Fara í efni

VILL RÍKISSTJÓRN FYRIR FÓLKIÐ Í LANDINU

Sæll vertu Ögmundur.
Ég var að horfa á forsætisráðherra í gær í Egilssilfrinu, þó mér dauðleiðist nú orðið sá þáttur. En maður sest nú við sjónvarpið þegar sjálfur forsætisráðherrann mætir í konungsviðtal og bíður eftir því að heyra einhverjar góðar fréttir eða a.m.k. að eitthvað eigi nú að fara að gera. Því miður var það nú hálfgerð tímaeyðsla því þarna kom ekkert nýtt fram sem maður vissi ekki áður. það skein auðvitað í gegn að Egill er meiri hægri maður en Geir, sem einhvern tíman hefði nú bara verið kallaður hægri krati. En verst var þó að sjá og heyra að sjálfur landsfaðirinn hafði bara ekkert nýtt að segja og virtist uppteknari af því sem þið hafið verið að atast í honum með í stjórnarandstöðunni en efnahagsvandanum sjálfum. Hann var með það alveg á hreinu hvað Steingrímur hafði farið oft í ræðustól og talað mikið í þinginu en mundi svo engar tölur um ríkisskuldirnar. þú hefur verið eitthvað að angra þá íhaldsdrengina með myndskreytingum þínum hérna á síðunni og svo mega náttúrulega okkar samtök, BSRB, ekki vinna fyrir okkur opinbera starfsmenn þá er það pólitík alveg eins og bændasamtökin mega ekki vinna fyrir bændur þá eru þau kærð. það er orðið skrítið þjóðfélag þegar auðmenn mega setja okkur svo gott sem á hausinn með græðgi og glannaskap en ganga samt um eins og heilagir menn og enginn segir neitt, en stéttarfélög mega ekki verja sína félagsmenn. Er ekki hægt að sjá um að allir samningar losni á sama tíma næsta ár og þá sé hægt að fara í alsherjarverkfall og losa þjóðina við þetta ónytjungslið sem nú hugsar um það eitt að halda stólunum og bjarga bönkunum og í staðin verði mynduð ríkisstjórn fyrir fólkið í landinu?
Jón frá Læk