„Evrópa“-Bandaríkin: Pólitísk óeining og heimsvaldasinnuð verkaskipting
„Eru Evrópa og Bandaríkin að hætta saman?“ Það er hin brennandi spurning Ríkisútvarpsins 7. mars. RÚV hefur að undanförnu sett okkur fyrir sjónir uppreisn Evrópu gegn Trump! Vegna Úkraínu. Fréttamönnum svellur nokkur vígamóður vegna Úkraínu, enda erum við í öruggri fjarlægð.
Í öryggismálum er stutt á milli stórviðburða. Sunnudaginn 2. febrúar var blásið til fundar Evrópuleiðtoga í London. Framkvæmdastjóri NATO og Kanada voru þar með. Samstaðan á bak við Úkraínu var órofa og Zelensky var faðmaður aftur á bak og áfram. Leiðtogar Breta og Frakka, Starmer og Macron, lögðu fram drög að áætlun um stríðslok í Úkraínu. Samkvæmt þeim drögum ætlar „bandalag viljugra“ Evrópuríkja að leggja fram “öryggistryggingar“, í merkingunni hernaðarleg nærvera, friðargæslulið innan Úkraínu.
Það kom þó fram hjá Macron að slíkt gæslulið kæmist ekki á vettvang fyrr en eftir að náðst hefði friðarsamningur við Rússa. Og Starmer bætti við að „til þess að slíkur samningur virki þarf hann sterkan bakstuðning frá Bandaríkjunum.“ Gallinn var sá að bandarískur forseti og ráðherrar höfðu sagt skýrt að Bandaríkin muni ekki leggja fram slíkar „öryggistryggingar“. Þetta sýnast því hafa verið innantóm orð.
Hitt er þó vert er að undirstrika að þetta er í fyrsta sinn sem Evrópuríkin mæla með einhverjum friðarsamningum í Úkraínu. Þegar Evrópuleiðtogar hittust í Kiev 24 febrúar sl. mælti danska Mette Frederiksen t.d. ekki með friðarsamningum: „Við eigum á hættu að friður í Úkraínu sé í raun hættulegri en yfirstandandi stríð.“
Það kom þó fleira frá Londonfundinum sem var ekki alveg eins innantómt. Ursula von der Leyen „segir Evrópu þurfa að búa sig undir hið versta og nauðsynlegt sé fyrir álfuna að endurvopnast.“ Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands sagði, nýkominn af fundi Donalds Trump, „að Evrópa væri á krossgötum og að nauðsynlegt væri að álfan axlaði meginábyrgð á eigin öryggi“ og Emmanuel Macron sagði „ákjósanlegt að ríki verji frá þremur til þriggja og hálfs prósents af vergri landsframleiðslu til varnarmála.“
Daginn eftir Londonfundinn segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ánægð á vefritinu Vísi:
„Evrópuríkin eru að stíga fram… Evrópa er að axla þá ábyrgð sem oft hefur verið kallað eftir m.a. af hálfu Bandaríkjanna og taka meiri þátt í eigin vörnum… og bæta í öryggi og varnir… Evrópuríkin eru að gera það núna sem almennt er ætlast til að þau geri.“
Sjálfstæðisviðleitni „Evrópu“?
Baldur Þórhallsson prófessor sagði í Vikulokunum laugardaginn 2. mars að staðan í öryggis- og varnarmálum Evrópu sé nú „gjörbreytt eftir fund forseta Bandaríkjanna og Úkraínu í Hvíta húsinu í gær. Óbrúanlegt bil hafi myndast milli Evrópu og Bandaríkjanna.“
Það er viss ástæða fyrir slíku mati. Allt frá því Trumpstjórnin hóf að tala um samninga við Rússa um Úkraínu hefur stjórnmálaelíta Evrópu verið í miklu uppnámi og sýnt merki megnrar óánægju.
