Að sofa á verðinum
Þegar þetta er skrifað hafði her Ísraels gert árásir á Gaza, leifarnar af Gaza, árásir á rústir. Sagt var að yfir 400 hafi látist. Bandaríkin gáfu augljóslega grænt ljós. Nokkrum dögum síðar hóf hann landhernað.eftir að hafa rofið vopnahléið þriðjudaginn 18. mars. Þetta er í fullkomnu samræmi við skilaboð Donalds Trumps til Hamas. Það ætti ekki að vefjast fyrir nokkrum óbrjáluðum manni, með tiltölulega eðlilega dómgreind, að Hamas eða hvaða andspyrnu- eða hryðjuverkahópar sem eru skipta engu máli í þessum hernaði, útrýmingaraðgerðum. Kveikjan að þessum skrifum var frétt þann 27. febrúar síðastliðinn þegar sagt var frá rannsókn hers Ísraels (IDF) í kvöldfréttum Útvarps þar sem „viðurkennt var að þeir hafi sofið á verðinum‟ varðandi árásirnar frá Gaza þann 7. október 2023. Þetta er auðhrekjanlegt.
Á seinasta ári birtust tvær greinar eftir mig í Morgunblaðinu þar sem tíunduð eru nokkur atriði sem eru á skjön við niðurstöðu IDF. Í þeirri fyrri, 7. október og Ísrael, frá 15. júlí, segi ég frá ferð okkar hjóna til Ísraels og Palestínu þar sem við tókum okkur ferð á hendur undir leiðsögn frá Jerúsalem. Henni var m.a. heitið að eftirlitsstöð við landamæri Gaza. Þar var allt með kyrrum kjörum, ef svo má segja, þremur dögum fyrir innrásina. Leiðsögumaður okkar sparaði ekki stóru orðin við lýsingarnar á hinum öflugu landamæravörnum, m.a. sjálfvirku kerfi sem greinir minnstu hreyfingar við girðingarnar og ræsir sjálfvirkar hríðskotabyssur. Snjallgirðingarnar voru þrjú og hálft ár í byggingu og lauk í lok árs 2021. Hluti varnanna er skynjunarvæddur neðanjarðarveggur ásamt hundruðum eftirlitsmyndavéla á 65 km langri og 6 m hárri girðingu úr 140.000 tonnum af járni og stáli.
Ekki einungis er vörnin snjallvædd eða sjálfvirk, heldur kemur maðurinn að því líka. Leiðsögumaður okkar sagði það í höndum kvenhermanna. Ástæðan, að þær byggju yfir betri athyglisgáfu en karlarnir og því taldar hæfari að fylgjast með eftirlitsskjáunum. Í seinni greininni, Augu á Gaza, þann 10. desember, fjalla ég einmitt um þessa hermenn. Þær höfðu orðið varar við tortryggilegar mannaferðir innan Gaza, þegar nokkrum mánuðum fyrir innrásina. Daginn fyrir árásina eða föstudaginn 6. október var allt með kyrrum kjörum, sem þeim þótti grunsamlegt, engin viðbrögð. Anat Peled sem er fréttamaður hjá The Wall Street Journal, hefur fjallað um þetta.
Rannsókn IDF var einnig til umfjöllunar í Sjónvarpsfréttum sama dag og aðeins ýtarlegri. Hins vegar var engin tilraun gerð til að sannreyna hvort þeir hafi „sofið á verðinum.‟ Efrat Fenigson fyrrverandi starfsmaður leyniþjónustu IDF telur útilokað að Ísrael hafi ekki vitað hvað í vændum var. „Hvernig stóð á því að landamærin voru galopin?‟ spurði hún í viðtali daginn eftir.
