Fara í efni

FRIÐÞÆGING SAMFYLKING-ARINNAR

Þau voru athyglisverð ummæli Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, í liðinni viku. Lúðvík var spurður út í enn eina ályktun Ungra jafnaðarmanna gegn stefnu ríkisstjórnarinnar sem flokkur hans á aðild að. Í þetta sinn snerist það um ummæli Árna Mattiesen um umboðsmann Alþingis, en það hefði allt eins getað snúið að álversuppbyggingu í Helguvík. Lúðvík sagði þá að það væri eðlilegt að ungliðarnir væru ósammála, þeir væru nefnilega samviska flokksins. Sem þýðir auðvitað að Samfylkingin er sjálf flokkur án samvisku, samviskulaus í valdagræðgi sinni.

Þetta er ekki bara orðhengilsháttur því Lúðvík veit hvað hann er að segja. Ungir jafnaðarmenn eru orðin friðþæging Samfylkingarinnar þegar flokkurinn svíkur loforð sín við kjósendur. Ef ráðherrar flokksins vilja virkja í Þjórsá, reisa álver eða styðja glórulausar embættisveitingar eru ungliðarnir sjálfkrafa dregnir fram til að sýna að ráðherrarnir séu í það minnsta að gera það gegn vilja sínum.

Málunum er þannig drepið á dreif með því að endurskilgreina ágreininginn sem muninn á afstöðu þeirra sem hafa valdið, lentu kannski í því gegn vilja sínum, og svo þeirra sem eru frjálsir til að láta samviskuna ráða för. Í seinni hópnum eru, fyrir utan Ungra jafnaðarmenn sjálfa, allir þeir sem kusu Samfylkinguna í þeirri von að við tæki ríkisstjórn sem breytti atvinnustefnu landsins. Þessi hópur tekur ekki slaginn við þá sem hafa valdið og geta einhverju breytt vegna þess að Ungum jafnaðarmönnum hefur með ályktunum sínum tekist að sannfæra hann um að valdhafarnir séu ekki sammála því sem þeir ákveða.

(Eitt ráð í leiðinni fyrir verðandi ráðherra: Almennt séð er taktíkin sú að ef maður vill gera A þá byrjar maður á að segjast alls ekki vilja gera A. Svo gerir maður A. Og um leið og einhver gagnrýnir að maður gerði A er bent á að maður hafi nú alltaf verið á móti því að A væri gert, en A sé því miður staðreynd og ekkert við því að gera nema að halda áfram að gera B og C og D.)

Kjarni málsins er sá að málið er mjög einfalt: Ágreiningurinn er ekki á milli þeirra sem hafa valdið og þeirra sem eru frjálsir til að lýsa skoðunum sínum, heldur á milli þeirra sem vilja stóriðjustefnuna og þeirra sem vilja hana ekki. Sá ágreiningurinn snýst ekki um vald og ráðherrastóla heldur pólitíska sýn. Og hún er óháð valdastólum.