Fara í efni

1. MAÍ SKAL VERA 1. MAÍ !

Ég hef sent Alþingi eftirfarandi umsögn um frumvarp til alaga sem þingmenn Bjartar framtíðar hafa lagt fram á Alþingi um færslu frídaga sem lenda í miðri viku að helgum. Umsögn mín beinist að því er varðar færslu þess frídags sem nú er bundinn 1. maí, alþjóðlegs baráttudags verkalýðsins, yfir á fyrsta mánudag í maí. Þetta atriði gagnrýni ég. Önnur atriði frumvarpsins læt ég liggja milli hluta þótt undir sumt megi taka, einkum þetta: „Beri jóladag, annan í jólum, nýársdag og 17. júní upp á helgi skal veita frídag næsta virkan dag á eftir." Frumvarpið má nálgast hér: http://www.althingi.is/altext/143/s/0019.html

Hér á eftir fer umsögn mín:

Sendandi:

Einar Ólafsson, kt. 1109492949

Trönuhjalla 13,

Kópavogi.

7. nóvember 2013

Umsögn um

Þingskjal 19 - 19. mál á 143. löggjafarþing: 2013-2014:

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, með síðari breytingum, og lögum um almennan frídag 1. maí, nr. 39/1966 (færsla frídaga að helgum).

Umsögn þessi beinist að þeim hlutum frumvarpsins sem varða 1. maí, þ.e. síðustu málsgrein 1. greinar, 2. grein og 3. grein.

1. maí: Alþjóðlegi verkalýðsdagurinn

Venjulegt heiti þess dags sem um ræðir er á ensku „International Workers' Day" eða „Alþjóðlegi verkalýðsdagurinn". Samsvarandi heiti eru venjuleg ef ekki opinber á ýmsum öðrum málum: „Alþjóðlegi verkalýðsdagurinn" eða bara „Verkalýðsdagurinn".

Þessi frídagur er sem sagt ekki séríslenskur.

1. maí er opinber frídagur í meira en 80 löndum í Evrópu, Ameríku, Asíu og Afríku. Í mörgum öðrum löndum stendur verkalýðshreyfingin fyrir samkomum þennan dag þótt hann sé ekki opinber frídagur. Ekki er að sjá að mikil hreyfing sé í þá átt að færa þennan frídag til. Í fáeinum löndum, svo sem á Írlandi, er hann fyrsta mánudag í maí sem og í Bretlandi síðan 1978. Hins vegar er stutt síðan verkalýðsdagurinn varð opinber frídagur í nokkrum löndum og þá venjulega bundinn við 1. maí. Í Indónesíu verður 1. maí opinber frídagur á næsta ári og þá á þeim degi en ekki næsta mánudegi við eða föstudegi.

Í fáeinum enskumælandi löndum er svokallaður „Labour/Labour Day" í öðrum mánuðum og þá tengdur minningum um einhverja atburði innanlands.

Á heimasíðu Alþjóðavinnumálstofnunarinnar (ILO) má lesa eftirfarandi texta á ensku:

„May 1st is international labour day, a day which commemorates a time of civil unrest in the late 19th century when workers in industrialized countries demonstrated for improved working conditions, wage raises and the establishment of a maximum working day and week. Many of the demonstrations were suppressed with force. The rights that demonstrators fought for at that time are featured in the preamble to the original ILO Constitution and are still current today."

http://www.ilo.org/public/english/support/lib/about/mayday.htm

Uppruni og saga alþjóðlega verkalýðsdagsins

4. maí 1886 safnaðist mannfjöldi saman á Haymarket-torginu í Chicago í Bandaríkjunum til stuðnings verkfalli sem hafði hafist 1. maí til að krefjast átta stunda vinnudags. Þeirri kröfu hafði þá verið haldið uppi um árabil í Bandaríkjunum. Óeirðir brutust út, nokkrir menn létust í átökunum og í kjölfarið hlutu nokkrir fundarmanna þunga dóma, þar af voru fjórir dæmdir til dauða og hengdir í nóvember 1887. Meintar sannanir fyrir sekt þeirra hafa löngum þótt byggðar á veikum grunni.

Bandaríska verkalýðssambandið „The American Federation of Labor" ákvað árið 1888 að 1. maí yrði helgaður baráttunni fyrir styttri vinnudegi og 1890 var boðað verkfall um öll Bandaríkin á þessum degi.

Annað alþjóðasambandið, sem var alþjóðlegt samband verkalýðs- og sósíalistaflokka eða í raun meginhluta verkalýðshreyfingarinnar, hélt sitt fyrsta þing í París árið 1889. Þá var ákveðið að taka upp baráttu bandarísku verkalýðshreyfingarinnar og  stefna að alþjóðlegum aðgerðum 1. maí árið 1890. Á öðru þingi sambandsins árið 1891 var samþykkt að gera þennan dag að árlegum baráttudegi. Í framhaldi af því var svo skorað á verkalýðssamtök um allan heim að standa fyrir því að verkafólk legði niður vinnu á þessum degi, 1. maí, til að bera fram kröfur sínar.

Smám saman var farið að nýta þennan dag æ víðar sem baráttudag og víða lagði verkafólk niður vinnu allan daginn eða hluta hans. Lengi vel var það í óþökk atvinnurekenda og yfirvalda og oft fékk fólk bágt fyrir, en loks var farið að láta undan kröfum verkalýðshreyfingarinnar um að viðurkenna þennan dag sem opinberan og lögbundin frídag. Á Íslandi var fyrsta kröfugangan á 1. maí gengin 1923 og hefur dagurinn verið löggiltur frídagur á Íslandi síðan 1966.