Í Úkraínustríðinu hafa Evrópuleiðtogar verið mjög herskáir frá byrjun, og eru enn. Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands sagði fyrir nokkrum mánuðum að stríðinu í Úkraínu yrði að ljúka með ósigri Rússlands og helst að Rússland yrði sundurlimað í minni ríki. Eftir slíkan talanda var hún svo valin utanríkismákastjóri ESB. Eftir katastrófufund Trumps og Zelenskys skrifaði hún:
“Við verðum að auka stuðning okkar við Úkraínu svo hún geti hrakið tilbaka árásaraðilann. Í dag varð það ljóst að hinn frjálsi heimur þarf annan leiðtoga. Það er komið undir okkur, Evrópubúum, að taka áskoruninni.“
Og eftir Londonfundinn segir Kaja Kallas ennfremur: „EU must focus on Russia before taking on China“
Mette Frederiksen er ekkert síður herská en Kaja. Samtímis því að Marco Rubio utanríkisráherra lýsti því mati að „Úkraína hefur tapað“ sagði danski forsætisráðherrann á öryggisráðstefnunni í Munchen að markmið sitt væri óbreytt í því máli: „Að Úkraína vinni stríðið.“
„Bilið“ milli Trumpstjórnar og evrópskra leiðtoga er raunverulegt. Evrópuleiðtogar reyna af miklum ákafa að halda Bandaríkjamönnum innanborðs í herferðinni í Ukraínu, og að Bandaríkin leggi fram öryggistryggingar, en Trumpstjórnin segir: „engar öryggistryggingar af okkar hálfu“, þeir vilja leysa sig frá stríðinu en velta slíkri ábyrgð yfir á Evrópu.
„Bilið“ stafar auðvitað að nokkru leyti af ólíku strategísku mati á stöðunni. „Með nægri aðstoð getur Úkraína unnið“ hefur frá byrjun verið vestræna slagorð stríðsins, slagorð sem Zelensky mun hrópa jafnvel í gröfinni, en matið í Washington núna er öfugt: stríðið er tapað. Trump bætir við að bandarískar „öryggistryggingar“ í formi hernaðarlegrar nærveru væru ávísun á kjarnorkustríð. „Engar öryggistryggingar“ var svo undirstrikað þegar Bandaríkin stöðvuðu alla vopnaflutninga sína til Úkraínu. Í Sporöskjuskrifstofunni reyndi Zelensky desperat að fá Trump með öryggistryggingar beint inn í þau átök sem Trump ætlar sér út úr.
Mat Trumps er rétt, stríðið er tapað. Það er hins vegar stórkostlega óheiðarlegt af honum að hæðast að Zelensky og Kievstjórninni fyrir að hafa ögrað Rússum til stríðs. Zelensky var aldrei annað en peð NATO, bardagapeð, og það var NATO sem á fyrsta mánuði stríðsins bannaði honum að semja við Rússa af því Vestrið myndi styðja hann til sigurs (Boris Johnson bar honum þau skilaboð). Þetta viðurkenndi utanríkisráðherra Marco Rubio sjálfur á miðvikudag með því að segja: „Og hreinskilnislega, þetta er staðgengilsstríð milli kjarnorkuvelda – Bandaríkjanna sem hjálpa Úkraínu og Rússlands“.
Úkraínustríðið er staðgengilsstríð NATO já, aðallega bandarískt-rússneskt stríð, sem hófst með bandarískt stýrðu valdaráni 2014 (ofan á stöðuga austurstækkun NATO), stríð sem var einnig knúið áfram af fyrri stjórn Trumps í fjögur ár. Veruleg vígvæðing Úkraínu frá Bandaríkjunum hófst einmitt undir hans ríkisstjórn. Þess vegna er það líka blekkingarleikur að rekja stríðsstefnuna eingöngu til Bidenstjórnarinnar. Úkraínustríðið er staðgengilsstríð beggja bandarísku flokkanna.
