Virkjunin mikla og velferðarkerfið
Blessaður Ögmundur.
Það var þakkarvert að vekja athygli á ósmekklegum málflutningi utanríkisráðherra í umræðum um Kárahnjúkavirkjun á Alþingi í gær. Og þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann talar til landsmanna eins og þeir séu skyni skroppnir. Í hvert skipti sem stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar hefur borið á góma á undanförnum árum hefur Halldór Ásgrímsson látið eins og hann hafi fundið upp hjólið og bent drýgindalega á tengsl hagvaxtar og velferðar, sem flestum eru raunar kunn. Á Alþingi í gær lék hann sama leikinn og sagði að yrði Kárahnjúkavirkjun ekki byggð væri lítils hagvaxtar að vænta á næstu árum. “Þetta er því spurning um það að við getum staðið undir því velferðarkerfi sem við ætlum okkur. Og þá þarf yfirleitt að fórna nokkru til”, hefur Morgunblaðið eftir honum. Mér finnst utanríkisráðherra sýna þjóðinni ákveðna vanvirðingu með þessari barnalegu speki sinni, um leið og hann hefur í frammi dulbúnar hótanir um niðurskurð velferðarkerfisins.
Með bestu kveðju, Gunnlaugur Guðmundsson
Komdu blessaður Gunnlaugur.
Ég er fullkomlega sammála þér. Að mínum dómi stenst það ekki rök að virkjunarframkvæmdirnar á Austurlandi verði til þess að styrkja undirstöður samfélagsins þegar til lengri tíma er litið. Þvert á móti eru hinar efnahagslegu forsendur virkjunarinnar mjög veikar og yfirgnæfandi líkur á því að efnahagskerfi okkar muni veikjast fyrir bragðið. Halldór Ásgrímsson hefur hamrað á því að með álverksmiðju skapist möguleikar á gjaldeyrisskapandi útflutningi. En í hvers vasa rennur arðurinn? Við erum einfaldlega að setja okkur í spor hráefnissala sem í þokkabót ræðst í svo dýrar fjárfestingar að framkvæmdirnar sem eru á okkar ábyrgð – þ.e.a.s. virkjanirnar - geta ekki borgað sig. Spurningin snýst því ekki um það eitt að afla gjaldeyris heldur þarf einnig að spyrja hver tilkostnaðurinn við það er og hvaða aðrir valkostir séu í boði.
Með kveðju, Ögmundur