VÍÐINES GÓÐUR KOSTUR?
Sæll aftur Ögmundur.
Eftir okkar spjall síðast, er nú Víðines komið upp á borðið, ef eitthvað er að marka miðlana. Ég sé einmitt Víðines fyrir mér sem gæsluvarðhaldsfangelsi, einfaldlega vegna þess, hve stutt það er frá borginni. Ég veit að þú hefur sett þig vel inn í þessi mál, en oftast eru afbrotamenn sem eiga yfir sér gæsluvarðhald fluttir að Litla Hrauni. Kostanaður við að sækja þá til yfirheyrslu í Reykjavík, er alveg óheyrilegur, en um þetta gætir þú vafalaust fengið upplýsingar, bæði hvað varðar manna og bílakostnað. Þess vegna er Víðines (Sem Gæsluvarðhaldsfangelsi) ofarlega í huga. Kærar þakki fyrir svarið síðast og vonandi við þessu líka
Með vinsemd og virðingu.
Hafsteinn Sigurðsson
Sæll og þakka þér fyrir bréfið. Nú er verið að fara mjög rækilega yfir þessi mál og endurskoða allar fyrri niðurstöður. Því þessir kostir sem nú eru nefndir hafa allir verið skoðaðir áður og ræddir. Endanleg iðurstaða liggur ekki fyrir í ríkisstjórn en sérfræðingar innanríkisráðuneytisins hafa verið mjög eindregið á þeirri skoðun að vænlegast, enda ódýrast til framtíðar, sé að reisa nýtt gæsluvarðhaldsfangelsi á höfuðborgarsvæðinu. Þá yrði hægt að leggja niður fangavörslu í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg og fangelsið í Kópavogi. Þar með yrði einnig léttt þrýstingi af Litla Hrauni sem ég sé fyrir mér sem framtíðar afplánunarfangelsi okkar. Þar þarf á næstu árum að ráðast í miklar endurbætur.
Hvað Víðines varðar þá yrði að ráðast í mjög kostnaðarsamar breytingar til að gera húsnæðið hæft sem gæsluvarðhaldsfangelsi. Þessi kostnaður slagar upp í verð nýbyggingar og yrði þetta húsnæði óhagkvæmara í rekstri og þar með dýrara en nýtt fangelsi.
Kv.,
Ögmundur