Fjórar tilvitnanir sem lýsa samhengi Úkraínustríðsins
Fyrsta tilvitnun
„Nú vinnum við ætlunarverk NATO“, segir varnarmálaráðherra Úkraínu, Oleksiy Reznikov. Í viðtali í úkraínsku sjónvarpi 5. janúar sl. talaði hann um hvernig hernaður Úkraínuhers fellur að verkefnum NATO. Nánar sagði Reznikov: „Þeir skilja þetta alveg núna. Við sögðum þeim það áður og þeir brostu. En núna segja kollegar mínir, varnarmálaráðherrarnir, skýrt í ræðum sínum: „Við gerum okkur grein fyrir að þið verndið allan hinn siðmenntaða heim, allt Vestrið, þið eruð hinn sanni skjöldur siðmenningarinnar.“ Þannig að nú vinnum við ætlunarverk NATO. Þeir fórna ekki blóði sínu, við fórnum okkar blóði, það útheimtir að þeir sjái okkur fyrir vopnum.“ https://twitter.com/aaronjmate/status/1613086637571080192
Síðastliðið vor skilgreindum við hér á Neistum hvað væri „staðgengilsstríð“, svohljóðandi: „utanaðkomandi stórveldi veitir veikara ríki efnahags- og vopnahjálp til að heyja stríð gegn stórveldisandstæðingi sem fyrrnefnda stórveldið vill skaða. Minna ríkið þarf hins vegar að vinna sjálft verkið, með lífi sínu og blóði.“ Samkvæmt orðum Reznikovs er Úkrína og Úkraínuher einmitt í því hlutverki, og upplifa sig sem staðgengil.
Þetta var frá sjónarhóli staðgengilsins. En sá sem hann staðgengur fyrir, lítur hann eins á málið? Leon Panetta var varnarmálaráðherra Obama-stjórnarinnar 2011-2013. Í viðtali hjá Bloomberg í mars í fyrra skilgreindi hann framlag Bandaríkjanna til Úkraínustríðsins svo:
Önnur tilvitnun
«Í fyrsta lagi, einasta aðferðin til að fást við Pútín er að tvöfalda framlag okkar. Sem þýðir að veita eins mikla hernaðaraðstoð til Úkraínumanna og nauðsynlegt er þannig að þeir geti haldið áfram að berjast við Rússana... Við erum þátttakendur í átökum þarna. Það er staðgengilsstríð við Rússland hvort sem við segjum það eða ekki. Það er það sem í reynd á sér stað. Og af þeirri ástæðu verðum við að vera viss um að við veitum eins mikið af vopnum og mögulegt er... Ekki vera í vafa, diplómatík er gagnslaus nema við höfum áhrif. Og aðferðin til að hafa áhrif er að fara inn og drepa Rússa. Það er það sem Úkraínumenn verða að gera. Við verðum að halda áfram hernaðaraðstoðinni... Af því þetta er valdatafl.» https://www.bloomberg.com/news/videos/2022-03-17/u-s-is-in-a-proxy-war-with-russia-panetta-video
Þriðja tilvitnun
Þá kemur að spurningunni um tilgang og markmið með slíku staðgengilsstríði. Látum starfandi varnarmálaráðherra BNA, Loyd Austin, svara þessu. Eftir fund með Zelensky í Kíev í apríl sl. sagði hann að Úkraínumenn skyldu fá «allt sem þeir vilja af vopnum» til að verja frelsi sitt og fullveldi. Spurður nánar út í «markmið Bandaríkjanna» í Úkraínustríðinu svaraði hann skýrt: «Við viljum sjá Rússland veikjast það mikið að það geti ekki gert þess konar hluti sem það hefur gert við Úkraínu.» https://www.commondreams.org/views/2022/04/26/us-secretary-defense-admits-real-strategic-goal-ukraine-quagmire-russia Stríðið er þá ekki bara frelsisstríð Úkraínu heldur snýst um geopólitík, valdatafl stórvelda, þ.e.a.s. að veikja Rússland. Markmiðið að „veikja Rússland“ hlýtur að vera liður í einhverju stærra samhengi (annað væri mannvonska án tilgangs). Í Bandaríkjunum eru langtíma hernaðaráætlanir ekki lagðar í þjóðkjörnum samkundum heldur í nokkrum valdamiklum hugveitum (thinktank). Hugveitan RAND Corporation er ein slík, búin til af og fyrir hernaðarráðuneytið Pentagon og leggur reglulega fram strategíu fyrir Bandaríkjaher.
