Fara í efni

Einpóla heimsskipan blásin af?

Þann 30 janúar hafði Megyn Kelly mjög athyglisvert viðtal við nýja bandaríska utanríkisráðherrann Marco Rubio, m.a. um hvað kjörorðið „Bandaríkin fyrst“ muni þýða í utanríkisstefnu: What "America First" Foreign Policy Will Look Like. Rubio er þekktur sem rammur nýíhaldsmaður, ættaður frá Kúbu. En í viðtalinu gaf hann tón sem segir sitthvað um væntalega utanríkisstefnu og boðar þar áhugaverðar væntanlega breytingar, jafnvel stórtíðindi. Sjá nokkra hápunkta úr viðtalinu:

Megyn Kelly fór vítt og breytt í spurningum, m.a. það um hvort bandarísk stjórnvöld ættu kannski að hætta að djöfulgera Íran og Rússland svo mikið, en „halda athyglinni á okkar stærstu ógn“ og átti við Kína. Þessu svarði Rubio:

„Ja, ég held að við eyðum miklum tíma í bandarískum stjórnmálum í að ræða taktík, eins og hvað við ætlum að gera, hverja við ætlum að beita refsiaðgerðum, hvaða bréf við ætlum að senda eða eitthvað slíkt. Ég held að það þurfi að byrja á strategíunni: Hvert er hið strategíska verkefni? Hver er tilgangurinn, ætlunarverkið? Og ég held að ætlunarverk bandarískrar utanríkisstefnu – það virðist kannski augljóst, en ég held að það hafi samt týnst. Hagsmunir bandarískrar utanríkisstefnu liggja í því að efla þjóðarhagsmuni Bandaríkjanna, ekki satt?... Og þannig hefur heimurinn alltaf virkað. Þannig hefur heimurinn alltaf virkað að Kínverjar gera það sem er Kína fyrir bestu, Rússar gera það sem er Rússum fyrir bestu...“

Hér er eins og tali praktískur stjórnmálamaður en ekki maður ríðandi á prinsippum og trúarsetningum um að frelsa heiminn frá vondu mönnunum – eins og við höfum vanist frá þessu embætti. Samkvæmt þessum orðum Rubios er spurningin ekki um að skipta um taktík í utanríkisstefnunni, það verður að breyta grundvallarstefnunni, strategíunni, segir hann.

Í framhaldinu verður hann enn dramatískari. Hann segir að kúvenda þurfi utanríkisstefnu Bandaríkjanna og vill hverfa alveg frá „einpóla“ valdastöðu þejrra. Grundvallarstefna utanríkismála í Bandaríkjunum fór út af sporinu við lok Kalda stríðsins, segir Rubio.

„Það er því ekki eðlilegt ástand að heimurinn sé einpóla. Það var ekki – það var frávik. Það var afleiðing loka kalda stríðsins, en á endanum hlaut að koma aftur að því að heimurinn yrði fjölpóla, fjölmörg stórveldi á mismunandi stöðum á hnettinum. Við stöndum frammi fyrir því núna, með Kína og að einhverju leyti með Rússlandi, og svo erum við með fantaríki eins og Íran og Norður-Kóreu sem maður þarf að takast á við.“

Afar áhugavert. Rubio hafnar hugmyndinni um einpóla hnattrænt vald Bandaríkjanna, Einpóla heimsskipan. Bandaríkin séu ekki (ekki lengur) slíkt risaveldi sem geti ráðið heiminum með valdi. Enda sé fjölpóla kerfi hið eðlilega ástand. Það liggur í augum uppi að hér er ekki aðeins um að ræða rof og fráhvarf frá stefnu síðustu stjórnar. Þetta hljómar sem fullkominn viðsnúningur frá málflutningi allra utanríkisráðherra Bandaríkjanna, beggja flokka, a.m.k. síðustu 35 árin.

Hvað er Einpóla heimsskipan?


