ÞEGAR JAFNRÉTTIS-BARÁTTAN VERÐUR SJÁLFLÆG OG ÓVIÐEIGANDI
Uppáhalds bíómyndin mín er án efa Iron Jawed Angels þar sem Hillary Swank fer með hlutverk Alice Paul, baráttukonu fyrir kosningarétti kvenna í Bandaríkjunum í upphafi síðustu aldar. Alice og baráttusystur hennar miðluðu ekki málum í sinni baráttu, kosningaréttur til handa konum skyldi það vera og ekkert minna. Þetta þótti róttækt og þær þóttu beita róttækum baráttuaðferðum með kröfugöngum og mótmælastöðum. Barátta þeirra var hins vegar umborin þangað til Bandaríkin tóku þátt í fyrri heimsstyrjöldinni. Þá þótti það í hæsta máta sjálflægt og óviðeigandi að konur hugsuðu aðeins um eigin hag og sína baráttu þegar svo miklu meira var í húfi. Umburðarlyndið var búið, konurnar voru fangelsaðar og beittar kúgun og ofbeldi. Sem betur fer héldu þær baráttunni áfram og þess vegna hafa konur í Bandaríkjunum kosningarétt. Hér heima var baráttan ekki jafn dramatísk en við skulum alltaf minnast þess að hún var engu að síður háð og það er konum eins og Bríeti Bjarnhéðinsdóttur að þakka að við getum nýtt lýðræðislegan rétt okkar og fögnum því í dag.
Örlög Alice og baráttusystra hennar voru mér hugleikin í haust þegar kreppan skall á. Þá var umburðarlyndið fyrir jafnréttisbaráttunni hér á landi búið, það þótti sjálflægt og óviðeigandi að halda henni áfram þegar svo miklu meira var í húfi. Sem betur fer þögnuðu kröfurnar um jafnrétti ekki enda má til sanns vegar færa að þegar upplausn ríkir er aldrei meiri þörf á að halda kröfunni um jafnan aðgang allra að ákvarðanatöku á lofti. Þegar hin karllægu gildi hafa komið þjóð á kaldan klaka er krafan um jafnrétti svo sannarlega viðeigandi og beinlínis nauðsynleg.