Fjórða tilvitnun
Árið 2019 lagði RAND Corporation fram áætlunina „Að teygja Rússland“ (Extending Russia). Þetta er áætlun í nokkrum skrefum. Í inngangi ritlingsins stendur: „þessi skref ber að skilja sem aðgerðir sem muni láta Rússa keppa á sviðum þar sem Bandaríkin hafa samkeppnisforskot og láta Rússland þannig yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega eða láta stjórnvöld þar í landi tapa tiltrú og áhrifum heima fyrir eða alþjóðlega.“ Ritið má sjá hér: https://www.rand.org/content/dam/rand/pubs/research_reports/RR3000/RR3063/RAND_RR3063.pdf Að „láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega“ segir inngangurinn. Á eftir innganginum kemur efnisyfirlit. Það talar sínu máli. Þriðji kaflinn heitir „Efnahagslegar aðgerðir“ (takið eftir, þetta eru aðgerðir sem Bandaríkin skulu grípa til). Millifyrirsagnirnar tala sínu máli: „Aðgerð 1: Hindra olíuútflutning þeirra… Aðgerð 2: Minnka gasútflutning og hindra uppbyggingu á flutningsleiðslum… Aðgerð 3: Koma á efnahags-refsiaðgerðum... Aðgerð 4: Auka rússneskan atgerfisflótta.“ Jæja, fjórði kafli ritsins heitir svo „Geopólitískar aðgerðir“. (Geopolitical Measures). Þær aðgerðir ganga allar út á það hvernig Bandaríkin geti bakað Rússum aukin vandræði á nærsvæðum sínum sem láti þá sýna klærnar og grípa til óyndisúrræða á móti. Millifyrirsagnirnar: „Aðgerð 1: Veita Úkraínu vopnaaðstoð… Aðgerð 2: Auka stuðning við sýrlenska uppreisnarmenn… Aðgerð 3: Stuðla að valdaskiptum í Hvítarússlandi… Aðgerð 4: Nýta spennuna í Kákasuslöndum… Aðgerð 5: Draga úr áhrifum Rússlands í Mið-Asíu… Aðgerð 6: Skora Rússland á hólm í Moldóvu.“
Takið eftir að þetta er skrifað árið 2019, tveimur árum fyrir innrás Rússa í Úkraínu. Og hvað flestar þessar áformuðu aðgerðir snertir hafa Bandaríkin ekki setið við orðin tóm heldur unnið vel og kerfisbundið að framkvæmdahliðinni, bæði á hinu efnahagslega og hinu geópólitíska sviði.
Tilvitnanirnar skýra stríðið vel
Okkur er sagt í það óendanlega af stóru fréttastöðvunum (og endurvarpsstöðvunum íslensku) að stríðið standi bara milli Rússlands og Úkraínu. En eins og þessar tilvitnanir sýna er það að auki (og aðallega) staðgengilsstríð Rússlands annars vegar og Bandaríkjanna og NATO hins vegar með Úkraínu sem staðgengil sem leggur til mannslífin og fallbyssufóðrið (þannig líta Rússar líka á málið). Auk þess sem stríðið er liður í ítarlegri áætlun frá Pentagon um að veikja Rússland. Okkur er líka sagt – í það óendanlega – að árás Rússa hafi verið alveg „án tilefnis“ (unprovoked). En öll áætlun RAND/Pentagon frá 2019 um að „teygja Rússland“ er sería af ögrunaraðgerðum sem áttu að þjóna þeim tilgangi að fá Rússa til að grípa til mótaðgerða sem myndu ýta þeim út í dý (quagmire Russia). Og innrásin í febrúar 2022 bendir m.a.s. til að ögrunaraðgerðirnar hafi skilað árangri. RAND Corporation nefnir þó ekki þungvægustu ögrunaraðgerð BNA/NATO og þungvægasta réttlætingarefni Pútíns fyrir mótleik sínum, þ.e.a.s. útvíkkun NATO í austur, þvert á gefin loforð frá 1990. Áðurnefndur Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu sagði þó svolítið um það mál í viðtalinu 5. jan. sem áður var vitnað í. Hann sagði í enskri þýðingu: "Ukraine as a country, and the armed forces of Ukraine, became member of Nato. De facto, not de jure.“ Sem útleggst: Úkraína sem land, og herafli Úkraínu, gerðist aðili að NATO, í reynd, ekki lagalega.
Þessi grein birtist einnig á neistar.is