Hugmyndaauðgi og snilldarlausnir
Ég hef alltaf dáðst að hugmyndaríku fólki, sennilega vegna þess að sjálfur er ég hugmyndasnauður með afbrigðum. Þetta fólk er stöðugt með frjóan huga og sífellt með snjallar lausnir á öllum vandamálum, sífellt uppspretta aðdáunar og jafnvel smávegis öfundar, þótt það sé auðvitað ekki fallegt. En svona er það, þetta er mitt fólk.
Þess vegna eru ráðamenn landsins mínir menn. Sífellt með nýjar hugmyndir og snjallar lausnir, hvort sem það snýr að öryrkjum, lífeyrisþegum, virkjunarmálum, skattaívilnunum láglaunafólks eða vináttu við þá sem ekkert eiga, nema ef til vill fáeina pappíra sem ímyndarfræðingar telja virði eins milljarðs, eða tíu, endalausar hugmyndir, “name it” eins og Oddsson sagði við Bush þegar sá síðarnefndi spurði hvað Oddsson gæti gert fyrir sig.
En ekkert toppar nýjasta útspilið, sjálft fjölmiðlafrumvarpið. Snilldin og hugmyndaauðgin hefur náð nýjum hæðum, svo miklum að venjulegur guðsvolaður vesalingur hlammar sér niður og dæsir í orðlausri aðdáun. Og hvað áttu blessaðir mennirnir að gera? Forsetinn nýbúinn að skamma þá algerlega að ósekju og notaði til þess stjórnarskrá sem allir vita að er ekki pappírsins virði, enda hripuð niður þegar menn voru í óða önn að búa sig í partí, jafnvel búnir að fá sér eina hvannarót eða svo. Þvílíkir sneplar eiga að fara beint í endurvinnslu.
Annars er þetta svolítið skrítið, voru ekki mennirnir rétt búnir að samþykkja marg endurunnin lög sem flestum þótti óvenju góð? Að vísu virtist sem fæstir væru í hópi þessara flestu, en var samt ekki hæstvirtur tilvonandi búinn að segja að nú teldi hann sig öruggan um að stjórnarskráin væri ekki brotin nema pínulítið. Það væri hliðstætt því að bankaræningja væri sleppt við ákæru af því að hann rændi bara pínulitlu.
Svo fáum við að kjósa um þessi lög vorið 2007. Ég ætla að vona að það verði sólríkur dagur sá kjördagur þegar flestir drífa sig að kjósa um fjölmiðlalögin og hugsa ekki um nokkurn hlut annan. Það er naumast að tilvonandi og fyrrverandi ætla að þjóðin sé langræk og væri svo sem allt í lagi ef sú yrði raunin. En hvað á sá sjálfstæðismaður að gera, sem er algerlega á móti fjölmiðlalögunum en vill samt styðja flokkinn sinn áfram, eða vinstri grænn sem sem væri fylgjandi þessum lögum en vildi þrátt fyrir það styðja sína menn til góðra verka?
Hvaða læti eru þetta? sagði Steinn Steinar einu sinni á Hressó og er ekki í kot vísað að gera hans orð að sínum. Þarf að samþykkja þessi lög í blóðspreng á aukaþingi sem boðað er til á allt öðrum forsendum? Í ofanálag eru færð sem rök að það séu þrjú ár til kosninga og nógur tími til þess að breyta lögunum! Nú, og ef allt um þrýtur þá gæti nýtt þing og hugsanlega aðrir ráðamenn breytt lögunum haustið 2007. Fyrst lögin eru svona afburða góð og aðeins pínulítið á skjön við stjórnarskrá, hverju á þá að breyta?
Er nema von að maður sé orðlaus? Það eru ekki aðeins lög nr 2, heldur líka röksemdirnar með þeim sem gera fólk fullt aðdáunar á hugmyndaauðgi ráðamanna. Svo er haldið fram að þetta sé gjörningur Alþingis sem njóti stuðnings 88% þjóðarinnar. Staðreyndin er sú samkvæmt núverandi útskýringum kosninga að stjórnarmeirihlutinn hefur álíka fylgi atkvæðisbærra manna eins og forsetinn sem, eins og allir vita, er nýbúinn að gjörtapa forsetakjöri. Oft hefur það verið svart en lengi getur vont versnað.
Það þarf eitthvað að gera í málinu og það fyrr en seinna. Aðfarir ráðandi ruglukolla væru ekki einu sinni efni í Spaugstofuna, til þess er málið of alvarlegt. Jónína vildi láta stjórnarskrána njóta vafans, nú þarf aumingja stjórnarskráin virkilega á því að halda, ef nokkur vafi er.
Guðmundur R. Jóhannsson