UM VANDASAMT VEGABRASK
Um og eftir síðustu aldamót var fána nýfrjálshyggju hátt flaggað á Íslandi af hægriöflum, fána hrákapítalisma. Rótgróin sameignarviðhorf voru fordæmd, þau sem að hluta höfðu áður unnið sér sess meðal þjóðar. Í nafni nýfrjálshyggju var horft til allra samfélagsinnviða með einkavæðingu í huga. Ofstækið var blint, engu var sleppt af því, sem taldist til sameignar fólks í samfélaginu.
Allsherjarvald auðbraskara átti að tryggja á öllum sviðum þjóðfélagsins. Ávinningur hægriafla af ofstækis- tilburðum þeirra varð undraverður. Gekk svo til að forysta svonefndra vinstriafla á Íslandi missti fótanna og tók öðrum þræði að flagga fána auðstéttarinnar, nýfrjálshyggjunni, í kappi við hægriöflin. Ruglaðist þá margur í pólitísku rími á Íslandinu.
Eitt af mörgum kappsmálum þeirra, sem báru fána nýfrjálshyggju, var að einkavæða alla þá hluta þjóðvegakerfis, sem gróðavænlegir teldust og kæmi þá vegabrask til sögu. Almenningi leist þó illa á þá bliku öfga sem var boðuð grímulaust.
Í kjölfar hruns 2008 kom í ljós að SF og VG, voru tilbúin til að gera brask með almannvegi að kappsmáli sínu, veifa fána nýfrálshyggju. Ekki varð þeim kápa úr því sérstæða klæði sínu. Þó fæddist örverpi í þeim anda, Vaðlaheiðargöng, skráð sem séreign hlutafélags að hluta í eigu stórfyrirtækja, en að öllu leyti kostuð með almannafé.
Úr varð þó klúður og braskdæmið það er allt í skötulíki. Vaðlaheiðargöng, braskdæmið í skötulíki, eru nú kölluð hluti af þjóðvegakerfi, sem að öðru leyti er i sameign þjóðar.
Áfram er þó vegabrask kappsmál. Megináherslan er því á að skuggsetja Vaðlaklúðrið, göng skráð sem séreign hlutafélags með eignaraðild stórfyrirtækja, en kostuð með almannafé. Vegabrask er ennþá pólitískt kappsmál. Síst er að vænta andstöðu SF eða VG við þann draum nýfrjálshyggjuafla. Vaðlaheiðargöng eru í raun ríkis- eign, en þó ennþá skráð sem séeign ábyrgðarlauss skúffufélags, VHG hf.
Pínlegan ruglandann skal þagga sem kostur er, þótt þversögnin blasi við, enda önnur plön um mikið vegabrask í bígerð, opinskátt og að tjaldabaki.