Fara í efni

Vilji kjósenda

Sæll Ögmundur.
Skemmtilegt viðfangsefni vilji kjósenda. Nú liggur fyrir að kjósendur vildu ekki Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þeir höfnuðu því að láta Davíð Oddsson vera lengur fyrsta þingmann okkar Reykvíkinga í norðurkjördæminu, þeir hafna áherslum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og refsa Sjálfstæðisflokknum, - ef marka má úrslit kosninganna! Er þetta svona einfalt og skýrt? Eða er þessi “vilji kjósenda” enn ein afstrakssjónin, eða nálgunin við einhvern gefinn og tilbúna túlkun á raunveruleika? Látum því ósvarað, en skoðum nokkra umhugsunarverða þætti. Ríkisstjórnin hélt velli segja menn réttilega, en eins og Halldór Ásgrímsson benti á í nótt var hún ekki meira í framboði en hann sem forsætisráðherraefni. Það voru fyrst og fremst nokkrir frambjóðendur Samfylkingarinnar sem stilltu málinu upp sem kappleik milli tilbúinna fyrirliða stjórmar og stjórnarandstöðu. Annar fyrirliðinn komst ekki inn á þing og hinn tapaði meira fylgi í háborg sjálfstæðismanna en nokkur sá forvera hans sem hann langar að líkjast. Hefur þeim félögunum Davíð og Birni Bjarnasyni nú báðum verið hafnað sem forystumönnum í Reykjavík í tvígang á innan við ári. Merkilegur vilji kjósenda það, og svo sögulegur að hann fer örugglega framhjá Hannesi H. Gissurarsyni, sem nú verður sendur fram til að túlka “vilja kjósenda”. Sjálf bíð ég spennt eftir því hvort Morgunblaðið hefur þrek til að taka akkúrat þetta upp í leiðaranum á morgun. Athyglisverður er einnig sá vilji kjósenda að hafna öllum þessum konum sem sjálfstæðismenn kusu inn á lista sína í umdeildum prófkjörum og þótt ekki sé ég regluleg stuðningskona flokksins þá finnst mér sú niðurstaða hryggileg. Á móti kemur að ungir vaskir sveinar koma nú inn á vegum Sjálfstæðisflokksins. Þessum hörðu frjálshyggjumönnum þéttbýlisins skolaði inn á Alþingi á brotnu kosningafleyi flokksins. Það er kannski þverstæðan sem sjálfstæðismennirnir hljóta að velta fyrir sér. Kjósendum er boðið upp á unga menn í öruggum sætum sem allir eru harðir frjálshyggjumenn og hver um sig hagsmunagæslumaður tiltekinna viðhorfa og fyrirtækja. Þegar svo kjósendur eru almennt spurðir um það í kosningum hvort þeir vilji þessa tegund Sjálfstæðisflokks þá segja þeir hreint nei og flytja sig yfir á miðju-hægriflokkinn Framsókn, sem tvöfaldaði fylgi sitt miðað við kannanir. Hvernig ber að túlka þennan vilja kjósenda Ögmundur? Hvernig vilt þú túlka þann vilja kjósenda að styrkja Samfylkinguna og Framsókn (miðað við kannanir) á miðjunni og ekki VG sem réttilega hefur “staðið vaktina” í mörgum mjög veigamiklum málum? Spurt hreint út: Treystir þú þér til að standa vaktina og standa með þessum miðjusæknu evrópuflokkum sem þriðji flokkur í ríkisstjórn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar eða Össurar Skarphéðinssonar? Ég nefni Össur þar sem hann er fyrsti þingmaður í stóru Reykjavíkurkjördæmi og Ingibjörgu Sólrúnu mistókst að komast inn á þing. Fyrir mig eru þetta spurningar sem þú hlýtur hafa svör við þegar. Annars er það merkilegt með lögmenn hvernig þeir margir hverjir hugsa í hring í láréttu plani. Undirliggjandi fullyrðingar lögmannanna sem skipuleggja kosninagbaráttu Sjálfstæðisflokksins er að upplausn og óáran sé handan við hornið yrði Sjálfstæðisflokkurinn þvingaður til að sleppa valdataumunum sem hann hefur fólgna í bláhöndinni. Þannig hafa auglýsingamenn útbúið þann veruleika sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi að snéri að kjósendu. Okkur eða upplausn – vinstri flokkar eru ávísun á upplausn - þannig hefðu menn orðað hugsun sína beint og þetta sögðu menn efnislega fyrir kosningar. Nú segja sömu lögmenn flokki sínum og formanni til varnar að úrslitin megi rekja til þess að svo og svo margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins hafi klofið sig út úr flokknum. Hvar er þá upplausnin – hvað er það sem “ógnar stöðugleikanum”? Er það kannski forysta Sjálfstæðsflokksins sjálfs sem hrekur frá sér “eina sex eða átta þingmenn og varaþingmenn sem áður voru í framboði fyrir okkur” sem fara nú fram undir öðru merki. Forystu flokksins sem býður á efnahagssviðinu upp á 30 milljarða skattalækkanir sem allir vita að kemur niður á velferðarkerfinu og almenningi í formi stórhækkaðra þjónustugjalda? Flokki sem undirstrikar þessa hrollvekju með því að bjóða jafnframt fram harða frjálshyggjumenn á kostnað hófsamari frambjóðenda. Vilji kjósenda er að hafna þessari framtíðarsýn. Heldurðu Ögmundur að Framsók, Samfylking og fréttaskýrendur þori að draga þetta fram? Ég dreg það sjálf í efa, 
kveðja
Ólína

Heil og sæl Ólína.

Þetta eru mjög áhugaverðar vangaveltur sem þú setur fram. Um margt er ég sammála þér. Þú beinir nokkrum spurningum til mín og ætla ég að svara þér en melta fyrst betur niðurstöður kosniganna. Fyrir VG eru þessi úrslit vonbrigði þótt við séum mjög stolt og ánægð með okkar lið en það er annar handleggur.