HUGMYNDIR UM AFNÁM LANDBÚNAÐAR-TOLLA ÚRELTAR?
Nú berast fréttir utan úr heimi af hækkandi matvælaverði, jafnvel svo að til uppþota hefur komið. Talað er um að brjóta þurfi ný lönd til ræktunar, jafnvel fórna regnskógum. Ég hef ekki haft tök á að leita nánari upplýsinga eða skýringa á þessu. Það hvarflar hins vegar að mér, og ég hef það eiginlega sem vinnutilgátu, ef svo má segja, að þetta tengist eitthvað hnattvæðingunni. Margir hafa gagnrýnt mjög áhrif hnattvæðingarinnar á landbúnað víða um heim, þar sem lögð er ofuráhersla á heimsviðskipti með landbúnað. Fjölþjóðleg fyrirtæki hafa keypt upp stór landsvæði í þróunarlöndunum og komið þar upp stórbúskap með tilheyrandi umhverfislegum og félagslegum afleiðingum, svo sem hrakningi smábænda af jörðum sínum á sorphauga stórborganna. Þá eru lönd t.d. rudd til að framleiða soja til útflutnings en landbúnaðarvörur, sem fólk fékk úr frá sínu heimahéraði, þarf að flytja langt að með tilheyrandi kostnaði og mengun. Gagnrýnendur hafa bent á að frekar ætti að efla landbúnaðarframleiðslu til neyslu á heimamarkaði eftir því sem hægt er. Um þetta hripaði ég eitt sinn svolitla grein: http://notendur.centrum.is/~einarol/landbunadur.htm Hugmyndir Samfylkingarinnar um breytingar á innflutningi og viðskipti með landbúnaðarvörur er kannski herfileg tímaskekkja og hreinlega úreltar. Kannski er, þegar allt er sett í samhengi, betra fyrir neytendur að fara sér hægt í þessum efnum. Og vel að merkja: hverjir eru neytendur? Þeir eru allur almenningur, þ.á.m. bændur og starfsfólk í matvælaframleiðslu, og líka skattgreiðendur, sem þyrftu að bera þann samfélagslega kostnað sem gæti hlotist af snöggum og róttækum breytingum í þessa veru. Einmitt nú er kannski ekki rétti tíminn til að leggja íslensk tún í órækt eða grafa undan fæðuöryggi þjóðarinnar.