Fara í efni

GRÆNA HAGKERFIÐ AÐ HÆTTI SAM-FYLKINGAR-INNAR?

Fyrir kosningar kynnti Samfylkingin umhverfisstefnuskrá sína „Fagra Ísland". Sunnudaginn 30. mars ræddi stjórn Samfylkingarinnar Grænt hagkerfi á fundi sínum en framsögu hélt umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir. Fjórum dögum síðar. 3. apríl ákvað sami umhverfisráðherra að greiða götu álvers í Helguvík í stað þess að sinna því starfi sem henni var trúað fyrir, að vera málsvari umhverfisins. Sama dag og Þórunn sveik málstaðinn með tæknikratískum rökum var haldinn fundur á Húsavík þar sem þingmaður Samfylkingarinnar reyndi að stappa stáli í álverssinnaða heimamenn og sannfæra þá um að álver á Bakka væri í augsýn. Um svipað leyti og þetta allt gerist ferðast ráðherrar Samfylkingarinnar með eins mengandi hætti og mögulegur er á milli landa - í einkaflugvélum. Er það græna hagkerfið í framkvæmd? Varla. Er Samfylkingin ekki að misskilja eitthvað?

Nú er ég þess fullviss að margir umhverfisverndarsinnar hafi greitt Samfylkingunni atkvæði sitt vegna Fagra Íslands. Stefnan hljómaði vel og málsvarar hennar voru sannfærandi. Sömu málsvarar tala af sama krafti í dag um umhverfisstefnu Samfylkingarinnar en orðin falla dauð. Hversu illa er hægt að svíkja kjósendur sínar, hversu tvöfaldur getur einn stjórnmálaflokkur orðið og hversu langt má ganga í svikunum áður en flokknum hefnist? Hvernig verður umhorfs hér á landi eftir valdatíð Samfylkingarinnar? Höfum við efni á því að Samfylkingin sé málsvari umhverfisins hér á landi? Sú spurning gerist áleitin að hún sé verri en enginn málsvari.