Fara í efni

Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir: SAMFYLKING OG SJÁLFSTÆÐISFLOKKUR Í HAFNARFIRÐI HÖND Í HÖND

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 30. janúar 2007 greiddi bæjarfulltrúi Vinstri grænna atkvæði gegn sameiginlegri tillögu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks um að auglýsa deiliskipulagstillögu Arkís fyrir hönd álbræðslunnar í Straumsvík og gerði sérstaka grein fyrir atkvæði sínu með meðfylgjandi hætti:
Bæjarfulltrúi Vinstri grænna greiðir atkvæði gegn því að samþykkja að auglýsa tillögu að deiliskipulagi Arkís vegna fyrirhugaðrar stækkunar Alcan samkvæmt 25. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Vinstri græn firra sig ekki þeirri ábyrgð að hafa tekið þátt í þeirri vinnu sem lýtur að auknum mengunarvörnum innan marka bæjarins vegna hugsanlegrar stækkunar álbræðslunnar í Straumsvík. Með þátttöku í starfshópi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar fer fjarri að Vinstri græn hafi þar með samþykkt deiliskipulagið sem lýtur að stækkaðri álbræðslu eða beri á nokkurn annan hátt ábyrgð á deiliskipulagstillögu Arkís fyrir hönd Alcan.
Skipulagsforsögn fyrir vinnu við deiliskipulag á landssvæði Alcan var samþykkt 9. maí 2005. Það er því ljóst að starfssvið starfshópsins fólst í því að taka afstöðu til deiliskipulagsins á grundvelli skipulagsforsagnar bæjarins frá maí 2005. Í því tilliti er einkennilegt að gefa í skyn þverpólitíska samstöðu í bæjarstjórn í dag, þegar skipulagsforsögnin var samþykkt af bæjarfulltrúum seinasta kjörtímabils.
Sem bæjarfulltrúi Vinstri grænna hef ég því enn og aftur ítrekað andstöðu okkar við fyrirhugaða stækkun álbræðslunnar í Straumsvík og fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu Arkís fyrir hönd Alcan. Vinstri græn í Hafnarfirði munu berjast gegn samþykkt hins nýja deiliskipulags því fyrirhuguð íbúakosning er í raun um stækkun Alcan en ekki deiliskipulag. Því skorar VG í Hafnarfirði á alla Hafnfirðinga að fella tillöguna um deiliskipulagið til að koma í veg fyrir stækkun álbræðslunnar í Straumsvík.