VOPNLAUSA LÖGREGLU
Sæll Ögmundur.
Mig langar að árétta það sem ég sagði við þig í síma í dag, og hvetja þig til að hugsa málið út frá sjónarhorni sem e.t.v. er ekki augljóst. Ég hvet þig sem sé til að afvopna lögregluna, og láta ekki sjást neinar kylfur eða úðabrúsa, hvað þá í fremstu línu eins og gert var við Alþingishúsið í dag, og það þótt mótmælendur væru friðsamlegir og sæktu alls ekki að húsinu þessa klukkutíma sem ég var þar frá 13.30 til 16. Það var rangt sem einhver lögregluþjónn sagði í fréttum sjónvarps í kvöld að lögreglan hafi þurft að sýna kylfur og úðabrúsa til að halda mannfjöldanum í skefjum. Fólkið gerði enga tilraun til að nálgast alþingismennina þegar þeir gengu á milli þinghúss og kirkju. Þetta er því miður dæmigert fyrir þann æsing sem lögreglan skapar sjálf. (Miklu verri útgáfu af þessu mátti sjá klukkutímana fyrir táragasárásina í fyrra, þar sem mótmælendur voru algerlega friðsamir og rólegir en lögreglan hálftryllt af æsingi sem erfitt var að skilja hvar átti rætur sínar.) Ég hvet þig til að velta eftirfarandi fyrir þér: Hvað er það versta sem gæti gerst ef lögreglan væri afvopnuð? Og, ef þú getur gert þér það í hugarlund, er það virkilega verra en að taka áhættuna af því ofbeldi sem orðið gæti ef lögreglan er vopnuð? Ég held reyndar, og tel að það hafi sýnt sig í Búsáhaldabyltingunni, að lögreglan gæti hæglega "samið" við mótmælendur um að hjálpa henni við að stoppa þessa örfáu ofbeldisseggi sem fela sig meðal mótmælenda. Ef lögreglan sýnir friðsömum mótmælendum engar ögranir, og leggur sig fram um að vinna traust þeirra, er ég viss um að hún gæti líka fengið þá til að láta óáreitt að lögregla, jafnvel vopnuð kylfum og brúsum, sæki hættulega ofbeldisseggi inn í mannfjöldann. Ég hvet þig líka til að skoða frétt sjónvarpsins frá atvikinu í Landsbankanum í dag. Hvað hefði gerst ef konan hefði verið látin óáreitt, og sérstaklega ef ekki hefði verið kallað á lögregluna (sem sýndi óviðunandi æsing þegar hún var að troða sér gegnum dyrnar)? Hvað er það versta sem hefði getað gerst ef konan hefði einfaldlega verið látin óáreitt? Hún hefði haldið áfram að tala, e.t.v. hátt, inni í bankanum. Og hvað með það? Ástandið er eldfimt, miklu eldfimara en það var í Búsáhaldabyltingunni, því nú eru margir komnir á vonarvöl, eða um það bil að steypast fram af hengifluginu. Ábyrgð þín sem dómsmálaráðherra er mikil. Ef þér er annt um þá lítilmagna sem margir telja að þú sért helsti fulltrúinn fyrir í íslenska valdakerfinu, gerðu þá það sem í þínu valdi stendur til að koma í veg fyrir að lögreglan efni til vopnaðra uppþota, sem hæglega gætu á endanum kostað mannslíf eða annað óbætanlegt tjón. Að ekki sé nú minnst á þá tilfinningu að landið byggi ein þjóð.
Bestu kveðjur,
Einar Steingrímsson