Fara í efni

VISSI FÓLK UM VEGATOLLANA?

Sæll Ögmundur og afsakaðu truflunina en eitt skil ég ekki. Jarðgangagerð undanfarin ár hefur verið á kostnað allra í landinu og ekkert rukkað sérstaklega fyrir notkun á þeim. Nú er verið að gera einhverjar sjálfsagðar vegabætur hér á suðvesturhorninu og þá er gripið til vegatolla til að fjarmagna framkvæmdina. Hvaða réttlæti er þetta eiginlega? Ég hef ekki séð mikið að þeim fjármunum sem ég hef greitt í gegnum bensín og önnur gjöld - nema þá þegar ég fór til Ísafjarðar um árið og hálf villtist í einhverri jarðgangaflækju. Veit að þetta á að vera atvinnuskapandi, göfugt og gott. Fjármagnað af einkaaðilum eða lífeyrissjóðum sem hafa ekkert annað markmið en að ávaxta sitt pund. Hver bað um þessa framkvæmd? Vissi sá aðili að þetta væri fjármögnunarleiðin? Hver er skoðun þín á þessu öllu saman?
Gunnar Sigmundsson

Svo lengi sem samgöngukerfið er algerlega í eigu almennings finnst mér ekki fráleitt að fjármagna framkvæmdir með hliðsjón af notkun. Einkaframkvæmd í samgönguketfinu finnst mér hins vegar slæmur kostur. Vaðlaheiðargöngin eru eina framkvæmdin, sem nú er á vinnsluborðinu, sem er með þessu sniði en á endanum hafna þau göng þó í okkar eigu. Auk þess eru það fyrst og fremst aðilar með samfélagsleg markmið sem koma að framkvæmdinni.
Með því að gera hverja framkvæmd að sjálfbærri rekstrareiningu og láta gjöldin rísa undir lántökum fáum við vegina fyrr og í samdrættinum veitir ekki af því. Bensíngjöld eru önnur leið til að fjármagna með tillti til notkunar en þá taka allir notendur vegakerfisins þátt. það er önnur aðferð en ekki eins afmarkandi og ekki að smekk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann hefur sitt að segja á Íslandi nú um stundir sem kunnugt er.
Almennt vil ég segja um spurningu þína að vegatollar eru ekki að mínu mati alslæmir. Umræðan nú verður þess valdandi að fólk fer að spyrja - einsog þú gerir - um samhengið á milli vegabóta og kostnaðar. Sú umræða er góð og gagnleg.
Kv. Ögmundur