VERSLUNARSTOFNUN FYRIR HEILBRIGÐISKERFIÐ UMRÆÐULAUST?
Þú bendir réttilega á það hér á síðunni Ögmundur, að Magnús Pétursson, Landspítalaforstjóri sé með varnaðarorð um framtíð heilbrigðiskerfisins og að hann horfi meðal annars til næstu fjárlaga. Orð í tíma töluð. En spurningin sem þú spyrð í lok umfjöllunar þinnar hér á síðunni er miklu stærri og hún snýr að þessu innkaupakerfi sem Guðlaugur Þór ætlar að koma á fót, að því er virðist umræðulaust. Það er rétt hjá þér að þetta er afdankað kerfi frá Svíþjóð, sem maðurinn ætlar að flytja inn, eitt allsherjar skrifræðisbatterí.
Á að koma upp þessu nýja skrifræðisbákni umræðulaust? Það vill svo til að ég tala af reynslu sem starfandi læknir í Svíþjóð um árabil, tiltölulega nýkominn heim í kerfið hér, sem þrátt fyrir allt er ekki eins slæmt og menn vilja vera láta. Staðreyndin er nefnilega sú að innan heilbrigðiskerfis verður ALLTAF togstreita um fjármagn. Aldrei gleyma því. Sú togstreita verður ekki úr sögunni með þessari nýju stofnun Guðlaugs Þórs, heilbrigðisráðherra. Hún er fyrst og fremst sett á laggirnar til að einkavæða heilbrigðisþjónustuna. Við þekkjum stefnu Sjálfstæðisflokksins. En hvað með samstarfsflokkinn?
Læknir