réttlætingu fyrir launamun á grundvelli menntunar. Þú spyrð hvort VG sé ekki flokkur verkalýðsins. Ég tel okkur merkisbera verkalýðsbaráttunnar í stjórnmálum og að innan okkar raða rúmist allt launafólk. Í stefnumótun okkar leggjum við sérstaka áherslu á að jafna kjörin í landinu. 

Með kveðju, Ögmundur