Hið sögulega og alþjóðlega samhengi: baráttudagurinn

Frídagurinn 1. maí er því þannig tilkominn að verkafólk lagði niður vinnu þennan dag, ekki til að hvíla sig heima eða spássera í skemmtigörðunum heldur til að krefjast styttri vinnudags og betri kjara. 1. maí var upphaflega verkfallsdagur en ekki frídagur, baráttudagur en ekki hátíðisdagur. Vissulega er vel við hæfi að halda hátíð þennan dag og minnast margra og mikilvægra sigra og áfanga verkalýðshreyfingarinnar í baráttunni fyrir betri kjörum. En þeirri baráttu er ekki lokið. Það ætti íslenskt launafólk að vita mæta vel. Þess vegna er 1. maí ennþá mikilvægur sem baráttudagur.

Einnig er mikilvægt að hafa í huga alþjóðahyggjuna sem hefur frá upphafi einkennt þennan baráttudag. Fyrir meira en 120 árum var verkalýðshreyfingin mjög meðvituð um nauðsyn alþjóðlegrar samstöðu. Nú, þegar fjármálakerfið er orðið alþjóðlegra en nokkru sinni fyrr og komið fyrir allnokkru á það stig sem kallaði á nýtt orð, „glóbalíseríngu", „hnattvæðingu", þá hefur nauðsyn hinnar alþjóðlegu samstöðu sennilega aldrei verið meiri.

Það yrði dapurlegur ósigur fyrir verkalýðshreyfinguna ef þingið færi nú að ráðskast með þennan dag fyrir verkalýðinn, ákveða upp á sitt eindæmi að breyta honum í einberan frídag og rífa hann úr hinu sögulega og alþjóðlega samhengi. Það yrði sigur þingsins yfir verkalýðshreyfingunni á sama tíma og baráttan frá 1890 heldur áfram með æ háværari kröfu um styttingu vinnuvikunnar, kröfu sem óhjákvæmilega kemur til kasta Alþingis, og á sama tíma og verkalýðshreyfingin stendur í stöðugri baráttu við að verja og bæta kjör launafólks og þarf því virkilega á þessum hefðbundna baráttudegi sínum að halda.

Það er von mín að Alþingi sjái sóma sinn í að láta verkalýðshreyfingunni eftir allt frumkvæði að ráðstöfun og tilhögun þessa dags.

Tillögur um breytingar á frumvarpinu

Ég legg því til að velferðarnefnd geri að minnsta kosti eftirtaldar breytingar á frumvarpinu:

•1.      Felli niður í heiti frumvarpsins eftirfarandi orð: „og lögum um almennan frídag 1. maí, nr. 39/1966".

•2.      Felli niður í 1. gr. síðustu setninguna: „Þá skal halda 1. maí hátíðlegan sem frídag verkamanna fyrsta mánudag í maí, sbr. lög um almennan frídag vegna frídags verkamanna 1. maí."

•3.      Felli niður 2. gr.

•4.      Felli niður 3. gr.

Ef þessar breytingar verða ekki gerðar, eða frumvarpið í heild dregið til baka, er eðlilegt að gera eftirfarandi athugasemdir:

Í fyrsta lagi: Orðalagið í 2. grein er harla klúðurslegt: „Halda skal 1. maí hátíðlegan sem frídag verkafólks fyrsta mánudag í maí" sem og samsvarandi orðalag í síðustu setningu 1. greinar. Einhvern veginn er það ankannalegt að halda ákveðin mánaðardag hátíðlegan á einhverjum öðrum mánaðardegi. Eðlilegra væri að nota um þennan frídag eitthvert þessara heita: „(alþjóðlegi) verkalýðsdagurinn", eða „(alþjóðlegur) baráttudagur verkafólks". Þó væri enn eðlilegra að sleppa orðinu „alþjóðlegur" enda þá búið að færa hann af þeim degi sem víðast hvar er notaður sem alþjóðlegi verkalýðsdagurinn. Eðlilegast væri þó að sleppa öllum þessum heitum og finna eitthvað enn annað ef ekki þykir nóg að hafa orðalagið bara eitthvað á þessa leið: „Almennur frídagur skal vera fyrsta mánudag í maí", enda má líta svo á að þá sé í raun búið að afnema (alþjóðlega) verkalýðsdaginn sem frídag á  Íslandi og setja í staðinn annan dag sem almennan frídag.

Í öðru lagi: Ekki virðist vera gert ráð fyrir að þjóðhátíðardagurinn, sem hefur verið haldinn hátíðlegur 17. júni, verði færður að næstu helgi fyrir eða eftir. Ef nægileg rök þykja vera fyrir að færa frídaginn af hinum hefðbundna verkalýðsdagi, þá sé ég ekki af hverju það sama ætti ekki við um þjóðhátíðardaginn.

Nokkrar heimildir fyrir sögulegum staðreyndum sem tíundaðar eru í þessari umsögn má finna hér:

http://en.wikipedia.org/wiki/International_Workers%27_Day

http://www.marxists.org/subject/mayday/articles/tracht.html

http://is.wikipedia.org/wiki/Fyrsti_ma%C3%AD

http://en.wikipedia.org/wiki/Labour_Day