Hvað er þessi Einpóla heimsskipan sem um ræðir? Einpóla og „hegemónískt“ valdakerfi á hnettinum inniber að einn aðili hafi yfirráð á heimsvísu í krafti hernaðarlegs forskots og óumdeilanlegs yfirburðavalds. „Hegemóninn“ setur öllum öðrum kosti og gefur sér í reynd sjálfdæmi í deilum. Hann kemur líka fram sem heimslögregla og tryggir öryggið sjálfur. Slíkt hegemónískt öryggiskerfi felur í sér að halda verður mögulegum keppinautum niðri, hleypa engum keppinaut upp á dekk. Hegemónískt öryggi byggir m.ö,o. á óöryggi allra hugsanlegra keppinauta og andstæðinga. Margt bendir þó til að slík tegund öryggis hljóti að verða óstöðug.

Bandarikin byggðu upp sitt valdakerfi sem Einpóla heimsskipan í kjölfar falls Sovétríkjanna og kenndu hana við „Nýja heimssskipan“, New World Order. Þetta var gert í krafti þess að Rússland var veikt. Síðan skiptu þau út áður gildandi samningum valdajafnvægis með útvíkkuðu NATO til að tryggja einpóla kerfið. Þessar og þvílíkar ráðstafanir gátu samt ekki komið í veg fyrir að Rússland yxi sig sterkt að nýju. Þær gátu ekki heldur tryggt að hvergi yrðu til aðrar miðstöðvar valds sem yndu ekki slíkri undirsetningu. En slíka aðila þarf að berja niður ef Einpóla heimsskipanin á að standast. Slík skipan býður þess vegna hvorki upp á líklegan stöðugleika né langvarandi frið.

Það brást heldur ekki að andstaða við hegemóníska kerfið byggðist upp og fór vaxandi. Hin nýframkomna viðurkenning nýrra bandarískra stjórnvalda á því að einpólunin með tilheyrandi öryggisskerfi sé að líða undir lok tengist augljóslega einni deilu á alþjóðasviði öðrum fremur: stríðinu í Úkraínu. Það stríð bar óhjákvæmilega á góma í viðtali Megyn Kelly við Marco Rubio. Hann svaraði alveg skýrt: „Við þurfum bara að vera raunsæ um þá staðreynd að Úkraína hefur tapað.“ Punktur. Það er róttæk og afgerandi yfirlýsing í ljósi þess að staðgengilsstríðinu hefur frá byrjun verið haldið úti á NATO-möntrunni síbyljandi, „með nægri hjálp getur Úkraína sigrað.“

Efnahagslegri hnattvæðingarstefnu sömuleiðis hafnað

 

Hin nýja umbreytta strategía er ekki bundin við öryggis- og hermal heldur er hún berlega mikill umsnúningur í efnahagspólitík á sama tíma. Í þeim efnum hafa tollamálin komið mjög í fréttir. Trump hefir lagt tolla a Mexico og Canada og Kína og hótað tollum á ESB líka. Allt er það í raun refsitollar, framkvæmd sumra þeirra hefur verið frestað.

Þarna blasir við róttækt brotthvarf frá efnahagslegri hnattvæðingarstefnu. Hún hefur sem kunnugt er fríverslun og frjálst flæði fjármagns um allan heim sem lífsmottó. Með tímanum varð útvistun iðnaðar til lákostnaðarlanda líka meginþáttur í stefnunni. Allt var það óaðskiljanlegur hluti af New World Order sem drottnað hefur frá 1990, stefnu sem nú er sett í úreldingu i nafni kjörorðsins „America first“.

Hvað er eiginlega að gerast?

 
Getur það verið að Bandaríkin ætli að leggja heimsvaldastefnu sína niður? Eru Bandaríkin komin með lýðræðislegra og virðingarfyllra viðhorf til annarra landa? Eða ætla trumpistar kannski að hætta að keppa við önnur stórveldi? Ekki beint trúlegt. Tal og háttarlag Donalds Trump fyrstu vikurnar í embætti bendir ekki til þess að hann og stjórn hans séu orðin hógvær og lítilþæg. Samanber það að hann beitir hótunum meira en aðrir forsetar, samanber fyrirskipaðar refsiaðgerðir hans gegn Alþjóðlega sakamáladómstólnum, samanber uppástunguna um að þjóðernishreinsa Gaza með hjálp Bandaríkjahers. Svo dæmi séu nefnd. Að hann er ekki friðarsinni sést t.d. á kröfu hans um 5% þjóðartekna til varnarmála í Evrópuríkjum.