Philip Giraldi, fyrrum leyniþjónustumaður í Bandaríkjunum, telur útilokað að Ísrael hafi ekki haft víðtækar upplýsingar innan Gaza og í gegnum hlerunarbúnað meðfram aðskilnaðarveggnum. Strax á eftir fór af stað eitthvað sem erfitt er að túlka öðruvísi en almannatengslaspuna, óstaðfestar fréttir af nauðgunum, afhöfðunum og kviðristum á vanfærum konum ásamt öðrum hryllingi. Ráðamenn í Ísrael og víðar, bergmáluðu þetta m.a. hér á landi. Óneitanlega leiðir þetta hugann aftur í tímann eins og úr fyrri heimsstyrjöldinni þar sem þýskir hermenn áttu að hafa beitt þvílíkum hrottaskap í innrásinni í Belgíu í ágúst 1914. Nær í tíma er vitnisburður hinnar 15 ára Nayrah í október 1990 um meint grimmdarverk íraskra hermanna á fæðingardeildinni í Kúveit þar sem hún vann sem sjálfboðaliði. Almannatengillinn, Hill & Knowlton Strategies, einn sá stærsti á sínu sviði í heiminum, sá um að hanna þennan atburð. Í öllum þessum þremur dæmum koma nýfædd börn eða fóstur skorin úr móðurkviði við sögu. Ég veit ekki til þess að þeir hafi verið ráðnir spunameistarar fyrir 7. október 2023 (Operation Al-Aqsa Storm) en hins vegar unnu þeir fyrir WHO vegna heimsfaraldursins en það er annað mál.
Þessi fullyrðing IDF um að hafa sofið á verðinum verður enn hjákátlegri ef farið er aftur í söguna. Rifjum upp aðdragandann að Steyptu blýi aðgerðinni (Operation Cast Lead) 2008-09. Aðgerðin hófst 27. desember og stóð yfir til 18. janúar 2009, rúmar þrjár vikur sem kostaði um 1.400 mannslíf þar af 300 börn. Þetta er gríðarlegt mannfall á rúmum þremur vikum en nýjustu fréttir um yfir 400 drepna á innan við sólarhring á landi sem er í rúst hefði náð þessum drápum á fjórða degi. Fulltrúi þessara drápa var fyrsti erlendi gesturinn hjá nýkjörnum forseta Bandaríkjanna.
Þessi hernaðaraðgerð, 2008-09, var vandlega skipulögð, í rauninni hluti víðfeðmrar hernaðar- og leyniþjónustuáætlunar, fyrst mótuð af Ariel Sharon forsætisráðherra 2001, Aðgerð réttlátrar hefndar (Operation Justified Vengeance). Einnig þekkt undir heitinu the Dagan Plan eftir aðmírálnum, Meir Dagan sem var öryggismálaráðgjafi Ariels Sharons í kosningabaráttunni árið 2000.
Daganplanið
Sama dag og Operation Cast Lead hófst, sagði dagblaðið Haaretz frá því, að heimildir innan varnarmálastofnunar Ísraels segðu að viðkomandi ráðherra, Ehud Barak hafi lagt línurnar um hernaðinn, áður en Ísrael hóf samningaviðræður um vopnahlé við Hamas. Það var Ísrael sem braut vopnahléið, sama dag og forsetakosningarnar fóru fram í Bandaríkunum, 4. nóvember 2008 þegar Barack Obama var kosinn.
Daganáætlunin var í rauninni sú að rústa palestínskum yfirvöldum, koma Yasser Arafat frá. Hann var drepinn haustið 2004 að fyrirskipun ríkisstjórnarinnar árinu áður. Hamas vinna kosningarnar 2006 á Gaza. Árinu áður voru allir gyðingar, um 7000 manns, fluttir frá Gaza, nauðugir viljugir, að skipun Ariels Sharons. Þetta var að sjálfsögðu forsenda þess að gera Gaza að fangelsi undir berum himni og árásanna sem fylgdu í kjölfarið: Steypt blý aðgerðin (Operation Cast Lead) 2008-09, Varnarstoðaaðgerðin (Operation Pillar of Defense), 2012, Verndarbrúnin (Operation Protective Edge), 2014 og svo árásirnar í kjölfar Al-Aqsastorminum (Operation Al-Aqsa Storm), 7. október 2023. Sama dag var Ísrael tilbúið; Tilbúinn fyrir stríð (State of Readiness For War).
Til að setja hlutina í samhengi er rétt að rifja upp mikilvæga atburði. Árið 1995 eftir Oslóarviðræðurnar I og II (1993-95) er Yitzhak Rabin, forsætisráðherra Ísraels myrtur. Honum hefndist fyrir að leiða Oslóarviðræðurnar fyrir hönd Ísraels. Margir muna eflaust eftir mynd af honum þar sem hann tekur í hönd Yassers Arafats í Camp David 1993 með forseta Bandaríkjanna, Bill Clinton, á milli sín.
