VIRKJUM LÝÐRÆÐIÐ
Sæll Ögmundur. Tilefni þessa bréfkorns er sú véfréttalega spurning í loftinu, sem Steingrímur viðhafði áður en hann hófst fúl-lyndur á loft upp, hinn 5. mars 2010, reyndar bara í flugvél á leiðinni norður: "Hvernig halda menn að gangi að semja, ef einhverjir í samningaliðinu vilja ekki semja?" Mér datt strax í hug - enda með opinn hug en ekki fastan - spurning til Steingríms, um það hvernig hann haldi að gangi að ræða málin til frjórrar framtíðar, ef hann vill ekki ræða málin? Það finnst mér vera kjarni málsins, vanda-málsins. Við eigum nefnilega öll - saman - að rökræða okkur til vitsins. Og það á að vera gaman að ræða vitrænt saman. Forræðishyggja hinna fúl-lyndu og helfrosnu í heilabúunum er steingeld og leiðir aðeins af sér valdboð að ofan. Við sem höfum opinn og frjóan huga viljum hins vegar virkja öll heilabú þjóðarinnar til virkra hugsjóna, athafna og sköpunar með búsældarlega framtíð okkar allra -saman- að leiðarljósi. En þannig framtíð kemur aldrei með valdboði að ofan, og alls ekki frá mönnum sem telja sig guði. Frá þannig mönnum koma bara fúl-egg. NEI, við alþýða þessa lands, viljum ekki láta leiða okkur til slátrunar á altari forræðishyggju Stalínistanna, sama í hvaða flokki þeir eru, og græðgis-heimskapítalistanna, sama í hvaða flokki þeir eru. Þeir fá ekki og mega ekki lengur tala lýðræði okkar niður. Nú eygjum við loksins morgundaginn, sem mun valda straumhvörfum, hvað varðar framtíð okkar. Daginn sem við - alþýða þessa lands - virkjum lýðræðið á frjóan og uppbyggilegan hátt. Og við sem viljum gefa Stalínistunum, sama í hvaða flokki þeir eru, og græðgis-heimskapítalistunum,samaí hvaða flokki þeir eru, "fökkjú" merki segjum auðvitað samhljóma með allri okkar sammannlegu þrumuraustu: NEI
Pétur Örn Björnsson