En það er spurning um sjálft hið strategíska verkefni og hlutverk bandarískra stjórnvalda („What is the strategic objective? What’s the purpose, the mission?“): Er það að bæta hag Bandaríkjanna eða er það að breyta og ráða yfir heiminum? Trump og hans menn lýsa því yfir að þeir bakki frá því verkefni að byggja og reka veldi sem spannar hnöttinn – með öllu sem því fylgir og öllu sem það kostar að halda úti slíku hnattveldi. Í staðinn: America first.

Geópólitíski skríbentinn Pepe Escobar skrifar um hina nýju stefnu Trumps og trumpista í grein sem birtist nýlega hér á vefnum og segir:

„Lykilatriði er: algjör yfirráð yfir „Vesturhveli“, Monroe-kenningin 2.0 – í raun Donroe-kenningin. Bandaríkin fyrst, síðast og að eilífu.“

Líklega rétt hjá Escobar. Monroe-kenningin vísar til stefnu sem James Monroe forseti Bandaríkjanna setti fram 1823 og gekk út á það að Ameríka öll væri bandarískt áhrifasvæði og afskipti utanaðkomandi aðila af stjórnmálum landa í allri álfunni væru fjandsamleg Bandaríkjunum.

Valkosturinn sem valinn er er að lækka seglin, minnka svæðið sem barist er um, og víggirða sig þar. Það er einkum af því hnattveldið er hætt að borga sig, það setur Bandaríkin á hausinn. Nærtækur valkostur er þá að pressa meira út úr sínu svæði, sínu áhrifasvæði, en skera mjög niður athafnasemina á hinu hnattræna sviði að öðru leyti.

Fyrir 1990 höfðu Bandaríkin afar fast taumhald á Rómönsku Ameríku, með ótal íhlutunum, innrásum og þvingunum. En um 1990 tóku Bandaríkin upp hnattvæðingarstefnuna, höfðu þá allan heiminn undir og hugsuðu minna um áhrifasvæði. Þar með losuðu þau nokkuð takið á áhrifasvæði eins og löndum Rómönsku Ameríku. Brasilía gerðist t.d. stofnaðili að BRICS 2009, nokkuð sem hefði ekki skeð á árum áður. Nú skal hins vegar henda hnattvæðingarhyggjunni fyrir róða og þar með eru tökin hert aftur á eigin áhrifasvæði.

Alveg sérstaklega gæti þessi mikla stefnubreyting haft afleiðingar varðandi horfurnar á stríði eða friði. „Stríð án enda“ hefur jú fylgt stefnu Bandaríkjanna um Einpóla heimsskipan, alveg eins og skugginn. Árásargirnin beinist ekki aðeins að mögulegum „keppinautum“ hegemónsins heldur öllum sem sýna honum óhlýðni eða halla sér í aðrar áttir. Það gefur hegemóninum tilefni til „valdaskiptaaðgerða“ eða „litabyltinga“ með tilheyrandi hernaðaraðgerðum. Að því leyti gefur stefnubreyting 2025 friðelskandi fólki ástæðu til aðeins meiri bjartsýni en áður.

Rökréttur púslubiti í myndinni: USAID

 
Donald Trump gaf út fjölda tilskipana á fyrsta degi og fyrstu viku í embætti. Ein þeirra sem áberandi var í fréttum snerti það að frysta alla þróunaraðstoð um sinn. Önnur nátengd hinni var sú ráðstöfun að flytja stofnunina Agency for International Development (USAID), undir Utanríkisráðuneytið til bráðabirgða.

Enn fremur: Með forsetatilskipun er sett á fót stofnun, Ráðuneyti um opinbera stjórnarskilvirkni, „The Department of Government Efficiency“, DOGE. Verkefnið er m.a. að draga úr opinberri sóun og skera niður reglugerðarbákn. Yfir það er settur billjónamæringurinn Elon Musk. Eitt af fyrstu verkefnum DOGE og Musk er einmitt að snúa sér að áðurnefndu hjálparbatteríi USAID með niðurskrðarhnífinn.

