Glæpaverk Ísraels á Gasa: viðbragðsleysi ríkisstjórnarinnar og viðbrögð VG
Þar sem ég er félagi í Vinstrihreyfingunni grænu framboði hef ég svolítið verið að nýta mér innri vettvang flokksins til að brýna hann til að beita áhrifum sínum enn frekar til andófs gegn glæpaverkum Ísraels á Gasa og til stuðnings Palestínumönnum. Þar sem ég tel margt af því eiga erindi út fyrir þann hóp birti ég hér samantekt á því sem ég hef lagt til málanna.
Vissulega fordæmdi stjórn VG framgöngu Ísraelshers í ályktun 14. október. Það er alveg skýrt ef maður staldrar við og les tvisvar. Eftir almenna fordæmingu á árásir og morð á almennum borgurum, áminningu um að alþjóðleg friðarhyggja sé ein af grunnstoðum VG og um skaðsemi hernaðar er klykkt út með: „Íslensk stjórnvöld eiga að tala skýrt fyrir því að alþjóðalögum sé beitt til að vernda íbúa Palestínu og fordæma framgöngu Ísraelshers – eins og hryðjuverk Hamas fyrir nokkrum dögum.“
Það er reyndar athyglisvert og jákvætt að gerð er krafa til íslenskra stjórnvalda, sem VG er nú heldur betur hluti af.
Vel að merkja: hversu mjög sem við fordæmum fjöldamorð al-Qassam-hersveitanna 7. október geta þær aldrei réttlætt þessi ofsafengnu viðbrögð Ísraels
Hinn 24. febrúar 2022, sama dag og rússneskar hersveitir réðust inn í Úkraínu, birtist á vef stjórnarráðsins tilkynning um að „Íslensk stjórnvöld fordæma harðlega víðtækar árásir rússneskra stjórnvalda á Úkraínu og lýsa harmi yfir þeirri eyðileggingu og þjáningu sem slík innrás óhjákvæmilega veldur.“ Og síðan fylgja mjög einarðar yfirlýsingar forsætisráðherra og utanríkisráðherra. 9. júní 2023 birtist svo frétt á sama vettvangi: „Utanríkisráðherra hefur ákveðið að leggja niður starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu frá 1. ágúst næstkomandi.“
Nú hafa í meira en tvær vikur staðið yfir stöðugar loftárásir Ísraela á þéttbýlið á Gasa auk aðgerða til að skrúfa fyrir vatn og rafmagn og hindra að miklu leyti aðgang að mat og lyfjum og fleiri nauðsynjunum, allt klárleg brot á alþjóðalögum.
Enn hefur ekkert heyrst frá íslenskum stjórnvöldum annað en að Ísrael hafi rétt til að verjast „innan ramma alþjóðalaga“. Þau fordæmdu vissulega árásina á Ahli Arab sjúkrahúsið á Gasa 17. október án þess að nefna Ísrael á nafn, enda deilt um hver beri ábyrgð á árásinni: „Iceland condemns any attacks on hospitals,“ segir í Twitter-færslu forsætisráðherra. Fréttir hafa borist af atlögum Ísraels gegn fleiri sjúkrahúsum, ef ekki með árásum, þá á annan hátt: „Í yfirlýsingu frá stofnuninni [Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni] segir að 21 sjúkrahús í Gasa hafi fengið skipun frá Ísraelsher um að þau þyrfti að rýma og telur stofnunin að það geti jafngilt broti á alþjóðlegum mannúðarlögum.“ Þetta birtist á Mbl.is 15. október. Íslensk stjórnvöld hafa ekkert sagt um það svo mér sé kunnugt.
Í lok mótmælastöðu við Ráðherrabústaðinn að morgni 18. október kom Katrín Jakobsdóttir út og tók við áskorun til ríkisstjórnarinnar sem var undirrituð af um 2000 manns. Við móttöku áskorunarinnar sagði hún:
„Takk fyrir þetta og ég veit að það er mikill fjöldi langt um fram þennan fjölda sem styður ykkar málstað. Við höfum auðvitað fordæmt, núna síðast, árásina á spítalann á Gasa og erum búin að taka undir og styðja kröfuna um að opna aðgang fyrir neyðaraðstoð og erum búin að bæta í neyðaraðstoð til Palestínu. Þannig að við erum að stíga skref og okkar eindregna afstaða er að morð á óbreyttum borgurum eru aldrei réttlætanleg. Við tölum alltaf fyrir tveggja ríkja lausninni,“ sagði Katrín þegar hún tók á móti listanum.
