Fara í efni

VIRKJUM LÝÐRÆÐIÐ

Blessaður Ögmundur og þakka þér fyrir að tala máli þjóðarinnar úr ræðustól Alþingis í gær; betur væri ef fleiri væru dugandi og réttsýnir eins og þú. Ég vil, hins vegar, bera fram eina kvörtun, eða ætti ég öllu heldur að segja, lýsa yfir örlitlum vonbrigðum. Þannig er mál með vexti að ég skrifaði bréf til síðunnar um daginn hvar ég viðraði hugmyndir mínar um beint lýðræði; hugmyndir sem ég hélt að væru þér ekki á móti skapi og jafnvel í anda þeirrar hugsjónar sem þú berst fyrir og jafnvel VG. Ég hef áður skrifað síðunni bréf sem þú birtir og sendir mér þökk fyrir. Það var fyrir ári síðan þar sem ég reifaði stöðu bankanna, áhrif stærðar þeirra og viðskiptamódels á áhrif krónunnar ásamt því að benda á ríkisábyrgð þá sem þessi (þá) einkafyrirtæki sættu. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um að áhyggjur mínar settar fram í því bréfi, sem ég vil ítreka að skrifað var fyrir um ári síðan, hafa veruleikst með þeim hræðilegu afleiðingum sem almenningur nú er að finna á eigin skinni. En varðandi þetta síðara bréf. Ég geri mér vel grein fyrir því að ástand mála hér er það slæmt að rótækar breytingar þurfa til. Ekki einungis að skipta um ríkisstjórn. Ekki einungis að skipta út fólki - þó að það sé vissulega nauðsynlegt - heldur þurfum við nýtt kerfi. Það þarf að koma til nýtt kerfi sem virkjar og (involverar) fólkið í landinu í ákvarðanatöku er varðar þjóðarhag. Þessar hugmyndir mínar, er ég reifa í umræddu bréfi, eru mitt tilleg í þá átt að auka lýðræði (í raun koma því á) og bæta þar með mannlífið og þjóðfélagið. Vera má að þú sért mér ekki sammála og slagorðið "Losum okkur við atvinnustjórnmálamenn" hafi farið fyrir bjóstið á þér en vita skaltu að það er vel meint og ekki beint gegn þér perónulega. Ég vil, þvert á móti, taka það fram að þú ert einn fárra atvinnustjórnmálamanna sem ég ber nokkra virðingu fyrir. Því miður er það þó staðreynd að flestir fara í stjórnmál fyrst og fremst til að ota eigin tota og mun það ætíð verða svo undir ríkjandi fyrirkomulagi. Ég sé enga aðra leið til að raunverulega bæta ástandið og breyta hér stjórnarháttum en að virkja fólkið beint og auka mátt almennings í almennri ákvarðanatöku. Að sjálfsögðu þarf að útfæra þessar hugmyndir og þess vegna sendi ég inn þetta bréf - til að skapa umræðuna; kasta fram þessum hugmyndum og fá viðbröð, þín og lesenda þinna sem ég held að séu upp til hópa fólk sem vil lýðræði sem stendur undir nafni. Allavega hélt ég, og vona enn, að síða þín væri vetvangur skoðanaskipta. Lifðu heill og lifi byltingin!
Þór Þórunnarson

Þakka þér kærlega. Því miður hafa nokkur bréf - og það mjög góð - dottið upp fyrir í önnunum. Finn hins vegar ekki það bréf sem þú vísar til. Ég vil gagnrýna umræðu, ekki síst um lýðræðið!
Kv. Ögmundur