Þessar ráðstafanir er ástæða til að skoða í samhengi þess sem skráð er hér að framan. USAID hefur andlit sem „óháð“ stofnun sem stundar þróunarhjálp og hvíldarlaust berst fyrir mannréttindum, tjáningarfrelsi og lýðræði. Og hún er „óháð“ að því leyti að hún þarf ekki að standa stjórnvöldum og þingi opinber skil í starfi. En stofnunin er öll á bandarískum fjárlögum, alls ekki óháð, og er í reynd framlenging á leyniþjónustunni CIA. Alveg sérstaklega er hún (ásamt samtökunum National Endowment for Democracy) megingerandi í vestrænt drifnum valdaskiptaagerðum vítt um heim.

Í þeim tilgangi stendur hún m.a. fyrir víðtækum undirróðri, hefur kostað yfir 6200 „óháða blaðamenn“ (og „þjálfað“ miklu fleiri) og 707 fréttastofur vítt um veröld. Alls 9 af 10 fréttstöðvum Úkraínu eru til dæmis kostaðar fyrst og fremst af USAID auk þess sem stofnunin styrkir málgögn á borð við BBC, New York Times og ótal fleiri.

Heyra má þá félaga Alexander Mercouris og Alex Christoforou á The Duran ræða um atlögur nýrra stjórnvalda að USAID og valdaskiptamaskínunni.

Gengur þetta í gegn?

 
Fæst af þessum áformum eru orðin veruleiki. Fyrst má spyrja hvort nýju stjórnvöldin raunverulega ætli sér þetta eða hvort það séu kannski sjónhverfingar. Ef svo er, ef ekkert gerist í þessa veru en sama stefna ræður ríkjum áfram hljóta trumpistar að tapa öllum trúverðugleika og svo völdum. Ég held þeim hljóti að vera alvara. Ef stefnubreytingin er alvarlega meint er til dæmis herferðin gegn USAID líka rökrétt skref sem bendir til að svo sé.

Það er meiri spurning hvort þeim takist að yfirvinna tregðu í kerfinu. Flest af þessu sem stefnan er nú að kúvenda er afar inngróið í bandaríska stjórnkerfið og bandaríska djúpríkið, þar á meðal heimsvaldabatteríið allt og valdaskiptabatteríið. Skrifstofuveldið og valdakerfið er fullt af hnattvæðingarsinnum og fjölmiðlarnir eru enn sem áður aðallega þeirra megin. Og spyrja mætti, hvað vill Her-iðnaðar samsteypan?

Hegemóníska heimsvaldabatteríið liggur vítt um veröld og er ekki allt innan Bandaríkjanna. Meðal annars í Evrópu. Evrópska elítan er felmtruð mjög yfir hugmyndum trumpista. Hún er af ýmsum ástæðum orðin afar samlifuð Einpóla heimsskipaninni, enn frekar en sú bandaríska og minna klofin í afstöðu sinni.

„Russiagate“ er dæmi frá fyrri stjórnartíð Trumps um hvað gæti gerst. Hann virtist hafa raunverulegan áhuga á spennuslökun gagnvart Rússlandi, en í valdakerfinu var annað viðhorf sterkara. Hann var óðara sakaður um landráðasamsæri með Pútín, sem girti fyrir að lengra yrði komist á þeirri braut.

Nú hefur það gerst frá fyrra tímabili Trumps að hið hegemóníska öryggiskerfi hefur ekið út í kviksyndi í Úkraínu og kemst ekki lengra. „Úkraína hefur tapað“, segir Rubio og gerir sig líklegan til að gefa Evrópuleiðtogum öll sín hlutabréf í því, en þeir berja höfðinu við stein í hreinni örvæntingu gnístandi tönnum. Trumpistar sýna einfaldlega meira raunsæi en hinir. En menn þurfa ekki einu sinni mikið raunsæi til að sjá hvenær þeir eru staddir í kviksyndi.

Sem sagt stórtíðindi frá Washinton, en við horfum líka fram á dramatísk átök innan bandaríska heimsvaldabatterísins, heima sem heiman.

Þessi grein birtist einnig á vefritinu Neistum, neistar.is