Ég verð að segja að frammi fyrir hroðalegum glæpaverkum Ísraela á Gasa er þau skref ótrúlega varfærin sem íslensk stjórnvöld eru að stíga.
Sagt er að þögn sé sama og samþykki. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við árásunum á Gasa þykja mér jafngilda þögn. Og þar með samþykki. Það er kannski kominn tími til að forysta VG taki ályktun stjórnar VG alvarlega og setji samstarfsflokkum sínum úrslitakosti
Í stjórnmálaályktun flokkstjórnarfundar Samfylkingarinnar 14. október kom fram fordæming á stríðsglæpi Ísraels – og Hamas-samtakanna, án þess að vefja því inn í almennt tal um hernað og friðarhyggju. Daginn eftir birtist ályktun frá þingflokki Samfylkingarinnar sem var enn afdráttarlausari. Jafnframt kom fram að þingmenn Samfylkingarinnar í utanríkismálanefnd Alþingis hafa kallað eftir að utanríkisráðherra Íslands komi hið fyrsta á fund nefndarinnar til að ræða viðbrögð ríkisstjórnar Íslands við ástandinu. Hvort af þeim fundi hafi orðið veit ég ekki.
Að minnsta kosti tveir þingmenn Pírata, Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir og Gísli Rafn Ólafsson, hafa tjáð sig með þeim hætti í umræðum á Alþingi að ekki verður skilið öðru vísi en þau fordæmi aðgerðir Ísraels.
Ég hef ekki séð viðbrögð frá öðrum flokkum eða þingmönnum nema frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem virðist styðja Ísrael af einlægni – og svo auðvitað frá þingmönnum og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins.
En þess má geta að vorið 2021 stóðu þingmenn frá Pírötum, Vinstri grænum, Samfylkingunni, Viðreisn og Framsóknarflokknum saman að þingsályktunartillögu um að „að fordæma harðlega ofbeldisaðgerðir ísraelsks herliðs gegn palestínsku þjóðinni sem og landtökustefnu Ísraelsstjórnar“.
Gæti verið hugsanlegt að ná sömu samstöðu nú þegar flestum öðrum en Bjarna Benediktssyni, Þórdísi Kolbrúnu, Diljá Mist og Sigmundi Davíð er orðið ljóst að Ísrael er að fremja stríðsglæpi? Að Alþingi taki af skarið.
En svo því sé nú haldið til haga, þá er ég nokkru eldri en tvævetur og geri mér fulla grein fyrir því að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokkinn innanborðs, að ég tali ekki um með húsbóndavald yfir utanríkisráðuneytinu, mun seint fordæma glæpaverk Ísraels, hver svo sem fer með forsætisráðuneytið.
Það var auðvitað nauðsynlegt, og ekki vonum seinna, að stjórn VG ályktaði um málið, en ályktunin hefði mátt vera í aðeins minni umbúðum. En það er líka mikilvægt, ekki síst í ljósi þessarar stöðu VG í stjórnvaldinu, að þingflokkurinn álykti umbúðalaust. Skást væri ef hægt væri að ná meirihluta á Alþingi um þingsályktunartillögu á borð við þá sem kom fram vorið 2021.
Við skulum hafa í huga að á meðan óbreyttir borgarar á Gasa eru drepnir og limlestir tugum og jafnvel hundruðum saman upp á hvern dag, þar af um þriðjungur börn, og þeir sem lifa sviptir öllum bjargráðum, þá heita leiðtogar voldugustu vestrænna ríkja, bandalagsríkja okkar, ofbeldismönnunum áframhaldandi stuðning.
Við verðum að tala hærra og skýrar – og þess er krafist af okkur.