Fara í efni

Vopn og verjur Framsóknar

Kosningabarátta Framsóknarflokksins var að mínu mati mjög vel lukkuð að öllu leyti nema einu eins og ég varð áþreifanlega var við þegar ég var kominn upp í rúm eftir spennandi kosninganótt. Lítum fyrst á það sem var vel lukkað fyrir mína parta enda hef ég jú alltaf reynt að halda því til haga sem vel er gert.

 

Bjór, bakkelsi og fatnaður

Í röskan mánuð drakk ég ókeypis bjór á vegum flokksins og munar um minna fyrir mann eins og mig á strípuðum námslánum. Þá sparaði ég verulega í matarinnkaupum með því líta við á kosingaskrifstofum flokksins fyrri part dags og reyndar borðaði ég líka talsvert af bakkelsi með bjórnum á kvöldin.

Í fatamálum gekk þokkalega, ég hafði tíu stuttermaboli og fjórtán húfur upp úr krafsinu, en framboð af fatnaði er ekki nógu fjölbreytt. Enn er bara boðið upp á boli og derhúfur. Hvað með síðbuxur, nærbuxur og sokka svo fátt eitt sé nefnt? Ég legg til að ímyndarhönnuðir flokksins ígrundi þetta fyrir næstu kosningar.

Tölvuleikir, blóm og blöðrur

Gjafir sem hafa svonefnda framlengjandi eiginleika, eins og sagt er á máli háskólamenntaðra sérfræðinga í auglýsingabransanum, komu einnig að góðu gagni. Tölvuleikinn X-B gaf ég t.a.m. Böðvari litla frænda. Hann þekkir jú stafinn sinn, grænn er uppáhaldsliturinn, og hann hefur því mikið yndi af kappakstri þar sem græni bíllinn hefur alltaf betur. Þá tókst mér að setja heljarinnar fútt í afmælið hans Bödda og fleiri frændsystkina minna með óteljandi blöðrum og barmmerkjum frá flokknum. Blómvendi færði ég mömmu og miðaldra frænkum og þannig mætti áfram telja. Allt var þetta nokkur kjarabót sem ég til að að gleðja þá sem mér þykir vænt um.

X-B á oddinn

Eitt skemmdi á hinn bóginn illilega fyrir mér og geri ég þá kröfu á flokkinn að hann bæti mér skaðann og hreinsi mannorð mitt. Krafa mín hefur ekki fengið neinar undirtektir og forsvarsmenn heimasíðu flokksins neita að birta hana. Þess vegna leita ég til þín Ögmundur enda veit ég að alls kyns réttlætissjónarmið fá inni á þinni síðu, óháð flokkslínum. Þannig var að föstudaginn fyrir kjördag gaukaði einn glaðhlakkalegur frambjóðandi Framsóknarflokksins að mér heljarinnar verjupakka með slagorðinu “Settu X-B á oddinn.” Ég þáði hundrað eininga pakkann með þökkum enda er þessi varningur ekki gefins nú til dags eftir að hann var tekinn út úr neysluvöruverðsvísitölunni. Þá er rétt að taka fram, enda skiptir það máli varðandi framhaldið, að fyrri birgðir mínar úr Bónus voru á þrotum eftir síðustu skemmtiferð með ungum framsóknarmönnum. Það var hin margrómaða sigling með Moby Dick sem ég man reyndar ekkert eftir vegna ölvunar og sjóveiki.

Skakki turninn olli skelfingu

En hvað um það; kjördagur rann upp og þar með síðasti dagur hinna beinhörðu kjarabóta. Ég þeyttist á milli kosningaskrifstofa flokksins og dældi í mig bakkelsi og bjór. Um kvöldið skemmti ég mér síðan vel með félögum mínum í flokknum og fram á kosninganótt en þá fór ég á kráarrölt enda var ég búinn að missa alla lyst á óhóflegu bjórþambinu. Á vegi mínum varð stúlka, okkur kom vel saman og við ákváðum, svona eins og gengur, að verja nóttinni saman. Við tók rómantísk stemning heima með kertaljósum og rauðvíni frá flokknum en síðan færðist leikurinn smátt og smátt inn í svefnherbergið. Tölum ekki meira um það en þegar við vorum bæði orðin vel upplögð fór ég að baxa við að koma verjunni á sinn stað og er þá komið að því sem var afar illa til fundið í kosningabaráttunni. Mér dauðbrá þegar ég sá þriðja turninn í pólitíkinni í fullri reisn, skreyttan  X-B í bak og fyrir og efst var svo mynd af formanni flokksins. Skakki turninn lyppaðist niður á augabragði, aumingja stúlkan hrökklaðist út úr rúminu með viðbjóð í svipnum, klæddi sig í snatri, kallaði mig öfugugga og perra og hvarf á braut. Þannig endaði kosninganóttin hjá mér. Ég var miður mín og missti getuna á öllum sviðum. Ég gat ekki státað af varnarsigri eins og flokkurinn, ég gat ekki einu sinni viðurkennt að ég væri réttnefndur lúser kosninganna. Að mínum dómi var ég eitthvað allt annað og verra. Ég hafði verið verið niðurlægður og svikinn.

Verð ég fífl í fjögur ár?

Ég krefst þess að Framsóknarflokkurinn bæti sitt ráð og komi ekki aftan að manni eftir vel heppnaða kosningabaráttu og eindreginn stuðning minn og annarra þátttakenda í öllu kosningasprellinu. Ég hef ekki lent í neyðarlegri uppákomu um ævina og ekki er ótrúlegt að fleiri framsóknarmenn hafi svipaða sögu að segja. Eftir gefandi kosningabaráttu og eftir að hafa kosið rétt var ég hafður að algjöru fífli strax á kosninganóttinni. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að dreifingin á verjunum hófst ekki fyrr en daginn fyrir kjördag. Í mínum huga leikur ekki vafi á að margir hefðu kosið á annan veg ef verjurnar hefðu verið komnar í brúkun nokkrum dögum fyrir kosningar. Og hvað hefði þá orðið um varnarsigurinn góða og ríkisstjórnarmeirihlutann?

Ég hlýt einnig að spyrja; er þetta forsmekkurinn að því sem koma skal á næsta kjörtímabili? Á að hafa mann að fífli næstu fjögur árin? Ég krefst þess að Framsóknarflokkurinn hreinsi mannorð mitt gagnvart stúlkunni og að formaður flokksins afhendi mér prívat og persónulega nýjan kassa með ómerktum smokkum hið fyrsta – svo að við, þ.e.a.s. ég og stúlkan, getum tekið upp þráðinn aftur frá því sem horfið var. Að öðrum kosti segi ég endanlega skilið við flokkinn þótt vera kunni að ég nýti mér eitthvað af annálaðri gjafmildi hans í aðdraganda kosninga. En vopnum og verjum Framsóknarflokksins sem rekja má til kosninga mun ég aldrei aftur beita hvernig sem nú allt veltist.
Með bestu kveðju,
Tímóteus Þjóðólfsson,
Framnesi við Reykjavík