VG VILL ENDURSKOÐA EFTIRLAUNALÖGIN
Birtist í Morgunblaðinu 10.05.07.
Hjörtur Hjartarson beinir til mín, sem þingflokksformanns Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, spurningu í opnu bréfi í Morgunblaðinu laugardaginn 5. maí um afnám "eftirlaunaforréttinda". Er þar vísað í umdeild eftirlaunalög sem samþykkt voru á Alþingi í desember haustið 2003. Hjörtur beinir erindi sínu til stjórnarandstöðunnar en ekki stjórnarmeirihlutans sem á endanum var þó einn um að samþykkja frumvarpið.
Í umræðu á þingi gerði ég grein fyrir afstöðu minni á mjög afgerandi hátt og sagði m.a.: "Það er vissulega mikilvægt verkefni að taka lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra til endurskoðunar og á þeim tímapunkti stöndum við. Nú er spurningin í hvaða átt menn vilja halda, áfram eða aftur á bak. Í því frv. sem hér liggur fyrir felst yfirlýsing um það að í stað þess að halda inn í framtíðina er stefnan tekin í afturhaldsátt. Þetta frv. er tímaskekkja, minjar um kerfi misskiptingar og sérréttinda. ... Ég spyr: Nú, þegar við endurskoðum lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra, hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að halda með þennan hóp og reyndar alla strolluna sem nú er að finna í einni spyrðu, alþingismenn, ráðherra og hæstaréttardómara, inn í lífeyrissjóði sem þessum aðilum standa opnir?"
Ég er enn þessarar skoðunar. Fyrir því er eindreginn vilji hjá efstu mönnum á framboðslistum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að taka þessi umdeildu lög til endurskoðunar.