Fara í efni

VERKTAKA FYRIR VINSTRI MENN

Sæll Ögmundur.
Stundum ertu að gagnrýna DV, en mér finnst DV oft eiga heiður skilinn fyrir að gera glufur í skjaldborgina um ruslahaug spillingar. Núna síðast hafa þeir á DV verið að segja okkur frá tveggja manna fyrirtæki sem virðist hafa verið á beit hjá velferðarráðuneytinu og innanríkisráðuneytinu sem þú nú berð ábyrgð á. Hér er ég að tala um fyrirtækið Stjórnarhættir efh. sem þegið hefur milljónatugi fyrir að setja sjálfsagða hluti upp í Power Point glærur og selja stjórnarráðinu undanfarin þrjú ár og virðist ekkert lát vera á myndasýningunum.

Fyrirtækið Stjórnarhættir er til húsa í Lækjargötu 4. Þar er einnig til húsa annað fyrirtækið sem verið hefur á beit hjá sömu ráðuneytum og Stjórnarhættir ehf. Þetta er fyrirtækið sem kallast inDevelop á Íslandi og mun vera sænskt verktakafyrirtæki. Þetta fyrirtæki hefur sinnt verkefnum að mér er sagt fyrir félagsmála- og forsætisráðuneytið frá því á árinu 2007 meðal annars í samstarfi við eiganda Stjórnarhátta.

Ríkisendurskoðun sá ástæðu til þess í bréfi til forsætisráðherra sem nýtti sér þjónustu inDevelop og Stjórnarhátta ehf að minnsta kosti sem félagsmálaráðherra að setja fram eftirfarandi í bréfi 22. júní 2009: "Þá er ljóst að bjóða hefði átt út ráðgjafarverkefnið sem InDevelop var falið. Telur Ríkisendurskoðun að ráðuneytið þurfi að endurskoða verklag sitt við kaup á sérfræðiþjónustu. Leiki vafi á því hvort kaup séu útboðsskyld eða hvort fara eigi einhverja aðra viðurkennda leið er rétt að ráðuneytið ráðfæri sig við Ríkiskaup um málið."

Ef rétt er að Stjórnarhættir ehf og inDevelop hafi unnið sameiginlega verkefni eða verkþætti ákveðinna mála eins og fréttir DV benda til þá ætlast ég til að þú sem ráðherra takir málið upp á réttum vettvangi. Vek athygli á að inDevelop fékk nærri 2 milljónir frá dómsmálaráðuneytinu ekki alls fyrir löngu og hitt fyrirtækið í Lækjargötu 4, Stjórnarhættir, fengu 6.7 milljónir frá samgönguráðuneytinu.

DV greindi frá því að eigandi Stjórnarhátta hafi, eins og áður er sagt, verið á beit í félagsmálaráðuneytinu sbr. að hann hafi "...fengið um 26 milljónir króna í gegnum tvö félög í sinni eigu frá félagsmálaráðuneytinu." Hér er verið að tala um tímabilið 1. janúar 2009 til október 2010.

Ályktun DV er þessi: "en ljóst er að á því 22 mánaða tímabili sem er undir hafa fyrirtækin fengið að lágmarki 32 milljónir króna frá tveimur ráðuneytum. Það jafngildir um 1,5 milljónum á mánuði allt það tímabil. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu voru verkin ekki boðin út þrátt fyrir að reglur kveði á um að öll þjónustukaup sem kosta meira en 12,4 milljónir króna þurfi að bjóða út." Þetta er einkar athyglisvert í ljósi bréfs Ríkisendurskoðanda til forsætisráðherra sem birt er hér að ofan.

DV á líka heiður skilinn fyrir að fylgja þessu mál eftir því fyrir tveimur árum greindi DV frá starfsemi inDevelop fyrir hvern, félagsmála- og heilbrigðisráðuneytið!! 26. febrúar 2009 sagði DV: "Ráðgjafaþjónusta sem fyrirtækið InDevelop Ísland veitti vegna breytinga á skipulagi heilbrigðis- og tryggingamála í tíð síðustu ríkisstjórnar var ekki boðin út vegna þess að ekki var unnt að meta umfang verkefnisins fyrirfram. Fyrirtækið fékk tæpar 50 milljónir króna fyrir ráðgjöfina. Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn DV um greiðslur til fyrirtækisins og kostnað við ráðgjafaþjónustu vegna breytinga í heilbrigðis- og tryggingamálum." Og DV sagði áfram: "Í svari ráðuneytisins kemur fram að vegna eðlis ráðgjafaþjónustunnar hafi kostnaðurinn verið vistaður undir fjárlagalið hjá forsætisráðuneytinu því talið var vandasamt að skipta slíkum kostnaði milli ráðuneytanna tveggja sem í hlut áttu, heilbrigðisráðuneytisins og félags- og tryggingamálaráðuneytisins."

Þessar upplýsingar sem DV hefur birt sl. tvö ár hljóta að gefa mönnum tilefni til að skoða bæði eignarhald, verkefni og greiðslur úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til fyrirtækjanna í Lækjagötu 4, ekki bara frá 1. janúar 2009 heldur frá 1. janúar 2007. Á þessum tíma hafa setið tvær ríkisstjórnir, hægri stjórn Sjálfstæðis- og Samfylkingar og miðjustjórn VG- og Samfylkingar. Ef við höfum í huga setningu úr bréfi Ríkisendurskoðunar frá í júní 2009 "...Þá er ljóst að bjóða hefði átt út ráðgjafarverkefnið sem InDevelop var falið. Telur Ríkisendurskoðun að ráðuneytið þurfi að endurskoða verklag sitt við kaup á sérfræðiþjónustu." þá hljóta menn að spyrja: Af hverju eiga fyrirtækin inDevelop og Stjórnarhættir þetta innhlaup hjá tveimur ráðuneytum eða þremur? Eða með öðrum orðum, hver er samningamaðurinn af hálfu almannavaldsins á þessu markaðstorgi verktakabransans?

Eigum við ekki að vona Ögmundur að DV upplýsi okkur um málið allt? Þessi tilskrif máttu alls ekki skilja þannig að ég sé hér að tala um að nefnd fyrirtæki hafi ekki skilað því sem samið var um eða ekki haft burði til þess, alls ekki. Við hljótum hins vegar að eiga rétt á að verk af þessu tagi séu boðin út, eins og Ríkisendurskoðandi benti á, og eins að fá yfirlit um hvaða upphæðir verið er að tala um, samtals. Treysti því að þú skýrir þetta að minnsta kosti af því er varðar samgöngu- og dómsmálaráðuneyti.
Bestu kveðjur
Ólína

Þakka bréfið Ólína. Skal kanna málið en þessi verk voru ekki unnin á minni vakt. Það get ég upplýst.
Kv.
Ögmundur