Fara í efni

RÉTTUR MANNA Á ÍSLANDI

Kerfislæg andstaða, kerfislægir fordómar gegn hælisleitendum á Íslandi eru rótfastir innan stjórnsýslunnar. Ræturnar eru gamalgrónar og eiga sér upphaf í heimóttarskap, þjóðrembu og hægripopúlisma liðinna tíma. Þótt almenningur hafi vitkast á nýliðnum áratugum, ríkja ennþá leyfar af flóttamannafyrirlitningu innan stjórnsýslunnar. Sérhver flóttamaður/ hælisleitandi er því gjarnan stimplaður sem meintur  bragðarefur og honum ber öll sönnunarskylda til að reka af sér óorðið, slíka stimplun stjórnsýslufulltrúa, sem hann fær strax við komu til landsins. Það er ekki heyglum hent að endureisa mannorð sitt í jafn fjandsamlegu umhverfi. Ekki síst ef líf viðkomandi þolanda er áður markað rúnum ofsókna, kúgunar eða stríðs. Ekki er langt síðan forstjóri Útlendingastofnunar opinberaði hug sinn til hælisleitenda með yfirlýsingu um útbreidda áráttu þeirra til ósannsögli. Skattyrðin virtust styrkja forstjórastöðuna frekar enn hitt. ,, Þannig eiga sýslumenn að vera" á Íslandi, en um er að ræða valdsmann á sviði mannréttinda. ,,Lekamálið" er toppur á fordómaísjaka. Innanríkisráðherra hefur frá upphafi látist vera furðu lostin yfir kastljósinu á það málefni, skilningslaus á þau mannrétindabrot sem þar um ræðir. Þegar opinber rannsókn varð ekki umflúin. hafði ráðherran ítrekað látið sem stjórnsýsluafglöp væru óhugsandi, setti sjálfa sig í aðalstöðu þolanda ofsókna. Sjálf hefur ráðherrann reynt að hefja sig yfir grun, en harmað jafnfraframt óþægindastöðu nánustu samstarfsmanna. Ráðuneyti mannréttinda á að vera hlífarskjöldur þess málaflokks. Verði það sjálft gerandi í brotum á mannréttindum er það alvarlegra en tárum taki. Limir dansa eftir höfði og ábyrgð ráðherra er mikil, frumkvæðisskylda til að tryggja rétta starfshætti á vettvangi sínum. Lekamálið snýst auðvitað um augljóst brot gegn persónurétti tiltekins skjólstæðings ráðherra mannréttinda. Um leið er trúnaðarbrotið vitnisburður um að engin persónugögn séu óhult innan ráðuneytisins. Ráðuneytið er því ófært um gæslu mannréttinda, vegna eigin bresta. Lekamálið er ekki bara prófraun fyrir einstakan ráðherra, eða nánustu undirmenn hans. Það er prófraun fyrir íslenskt samfélag. Það reynir á grunnreglur mannréttinda, sem allir skjólstæðingarráðuneytisins njóta, hver sem þjóðaruppruninn er. Einstakt gróft mannréttindabrot felur í sér brot á trúnaðarstöðu gerandans, sem virðist vera ráðuneyti mannréttinda með ráðherraábyrgð að baki og þar með ábyrgð ríkisstjórnar og Alþingis. Reyni gerandinn að nota vald sitt til annarlegra áhrifa á réttarfarsmeðferð brotsins verður skömm hans því meiri. Í upphafi er minnst á stöðu hælisleitenda á Íslandi. Í raun hafa mannréttindi slíkra oftlega verið fótum troðin hérlendis, oftar en talið verður, oftar en almenningi er kunngert um. Þeir sem ætla, að almenningur láti sér slík brot vel líka, vaða í villu. Augljóst, einstakt trúnaðarbrot gegn einstökum hælisleitanda er að líkum toppur á ísjaka, vottur um mannfyrirlitningu innan verndarkerfis mannréttinda. Umræðan er ekki stormur í tebolla, né árás á persónu ábyrgðarráðherra. Málið varðar grunn-gildi þeirra mannréttinda, sem allir eiga að njóta. Þess vegna verður niðurstaðan lærdómsrík.                              Sept. 2014. Baldur Andrésson