EKKI Á SKILANEFNDA-LAUNUM
Það ætlar að taka tíma sinn að segja skilið við menningu ársins 2007 þegar ójöfnuðurinn náði hámarki. Það reynist mörgum erfitt að rifja upp að fyrr á árum var samstaða um ákveðinn jöfnuð í samfélaginu. Það var á þeim árum sem okkur tókst að byggja upp velferðarkerfi. Við vorum ekki rík þjóð en með mikilli baráttu verkalýðshreyfingarinnar og skilningi stjórnvalda tókst okkur samt hið nánast ómögulega. Að byggja sterkt kerfi samábyrgðar á heilsu og menntun. Það er okkar dýrmætasta eign eftir hátt flug og sársaukafullt hrun. Þessi sameiginlegu verðmæti okkar eru í mikilli hættu vegna þeirrar menningar græðgi sem enn eimir eftir af og utanaðkomandi krafna um niðurskurð. Það er jafnframt stærsta verkefni þessarar ríkisstjórnar, að verja velferðarkerfið eins og mögulegt er. Því er nauðsynlegt að forgangsraða upp á nýtt, sýna kjark í aðgerðum til varnar velferðinni. Umönnunarstéttir sem halda samábyrgðinni gangandi eru ekki á launum skilanefndamanna. Það eru hins vegar stéttirnar sem eru í stórhættu að vera sagt upp í þeim niðurskurði sem fyrirhugaður er. Við verðum sem jafnréttissinnar og félagshyggjufólk að leita allra leiða til að verja þessi störf og þar með velferðarkerfið. Það er sársaukafullt að horfa upp á það með ríkisstjórn velferðar við stjórn að skilanefndarmenn maki krókinn á meðan kvennastörfin taka skell. Það má ekki gerast!