Sea world
Fyrir nokkrum árum fór ég í sædýragarð í Orlando sem heitir Sea world. Eitt af því sem þar var boðið upp á til skemmtunar voru háhyrningar sem höfðu verið tamdir og hlýddu þeir í einu og öllu því sem umsjónarmennirnir fóru fram á. Mig minnir að þeir hafi verið rúmlega 30 að tölu, sennilega 31. Allir syntu þeir í takt, stukku upp í loftið þegar það átti við, skvettu þegar það átti við og földu sig þegar það átti við. Tamningamennirnir voru tveir og stóðu þeir gjarnan á baki háhyrninganna meðan þeir voru ofan vatnsflatarins en stukku upp á bakkann þess á milli.
Margir telja að svona meðferð á dýrum stangist á við dýraverndunarsjónarmið enda eiga skepnurnar sér ekki undankomu auðið. Öðru gegnir um stjórnarþingmenn, þeir hafa val. Þeir eru ekki bundnir af því að hlýða tamningamönnum sínum í blindni. Ég skora á þá sem hafa farið í Sea world eða aðra álíka garða að bregða sér á Alþingi og rifja upp gamlar minningar. Þetta er ótrúlega líkt.
Eiríkur Jónsson