Fara í efni

Baldur Andrésson: VARNIR FÓLKSINS: LÝÐRÆÐI

Quis custodiet ipsos custodes ? ( Hver gætir varðanna) er latneskt orðtak spunnið af vangaveltum Sókratesar, sem Platon staldraði við í ritinu Ríkið (Poleitia). Grísku kallarnir spáðu m.a. í hvort herstjórar varnarliðs Aþenu mundu sjálfir ógna lýðræði borgarbúa ef þeim hentaði svo í krafti valdsins, sem þeim var falið. Platon var bjartsýnn. Hann taldi að verðina mætti móta hugarfarslega. Verðina þyrfti að sannfæra um að heiður þeirra væri öllu ofar, fégræðgi eða ásókn í  kúgunarvald gagnvart almenningi þyrfti að gera að eitri í beinum þeirra.  Þá yrði vörðunum  treyst. Spurningin um verðina snýr auðvitað líka að lýðkjörnum fulltrúum.
Spurnin getur verið um hvort þeim leyfist að framselja vald sitt að á hendur annarra afla, vegna eiginhagsmuna, fyrir vangá, af eigin geðþótta.  
Ennþá blasa við álíka vangaveltur við, nú á Íslandi. Íslendingar velja sér verði, stjórnvöld á grunni fulltrúalýðræðis, stjórnvöld, sem ætlað er að verja almannahag. Stór hluti þessarar varðsveitar misvirti starfskyldur sínar gróflega á fyrsta áratug þessarar aldar. Margur hljópst undan merkjum, gekk til þjónustu við sérhagsmunaklíkur og glæfrabarskara á kostnað almannahagsmuna, sem verja átti.
Að hluta var sjálfu lýðræðinu ógnað með valdatilfærslu til voldugra fjáraflamanna. Valdaframsalið var lævíslegt vélbragð, dálítið brauð og leikir fylgdu um skamman tíma til almennings. Séð var til þess að upplýsingagjöf stæði á skökkum grunni. 
Stjórnvöld gengu þeirra erinda peningabraskara að lána þeim veð í heildareignum samfélagsins, gera ríkið, samfélagið í heild,  ábyrgt fyrir stjórnlausu braski. Sem líklegt var hrundi braskmyllan, sem skipaðir verðir lýðræðis og almannahagsmuna villtust til að þjóna. Við liggur þjóðargjaldþroti, heljarhrun í öllum efnahag varð staðreynd 2008, blasti við þegar árið 2006.  
Skipaðir verðir almannahagsmuna, íslensk stjórnvöld, gleymdu öllu um heiður sinn, skömm eða varðstöðu sína þegar þau hlupu til þjónustu við skammtímabraskara.  
Vörður slíkra varða á að vera upplýstur almenningur, sem á að geyma í eign fórum lykilinn að samfélagsvaldinu. Þann lykil nefnum við lýðræði. Form lykilsins, lýðræðisins, getur tekið á sig ýmsar myndir. Efnið þarf þó alltaf að vera upplýsingin og frelsi til skoðannaskipta. Samhyggð og jafnræðisósk er innbyggð í menningu okkar.
Nái lýðræði að þroskast á grundvelli samhyggðar og upplýsingar fær almenningur sjálfræði, valdið til að móta eigið samfélag, varðstöðu gegn brigðulum stjórnvöldum.
Upplýsingin færir með sér skilning á stéttskiptingu sam- félagsins, varnartæki gegn ofurvaldi peningaafla, hérlendra og alþjóðlegra. Hún verður vörn gegn hernaðarhyggju, vörn mannréttinda, vörn gegn umhverfisáþján, lífskjaravörn.  
Róttæk kaflaskipti verða sjaldan í samfélagsþróun, þótt augu opnist fyrir slíkri nauðsyn. Áfallinu 2008 er nú ýmisst mætt með ósk um endurreisn fyrri aðstæðna eða ósk um endurmótun.   Ákveðin ringlureið er skiljanleg ef lygar, kreddur og hindurvitni ná að móta samfélagsþróunina um langt árabil. Upplýsingin hvarf sjónum þjóðar fyrir vélbrögð. Hún hefur enn ekki verið að fullu endurheimt, enda mörg tregðulögmál til staðar.
Íslenska peningastéttin er löskuð, en ekki dauð úr æðum. Ennþá vill hún stjórna fjölmiðlum, upplýsingunni. Ennþá býr hún við þjónustulund embættismanna. Ennþá lafir stóri Flokkurinn hennar. Engin samfélagsskipan helst þó óbreytt.  Íslenska samfélagið er stéttskipt átakasamfélag. Friðflytjendur nú eru helstir þeir sem valdið telja sig hafa, boða gerivisamstöðu milli eigin hagsmunakerfis og kúgaðra undirsáta þess. Treysta á tregðuna. 
Vondepra er samt ástæðulaus, því fólk kann margt fyrir sér í eigin upplýsingaöflun, nýsköpun, skynsemi. Þrátt fyrir allt býr með fólkinu kraftur til endurmótunar á  stjórnarfari og til endurmótunar efnahags. Þennan kraft þarf að virkja sem fyrst.  
Engum vörðum almannahagsmuna er betur treystandi en vakandi, en upplýstum almenningi. Það er svarið við fornum vangaveltum Sókratesar og Platons, setur spurn þeirra um ,,hver gætir varða ?" í gott ljós. Völdin skulu til fólksins og því sjálfu er best treystandi til varðstöðu um eigin velferð og framtíð.  
Lýðræði er tækið, vald fólks, sem býr við þekkingu og óspjallað flæði upplýsinga um meginmálefni. Vald fólks til að móta efnahagsumhverfi sitt, menningu  og lífskjör.  Þekking í gegnsæju  samfélagi, öflugt, óháð upplýsingastreymi, er auðvitað ein meginstoð  lýðræðis. Þekking er dyggð.  Upplýst samfélag er dyggðum prýtt samfélag.                                                               Baldur Andrésson