Verkaskipting, ekki „óbrúanlegt bil“
Hversu „óbrúanlegt“ er bilið milli „Evrópu“ og Bandaríkjanna? Er NATO að splundrast? Og þar með hið sameinaða Vestur? Mögulega. Ég held samt alls ekki. Heróp Kaju Kallas eru vissulega glannaleg (ekki síst komandi frá Eista), en það sjást samt engin merki um að Evrópa ætli að segja sambandinu upp.
En munu Bandaríkin segja „Evrópu“ upp? Eru þau á förum? Já. Ég met það vissulega svo að „Evrópa“ sé ekki Bandaríkjunum eins mikilvæg og áður, að Evrópa hafi ekki lengur sama vægi fyrir bandaríska heimsvaldastefnu og hún hefur haft til þessa. Því mati er „Evrópa“ skiljanlega beisklega ósammála. Líklega er „Evrópa“ ekki að fara langt.
Síðdegis mánudaginn 3. mars stöðvaði Donald Trump allar vopnasendingar til Úkraínu. Ursula von der Leyen svaraði eldsnemma næsta morgun 4. mars og sagði „Evrópu“ „tilbúna að taka við því kefli“, að „taka á sig ábyrgð sína, og endurvopna Evrópu.“ Fjárframlög ESB-ríkja til varnarmála verði skv. þessu árið 2025 hækkuð um 800 milljarða evra sem er tvöföldun frá fyrra ári. Til þessa þyrfti m.a. að rýmka takmarkanir á lántökum aðildarríkja, þ.e.a.s. breyta reglum ESB um ríkishallarekstur til að standa undir hervæðingunni. Sambandsforsetinn sagði síðan: „Þetta er stund Evrópu, við erum tilbúin til að stíga upp.“
Neyðarleiðtogafundur ESB var haldinn í Brussel tveimur dögum siðar, 6. mars og staðfesti hann „Endurvopnunaráætlun Evrópu“ og hin risavöxnu nýju fjárframlög til varnarmála sem framkvæmdastjórnin hafði lagt fram. Fumlaus stuðningur við Úkraínu var samþykktur, en „öryggistryggingarnar“ héngu nokkuð í lausu lofti af því skuldbindingar Bandaríkjanna voru nú sagðar óljósar.
Líklega er klofningurinn milli hinna norðuratlantísku bandamanna ekki eins djúpur og útvarpið gefur í skyn. Hið sérstaka með þessa „uppreisn Evrópu“ er að uppreisnarmennirnir segja og gera einmitt það sem yfirmennirnir í Washington segja þeim að segja og gera: einkum það að verða sjálfstæðari í öryggismálum, axla meginábyrgð á eigin öryggi – og stórauka framlög sín til hermála. Sömu atriði og áður tilvitnaðir punktar Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur.
Pete Hegseth leggur „Evrópu“ línuna
Samskiptahópur um varnir Úkraínu (Ukraine Defense Contact Group,UDCG) var stofnaður í bandarísku Ramstein-herstöðinni í Þýskalandi stuttu eftir innrás Rússa. Fullgildir meðlimir hans eru öll NATO-ríki og ESB-ríki undir forsæti Bandaríkjanna. Fundir eru ýmist haldnir í Ramstein eða NATO-höfuðstöðvum í Brussel. Á fundinn 12. febrúar í Brussel mætti nýi bandaríski varnarmálaráðherrann Pete Hegseth og bar NATO-kollegum sínum boðskapinn nýja frá Washington. Meginboðskapur hans var að Bandaríkin hefðu ekki takmarkalausa afkastagetu svo nú væri brýnt að menn skiptu með sér verkum.
