Vorblær í Krónhjartarhjörðinni
Það er ljóst á öllu að það er orðið með Davíð Oddsson einsog aldraðan Krónhjört. Hornin eru orðin of þung, og hann drúpir höfði. Og ungu krónhirtirnir skynja útundan sér að styrkur foringjans er ekki sá sami og fyrr og þeir hlakka til að kljást við hann. Tími leiðtogaskipta er í nánd. Og einsog ávallt gerist í krónhjartarhjörðinni þegar slík tímamót nálgast, þá byrjar gamli forystuhjörturinn að krafsa í jörðina, gerast styggur og viðskotaillur og hættulegur sínum nánustu. Hann eyðir kröftum sínum stefnulaust, snýst í hringi, baular hátt og starir blóðhlaupnum augum í kringum sig. Á meðan halda ungu hirtirnir sig til hlés en láta þó vita af sér. Einn af ungu krónhjörtunum, Guðlaugur Þór, leyfði sér að missa út úr sér í sjónvarpinu, setningu sem byrjaðir svona: "Það er hins vegar ekki rétt hjá Davíð..." Þetta hefði fyrir ári síðan jafngilt því að henda sér fram af Hallgrímskirkjuturninum í pólitískum skilningi. En núna - núna mun þetta aðeins auka á irritasjón foringjans, sem er farinn að kröftum og skyndilega hvorki sigursæll né óskeikull. Ungu hirtirnir eru farnir að sperra höfuð og það er vorblær í hjörðinni, tími átaka og yngingar. Endurnýjun í nánd.
Með kveðju,
Þráinn