Rifjum upp helstu atburði frá 2001 og fram til 2009:
2001: Réttláta hefndin (Operation Justified Vengeance) (Dagan Plan) kynnti ríkisstjórn Ariels Sharons í júlí það ár af starfsmannastjóra IDF Shaul Mofaz undir heitinu Eyðilegging palestínskra yfirvalda og afvopnun allra herja (The Destruction of the Palestinian Authority and Disarmament of All Armed Forces).
2002: Stjórn Ariels Sharons ákveður að byggja aðskilnaðarmúr.
2004: Morðið á Yasser Arafat, fyrirskipað af ríkisstjórninni 2003 með vitund Bandaríkjanna.
2005: Flutningur allra gyðinga frá Gaza að skipun Ariels Sharons. Lagt til 2003, sett í gang í ágúst 2005 og klárað í september sama ár.
2006: Hamas sigra í kosningunum á Gaza í byrjun árs. Leyniþjónusta hersins vissi að án Arafats gætu Fatha undir stjórn Mhamoud Abbas ekki unnið kosningarnar.
2008-09: Operation Cast Lead
Hamas og Mossad
Undangengnir atburðir á Gaza eru hluti langrar leyniþjónustuáætlunar sem hefur verið á teikniborðinu hjá stjórnvöldum í Ísrael síðan Hamas var stofnað 1987 með stuðningi frá Ísrael. Leiðsögumaður okkar sem minnst er á í upphafi greinarinnar, upplýsti okkur í hópnum að Ísrael hafi verið þeir fyrstu til að styrkja Hamas. Netanyahu hefur staðfest samstarf Hamas og Mossad:
„Allir þeir sem vilja hindra stofnun palestínsks ríkis verða að stuðla að eflingu Hamas og styðja þá fjárhagslega. Þetta er hluti stefnu okkar; að einangra Palestínumenn á Gaza frá þeim á Vesturbakkanum.‟ (mars 2019 sem Haaretz vitnaði í þann 9. október 2023)
Ron Paul, þingmaður Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum sagði í þinginu þar árið 2011, að Ísrael hafi hvatt til stofnunar Hamas og í rauninni komið að stofnun þess því þeir vildu að Hamas ynni gegn Yasser Arafat. Hann staðfesti í rauninni að samband væri á milli Hamas, Mossad og leyniþjónustu Bandaríkjanna.
Tanya Reinhart
Tanya Reinhart var prófessor í málvísindum og bókmenntafræðingur við háskólann í Tel Aviv. Hún lést í svefni í New York 2007, 63 ára. Hún var staðfastur gagnrýnandi á ólögmætu hernámi Ísraels á landi Palestínumanna. Í desember árið 2001 birtist grein eftir hana á vefmiðlinum Global Research. Þar staðfestir hún að til sé áætlun frá árinu 1997 um aðgerðir undir fölsku flaggi; The Green Light to Terror sem fólst í því að stuðla að eða koma í kring sjálfsmorðsárásum gegn borgurum í Ísrael vitnandi í the Bloodshed of a Justification sem réttlæting til að heyja stríð. Þetta er grænt ljós á hryðjuverk, sem leyniþjónusta hersins (Ama’’n) hefur stuðlað að síðan.
Hvers vegna að velta Arafat af stóli?
Í viðtali við fréttablað í Ísrael, Yediot, 7. desember 2001 svaraði Shabtal Shavit fyrrum yfirmaður Mossad þessari spurningu. Á um 30 ára valdatíma Arafats náði hann raunverulegum árangri á hinu stjórnmála- og alþjóðlega sviði. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels og þurfti bara að taka upp símtólið til að biðja um fund við hvaða leiðtoga sem var í heiminum. Enginn í Palestínu komst með tærnar þar sem Arafat hafði hælana, hvað alþjóðlega stöðu varðaði. Með því að koma honum frá misstu Palestínumenn stöðu sína við hið alþjóðlega skákborð. Þetta sagði hann þremur árum áður en Arafat var drepinn.
