VERKALÝÐSFORKÓLFAR OG KJARAMISRÉTTIÐ
Blesssaður Ögmundur.
Við stelpurnar vorum að glugga í tekjublað Frjálsrar verslunar í matartímanum um daginn eftir að hafa slegið saman í eintak. Þar rákumst við á nokkra verkalýðsforingja sem af og til semja fyrir okkur upp á kúk og kanel eða 140 til 160 þúsund á mánuði en eru sjálfir með á bilinu 600 til 1350 þúsund krónur mánuði. Einni okkar varð á orði að best væri að fá Hreiðar Má Sigurðsson í stéttabaráttuna að því gefnu að hlutföllin milli Hreiðars verkalýðsforingja og okkar yrðu sambærileg og við núverandi kónga. Hreiðar er með 64 millj. og 872 þús. kr. betur á mánuði sem þýðir miðað við framangreindar hlutfallsforsendur milli okkar og ríkjandi alþýðuforingja að við stelpurnar gætum leyft okkur að halda almennilega árshátíð í saumaklúbbnum og jafnvel skotist í lax á sumrin. Annars langar okkur til að spyrja þig Ögmundur hvort þér þyki ekki verkalýðsforkólfarnir sjálfir, allir karlkyns auðvitað, fullgírugir miðað við þá lús sem þeir ætla okkur? Þá vorum við einnig að velta fyrir okkur hvort inní þessum tekjutölum verkalýðsaðalsins sé allt til talið, hlunnindi eins og bílapeningar, símakostnaður, fatapeningar o.fl.?
Með von um greinargóð svör,
Sigga Gumm.
Sæl Sigga og þakka þér og ykkur vinkonum fyrir tilskrifið. Mér finnst fullkomlega eðlilegt og reyndar mjög æskilegt að horfa gagnrýnum augum á kjaramisréttið í þjóðfélaginu einnig innan raða launafólks. Þá finnst mér líka rétt að horfa til kjara þeirra sem eru í forsvari fyrir launafólk. Þú talar um það sem verkalýðsforkólfar "ætla ykkur".
Það eru hins vegar ekki þeir sem endanlega ráða launamynduninni - þeir reyna í samningum að hafa áhrif á hana - heldur menn á borð við Hreiðar Má og félaga hans hjá samtökum atvinnurekenda. Það eru þeir sem eru ábyrgir fyrir kjaramisréttinu í samfélaginu en ekki hinir sem sitja handan borðsins. Þannig að þarna finnst mér þið ekki gæta sanngirni. Þið nefnið mánaðarlaun upp á 1350 þúsund. En þetta er atvinnurekendahliðin, sömu aðilar og vilja skammta láglaunafólkinu - ykkur - úr hnefa!
Hvort verkalýðsforkólfar fái skammtað um of í launaumslagið er komið undir mati hvers og eins. Ég get tekið undir með ykkur að stundum á þessi gagnrýni á forystu launafólks fullan rétt á sér þótt ekki sé það hin almenna regla. Hitt er rangt að allt séu þetta karlar sem eru í forsvari. Eining er um konur að ræða og fæ ég ekki séð mun á kjörum þeirra og karlanna. Hvað mig sjálfan áhrærir þá fór ég út af launum hjá BSRB daginn sem ég tók við þingmennsku vorið 1995 og hef eftir það einvörðungu verið á launum þingmanns sbr. það sem fram kemur hér á heimasíðu minni þar sem kjör mín eru tíunduð. Þar greinir frá öllu, launum, öðrum kjörum og hlunnindum.
Að lokum vil ég ítreka að mér finnst umræða af því tagi sem þið bryfddið hér upp á eiga fullkomlega rétt á sér og vera allra góðra gjalda verð. Því meira sem rætt er um kjaramisréttið í þjóðfélaginu því betra.
Ögmundur