„Bandaríkin standa frammi fyrir ógn sem steðjar að heimalandi okkar. Við verðum að – og erum að – leggja áherslu á öryggi landamæra okkar. Við stöndum einnig frammi fyrir jafningjasamkeppni frá Kínverjum sem eru kommúnistar og hafa getu og ásetning til að ógna heimalandi okkar og kjarnaþjóðarhagsmunum okkar á Kyrrahafssvæðinu. Bandaríkin forgangsraða nú í þágu þess að aftra stríði við Kína á Kyrrahafssvæðinu, viðurkenna þann veruleika að skortur er til staðar og forgangsraða þess vegna gögnum og gæðum til að tryggja að fælingarstefnan bregðist ekki. Fælingin má ekki bila, okkar allra vegna.
Á sama tíma og Bandaríkin setja í forgang að takast á við þær ógnir verða bandamenn þeirra að taka forustuhlutverk. Í sameiningu getum við komið á verkaskiptingu sem hámarkar samanburðarforskot okkar – í Evrópu annars vegar og Kyrrahafssvæðinu hins vegar.
Á fyrstu vikum mínum sem varnarmálaráðherra undir forystu Trumps forseta höfum við séð jákvæð merki þess að Evrópa sé meðvituð um þessa ógn, skilji hvað þarf að gera og sé að stíga upp til að takast á við verkefnið.
Til dæmis tilkynntu Svíar nýlega um stærsta aðstoðarpakka [við Úkraínu] fyrr og síðar. Við fögnum því að þeir skuldbindi sig til að greiða 1,2 milljarða dala í skotfæri og annan nauðsynlegan búnað.
Pólland ver nú þegar 5% af vergri landsframleiðslu til varnarmála og er með því fyrirmynd í álfunni.
Og 14 lönd eru í forystu fyrir færnihópa [Capability Coalitions]. Þessir hópar vinna mikið starf við að samræma framlög Evrópuríkja til hernaðaraðstoðar á átta megin færnisviðum [lofthernaði, loftvörnum, njósna-upplýsingaþjónustu, sjóher o.fl].
Þetta eru fyrstu skrefin. Það þarf að gera meira. Við heitum á hvert og eitt ykkar að standa við skuldbindingar ykkar. Við skorum á lönd ykkar og þegna að tvíefla sig og skuldbinda sig ekki aðeins til að sinna brýnum öryggisþörfum Úkraínu, heldur einnig til að sinna varnar- og varnarmarkmiðum Evrópu til lengri tíma…
2% duga ekki. Trump forseti hefur kallað eftir 5%, og ég er sammála því.“
Svo mörg voru þau orð. Degi síðar, á fundi NATO-kollega sinna í Brussel 13. febrúar., sagði rakti Hegseth ónóga stríðsgæfu Úkraínu til „undirfjárfestingar í hergagnaiðnaði“ af hálfu Vestursins, sérstaklega Evrópu.
Sem sagt, þarna í Brussel fyrir þremur vikum gaf bandaríski varnarmálaráðherrann „Evrópu“ sínar tilskipanir um nýju stefnuna frá Washington. Hún gengur út á að taka þurfi pásu í Úkraínu, endurskipuleggja krafta, skipta með sér verkum þar sem Bandaríkin setja Kina-stríð í forgang og auka hernaðarlegt sjálfstæði „Evrópu“ og stórauka framlög Evrópu til hermála.
Síðan þá hafa Evrópuleiðtogar stappað niður fótum eins og illa tamdir hestar, jafnvel farið upp á afturfæturna grenjandi. Síðan hafa þeir skref fyrir skref gengist inn á nýju línuna frá Washington.
Brian Berletic er blaðamaður með forsögu í bandaríska sjóhernum sem rekur afar glöggt og upplýsandi hlaðvarp um alþjóðamál, The New Atlas. Mér finnst hann greina yfirstandandi vendingar í Washington og Norður-Atlantshafsklúbbnum betur en aðrir. Nokkurn veginn svona:
Þrátt fyrir klofna stjórnmálaelítu og þrátt fyrir furðu ólíkt tungutak og gildismat þá eru Trumpistar fulltrúar sömu hagsmuna, sama einokunarauðvalds og sama djúpríkis og fyrri ríkisstjórn – svo útkoman er samfella en en ekki rof. Stjórnmálastétt Evrópu er undirlögð sömu hagsmuni þar sem hún hefur látið af hendi sjálfsforræði sitt í utanríkismálum og þarf að haga seglum sínum eftir því.