Ekki er þessi takmarkaða sögulega upptalning falleg. Rauði þráðurinn er, tilgangurinn helgar meðalið. Gíslarnir eru aukaatriði enda nýtilegt meðal til að ná fram tilganginum. Í kvöldfréttum Útvarps fyrir stuttu, voru leiddar líkur að því að hernaðurinn gegn Palestínumönnum væri leið Netanyahus til að bjarga eigin skinni, þannig forðaði hann sér frá réttarkerfinu en hann á yfir höfði sér dóm vegna spillingarmála. Leiðsögumaður okkar gerði nú lítið úr þessu þegar það bar til tals, „…hver er ekki spilltur?‟
Ég held að ekki skipti máli, í grundvallaratriðum hverjir eru við völd í Ísrael, markmiðið hefur alla tíð verið að hreinsa Palestínu af frumbyggjum þess, í rauninni algerlega sambærilegt við þegar innflytjendur frá Evrópu herjuðu á indíánabyggðir Norður-Ameríku en hvað landrými áhrærir ekki samanburðarhæft eins og gefur að skilja. Í byrjun 20. aldar tengdu flestir leiðtogar zíonistahreyfingarinnar þjóðarvakningu gyðinga við landnám í Palestínu. Það hefur alla tíð verið ljóst að zíonisminn er stjórnmálahreyfing, veraldleg hreyfing án trúarlegra tenginga, áhrif kommúnismans augljós í byrjun og framan af sbr. samyrkjubúin sem margir Íslendingar þekkja eftir að hafa búið og starfað þar í eitt eða fleiri misseri.
Helförin, Amalek og grasið
Eretz Ísrael, nafn yfir Palestínu í gyðingdómnum sem kynslóðir gyðinga virtu sem svæði eða land heilagra pílagrímaferða, aldrei sem mögulegt veraldlegt ríki. Hefðin og trúin er skýr; bíðið endurkomu frelsarans á „endatímunum‟ áður en þeir geta snúið aftur til Eretz Ísraels sem fullvalda þjóð í gyðingdómnum, þ.e.a.s. sem auðmjúkir þjónar Guðs. Þetta er ástæða þess að margar hreyfingar innan strangtrúaðra gyðinga eru annað hvort ekki- eða and zíonistar. Zíonisminn hefur veraldargert- og þjóðnýtt gyðingdóm. Því miður eru sumir hópar kristinna sem ekki gera greinarmun á þessu.
Helsta tæki zíonismans, þ.e.a.s. áróðurstæki, er Helförin. Fyrir stuttu rakst ég á viðtal á YouTube við tvo gyðinga frá Ísrael er bjuggu í Englandi. Dr. Stavit Sinai sagði m.a. frá því að hún hafi alist upp í aðskilnaðar-Ísrael af helfarar-fjölskyldu sem lifði af. Hún sagðist vera afurð hins zíóníska menntakerfis. Hún vissi ekkert um Palestínu, ekki hvar það væri heldur eitthvað sem væri víðs fjarri. Hinn viðmælandinn, Ronnie Barkan sagði m.a. að flestum Ísraels-börnum er innrætt að vera hrædd við nágranna sína. Hluti hugsunarháttarins; „…það erum við og þeir...‟ Ennfremur er helförin notuð til að skilyrða börnin þar sem þau þurfa m.a. að horfa á myndir af líkum.
Netanyahu hefur ekki skirrst við að notfæra sér þetta. Nokkrum vikum eftir innrásina vísaði hann í Amalek. Þar segir í fyrri Samúelsbók 15. kafla: „Nú skaltu fara og sigra Amalek. Helgaðu þá banni og allt sem þeim tilheyrir. Hlífðu engum. Dreptu karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, kameldýr og asna.‟ Eitt viðkvæði er þekkt innan stjórnkerfis Ísraels; „…nú er kominn tími til að fara að slá grasið/blettinn.‟ [á Gaza] Þetta heyrði ég fyrst af vörum Normans Finkelsteins.
Í stopullri yfirferð minni á Gamla testamentinu kom ég að sláandi samlíkingu við grasið; Jesaja, 40. kafli, vers 6-7: „„Einhver segir: „Kalla þú,‟ og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?‟ „Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. Grasið visnar, blómin fölna þegar Drottinn andar á þau. Sannlega eru mennirnir gras.‟‟
Heimildir:
1)Pappe, Ilan, The Ethninc Cleansing og Palestine, London 2006 (endurútg. 2024)
3)https://www.visir.is/g/20232487713d/ad-sla-blettinn
Sjá einnig: