VERKALÝÐSHREYFINGIN ALLTAF JAFN MIKILVÆG
Dóttir mín hringdi í mig um daginn frá Kaupmannahöfn þar sem hún vinnur hjá virðulegu stórfyrirtæki og spurði mig hvort ekki ættu allir að vera í verkalýðsfélagi sem eru að vinna hjá öðrum. Ég svaraði því til að það væri víst ekki lagaleg skylda til þess. Ástæða þess að hún spurði var að henni fannst eitthvað skrýtið varðandi útfærslu á launum og vinnutíma og þess vegna fór hún að leita svara og hélt að það væri kannski einhver trúnaðarmaður á staðnum. Þá var henni sagt að starfsmenn fyrirtækisins væru ekki í verkalýðsfélagi en hún gæti alltaf leitað til starfsmannastjórans. „Hef ég þá engan málssvara?“ spurði hún. Jú, starfsmannastjórinn var víst hennar málssvari. Þetta fannst henni eitthvað skrýtið. Og hvernig ráðast laun og kjör? Jú, fyrirtækið ákveður þau – og svo eru einhverjir eintaklingssamningar. Jú, jú, hún hefur þokkaleg kjör, en eitthvað fannst henni samt ótryggt við þetta.
Það er áhyggjuefni víða um heim hvernig nú er reynt að grafa undan verkalýðsfélögum. Reynt er að koma á beinum samningum við einstaklingana þar sem verkalýðsfélögin koma hvergi nærri. Þetta gengur sjálfsagt oft vel hjá þeim sem eru nærri toppnum. En sennilega hafa verkalýðsfélög sjaldan verið jafn mikilvæg og nú þegar mikil áhersla er lögð á sveigjanleika vinnuaflsins og að eina hlutverk fyrirtækjanna sé að hámarka gróðann. Og sú hugmyndafræði teygir sig auk þess æ meir inn á hefðbundið svið almannaþjónustunnar.
Verkalýðshreyfingin átti á sínum tíma mikinn þátt í þróun velferðarkerfisins, bæði beint og gegnum pólitísk ítök sín. Nú, þegar sífellt er reynt að rífa velferðarkerfið niður og færa almannaþjónustuna í hendur einkaaðila, þar sem hámarksgróðinn ræður förinni, er gríðarlega mikilvægt að verkalýðshreyfingin verji þann ávinning sem uppbygging velferðarkerfisins var – og berjist fyrir að það verði bætt enn frekar. Þetta er ekki léttvægara hlutverk en að gera kjarasamninga og standa vörð um þá.
Nú þegar 41. þing BSRB er að hefjast er vert að minnnast þess að BSRB hefur tekið þetta hlutverk sitt mjög alvarlega. Auðvitað snýst barátta BSRB fyrir almannaþjónusunni að hluta um starfskjör félagsmannanna, og það er mikilvægt, en sem betur fer hefur ekki verið einblínt á það, heldur líka litið til almenns mikilvægis góðrar og félagslegrar almannaþjónustu fyrir almenning. Í Danmörku nýtur dóttir mín góðs velferðarkerfis. Það er mikið til verkalýðshreyfingunni að þakka. En þar er eins og annarsstaðar að því sótt. Það er önnur ástæða þess að hún ætti að vera í verkalýðsfélagi.
Einar Ólafsson