Hér má skoða nýlegan YouTube þátt þar sem Berletic setur hinar nýju vendingar í þetta ljós: Is There a Real US-EU Split? Or Simply "Division Of Labor" for US Primacy?
Eitt sameinað heimsvaldakerfi, sem fyrr
Úkraínustríðið er í grundvallaratriðum útþenslustríð NATO, það hófst 2014, innrás Rússa var fyrst og síðast viðbrögð þeirra við útþenslu NATO. „And frankly, it’s a proxy war“, segir Marco Rubio“, ekki af því hann styðji Pútín heldur ætlar hann (og Trump) að berjast við hann í heimi raunveruleikans, ekki heimi tómra sjálfsblekkinga og silkiumbúða.
Staðgengisstríðið gegn Rússlandi er NATO-stríð, punktur. „99% of military aid to Ukraine comes from NATO allies“, sagði Jens Stoltenberg stoltur í fyrra (99% af harnaðaraðstoðinni koma frá bandamönnum í NATO). Og yfirgnæfandi hluti vopnasendinganna vestanfrá til Úkraínu er framleiddur í Bandaríkjunum.
En Bandaríkin þurfa pásu og endurskipulagningu, og þurfa þess vegna að tala friðsamlega við Rússa á meðan. Friðmæli þeirra við Rússa stafa líka af þeirri herfræði að óráð sé að berjast við alla andstæðinga sína í einu. „Evrópa“ verður að taka að sér Rússland á meðan. Og verða talsvert sjálfstæðari.
Stjórnmálastétt „Evrópu“ á sér drauma. En til að „Evrópa geti orðið einhvers konar heimsveldi, kannski hliðarheimsveldi, eins og málum er komið nú um stundir þarf hún að verða sjálfstæðari hernaðarlega. Til þess þarf hún að breyta löndum sínum sínum: í stuttu máli að breyta þeim úr velferðarríkjum í vígvæðingarríki.
Enda dró Financial Times á leiðaraopnu 5. mars einmitt þá rökréttu ályktun af boðskap Ursulu von der Leyen tveimur dögum áður: „Europe must trim its welfare state to build a warfare state.“
Til sð svo megi verða er nauðsynlegt, meira en nokkru sinni fyrr, að útmála Rússland sem mikla ógn fyrir Evrópu. Þannig að meðan Bandaríkin þurfa að friðmælast við Rússland til að endurskipuleggja sig sjá Evrópuleiðtogar um stríðsæsinginn. Macron steig fram 5. mars og mælti: „Rússland er ógn við Frakkland og Evrópu“. Viku fyrr hafði Starmer sagt (á leið sinni til Trumps): „Putin will strike again“. Mette Frederiksen sló því m.a.s. fram að Rússland gæti verið “ved at gøre sig klar til at angribe andre lande” án þess að nefna neinar upplýsingar í því sambandi.
Það á ekki að gera grín að evrópskum stjórnmálamönnum. Ég kaupi það alls ekki að þeir séu almennt raunverulega hræddir um að Rússar séu að koma æðandi í vestur. Hvað þá að þeir trúi þvi að Kína ógni Bandaríkjunum og Evrópu. En stríðshaukar eins og Keir Starmer og Mette Frederiksen eru stórhættulegir stjórnmálamenn sem nú hafa það hlutverk að píska upp hernaðarhyggjuna í Evrópu.
Friðartónarnir frá Washington eru falskir. Sjálfstæðisuppreisn Evrópu er jafnfölsk. „Endurvopnun Evrópu“ er hins vegar raunveruleg og endurspeglar einfaldlega imperíalískar, hernaðarsinnaðar ætlanir Bandarísk-evrópska heimsveldisins.